Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:23:03 (7787)

2002-04-18 14:23:03# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, Frsm. meiri hluta SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um brottfall laga nr. 54/1974, um Þjóðhagsstofnun, með síðari breytingum og fleira frá meiri hluta efh.- og viðskn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga aðila til viðræðna um það. Það kom allt saman að góðu gagni við umfjöllun nefndarinnar. Einnig bárust nefndinni nokkrar umsagnir um frv.

Í frumvarpinu er lagt til að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður, en verkefni hennar færð til skyldra sviða fjármálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Í meginatriðum er miðað við að þau verkefni Þjóðhagsstofnunar sem lúta að opinberri hagskýrslugerð verði færð til Hagstofunnar, en gerð efnahagsspáa og áætlana og efnahagsráðgjöf verði færð til efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis. Jafnframt er gert ráð fyrir að aðrir aðilar á borð við Seðlabanka Íslands, aðila vinnumarkaðarins og einkaaðila geti tekið að sér og sinnt einhverjum verkefnum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við gildistöku laganna verði starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar boðið annað starf hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnum hennar. Í greinargerð segir um þetta að leitast verði við að bjóða starfsmönnum að sinna svipuðum verkefnum og þeir hafa áður sinnt þar sem jafnframt verði þó höfð hliðsjón af óhjákvæmilegum breytingum sem fylgja breyttri verkefnaskipan. Meiri hlutinn bendir á að með þessu er í raun átt við að hverjum og einum starfsmanni verði boðið starf og látið á það reyna hvort sameiginlegur skilningur viðkomandi starfsmanns og vinnuveitanda hans næst um það að starfið sé sambærilegt fyrra starfi hans. Ef slíkur skilningur næst ekki getur vaknað upp biðlaunaréttur starfsfólks Þjóðhagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á frumvarpinu sem snúa eingöngu að samræmingu laga sem hafa að geyma ákvæði um Þjóðhagsstofnun við niðurlagningu hennar. Ekki er um efnisbreytingar að ræða.

Herra forseti. Ég geri nokkur atriði þessa máls að frekara umtalsefni. Mikil áhersla hefur verið lögð á það við undirbúning og vinnslu málsins að sú upplýsingaöflun sem hefur átt sér stað hjá Þjóðhagsstofnun verði áfram tryggð, sem og þau gagnasöfn sem orðið hafa til í gegnum tíðina. Öll sú upplýsingagjöf sem Þjóðhagsstofnun hefur veitt verður áfram fyrir hendi. Séð verður fyrir öllum þeim verkefnum sem Þjóðhagsstofnun hefur haft með hendi en í meginatriðum er miðað við að þau verkefni stofnunarinnar sem lúta að opinberri hagsýslugerð, flytjist til Hagstofunnar, en efnahagsskrifstofa fjmrn. taki að sér gerð efnahagsspáa og áætlana, auk efnahagsráðgjafar. Á undanförnum árum hefur fjármálaráðuneytið eflt starfsemi sína á þessu sviði, þar sem nauðsynlegt er að það geti lagt sem best mat á þróun og horfur í efnahagsmálum, vegna fjárlagagerðar og hagstjórnar.

Gert er ráð fyrir að starfsemi Hagstofunnar verði endurskipulögð og efld mjög samkvæmt frv. Um leið og hún tekur við þeim verkefnum Þjóðhagsstofnunar sem snúa að þjóðhagsreikningum og hagskýrslugerð, verða samtímis flutt frá henni verkefni sem ekki tilheyra hagskýrslugerðinni beinlínis, eins og þjóðskrá, almannaskráning og skráning fyrirtækja. Skýrslugerðin er betur komin hjá Hagstofunni en Þjóðhagsstofnun, þar sem meginverkefni Þjóðhagsstofnunar hefur verið að gera efnahagsspár. Hagræðið sem fólgið er í niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar, felst ekki síst í því að fyrirsjáanlegt er að aðrar stofnanir muni byggja sig verulega upp. Auk þess er gert ráð fyrir því í frv. að ráðuneytisstaða Hagstofunnar verði afnumin á næstunni og Hagstofan gerð að stofnun sem heyri undir forsrh. Með þessum breytingum yrði Hagstofan hrein hagsýslustofnun með skýrt afmörkuð verkefni. Miðað er við að þau verkefni sem flutt verða frá Hagstofunni við breytingarnar, verði falin embætti ríkisskattstjóra.

Gert er ráð fyrir að Seðlabankinn taki við einhverjum verkefnum Þjóðhagsstofnunar, en fram kom hjá fulltrúum bankans sem komu fyrir efh.- og viðskn. að þegar á það muni reyna verði litið grannt til þeirra lagaákvæða sem gilda um bankann og hlutverk hans, svo engin hætta skapist á árekstrum.

Opinber umræða um efnahagsmál fer nú fram á mun breiðari og faglegri grunni en áður var. Enn fremur hefur miðlun upplýsinga um efnahagsmál til almennings farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Þar koma fjölmargar stofnanir við sögu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa um alllangt skeið rekið öfluga starfsemi á þessu sviði sem hefur einkum birst í þætti ASÍ hvað varðar almenna stefnumótun í efnahags- og atvinnumálum. Sama má segja um Samtök atvinnulífsins. Þetta er mikilvægur þáttur í almennri efnahagsumræðu og mótun efnahagsstefnunnar hverju sinni og er nauðsynlegt að renna styrkum stoðum undir hann.

Nokkrar umræður urðu í nefndinni um þessi atriði og sýndist sitt hverjum, m.a. um hlutverk ASÍ. Þar voru önnur launþegasamtök sem gagnrýndu að ekki skyldi gert ráð fyrir að þeirra starfsemi á þessu sviði yrði efld á sama hátt.

Herra forseti. Hér er um mál að ræða sem á sér langan aðdraganda. Til marks um það má nefna að árið 1987 var samþykkt hér á þinginu ályktun um að fela ríkisstjórninni að endurskoða starfsemi Þjóðhagsstofnunar og meta hvort hagkvæmt væri að fela öðrum verkefni hennar. Ekkert varð úr framkvæmd þingsályktunarinnar en einnig vil ég nefna að í samstarfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991 var áformað að endurskoða starfsemi Þjóðhagsstofnunar. Það gekk hins vegar ekki eftir. Það er því ljóst að áform um endurskoðun á starfsemi Þjóðhagsstofnunar eru ekki ný af nálinni eins og ýmsir hafa haldið fram.

Ég vænti þess að við eigum málefnalegar umræður á þinginu um það mikilvæga mál sem hér er á dagskrá og þær verði jafnframt líflegar og fjörugar.