Málefni Palestínu

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:16:25 (7735)

2002-04-18 11:16:25# 127. lþ. 122.96 fundur 522#B málefni Palestínu# (aths. um störf þingsins), ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:16]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að taka upp málefni Palestínu sem við höfum mörgum sinnum rætt hér í vetur. Ég vil ræða við hæstv. forsrh. um möguleikana á að íslenska ríkisstjórnin veiti sérstaka fjárhagsaðstoð til að aðstoða flóttamenn í Palestínu.

Nú hefur komið fram að hér í þessum sölum ríkir breið samstaða með baráttu Palestínumanna. Við vitum öll af fregnum undangenginna vikna að þar hefur ríkt óöld og í kjölfar hennar mikil vesöld vegna þess að Ísraelar hafa farið með harðfylgi gegn Palestínumönnum og sprengt í loft upp skólahús, heilsugæslustöðvar, spítala og sjúkrabifreiðar. Þeir hafa jafnvel orðið sekir um að meina starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar að sækja særða og látna og koma þeim í hús.

Í löndunum í kringum okkur hefur vaknað vilji til að styrkja palestínska flóttamenn. Ég vísa til þess, herra forseti, að hæstv. forsrh. er nýkominn úr heimsókn frá Noregi þar sem hann átti m.a. viðræður við Bondevik, forsætisráðherra Norðmanna. Í norska þinginu hefur fyrrum utanríkisráðherra og formaður norska Verkamannaflokksins, Jagland, lagt til að Norðmenn stofni sérstakan sjóð með 100 millj. norskra króna framlagi til að aðstoða flóttamenn í Palestínu. Undir þetta tók forsætisráðherra Noregs heils hugar.

Mig langar því að inna hæstv. forsrh. Íslands eftir því hvort hann telji ekki rétt, í ljósi þeirrar breiðu samstöðu sem er í þessum sölum og þeirrar miklu samúðar sem ríkir meðal stjórnmálamanna allra flokka sem hér sitja, að íslenska ríkisstjórnin geri slíkt hið sama, reiði af höndum fjárupphæð til að hlynna að og aðstoða flóttamenn í Palestínu. Íslenska ríkið hefur áður gert það með myndarlegum hætti og við munum afdrif þess; Ísraelar sprengdu skólahúsnæði og heilsugæslustöð sem við lögðum fram í loft upp. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort hann væri ekki reiðubúinn til að beita sér fyrir þessu innan ríkisstjórnarinnar.