Málefni Palestínu

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:21:37 (7738)

2002-04-18 11:21:37# 127. lþ. 122.96 fundur 522#B málefni Palestínu# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:21]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Verkin tala. Það efast enginn um stórhug íslensku ríkisstjórnarinnar og stórlyndi íslensku þjóðarinnar þegar Palestína er annars vegar. Það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að ríkisstjórnin og Íslendingar hafa reitt af höndum fé sem hefur nýst vel til uppbyggingar í Palestínu. Illu heilli hefur það allt beinlínis verið sprengt í loft upp.

Ég þakka hæstv. forsrh. hjartanlega fyrir þær góðu undirtektir sem frá honum koma við þessari hugmynd minni. Hæstv. forsrh. lýsti því hér yfir að hann teldi koma sterklega til greina að þegar um hægðist og menn sæju svona hvernig þróunin yrði þarna mundi ríkisstjórn Íslands aftur velta fyrir sér með hvaða hætti hún gæti komið þarna til styrktar. Ég skil orð hæstv. forsrh. þannig að hann muni á þeim tímapunkti leggja til einhvers konar fjárframlög til styrktar palestínskum flóttamönnum og þakka honum kærlega fyrir þær undirtektir.