Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:25:18 (7829)

2002-04-18 22:25:18# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:25]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst aðeins örla á því í ræðu hv. þm. og reyndar fleiri þingmanna hér að þeir séu komnir í einhverja samkeppni við framkvæmdarvaldið um að færa fleiri stjórnsýslustofnanir undir þingið. Þingið er fyrst og fremst löggjafarstofnun. Þingið er ekki stjórnsýslustofnun. Þingið á ekki að sækjast eftir slíkum verkefnum. Á hinn bóginn fer afar vel á því að stofnun eins og Ríkisendurskoðun sé sett undir þingið, ekki vegna þess að þingið sé að skipta sér mikið af Ríkisendurskoðun frá degi til dags. Ég held að það gerist mjög lítið og ég held að einstakir þingmenn skipti sér ekkert af Ríkisendurkoðun frá degi til dags. En hún er færð undir þingið, eins og það heitir, til þess að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart framkvæmdarvaldinu sem er eðlilegt vegna þess að þetta er sérstök stofnun sem er til þess sett á laggirnar að veita framkvæmdarvaldinu heilbrigt aðhald og eftirlit. Það finnst mér vera jákvætt og hafa verið skynsamleg og góð breyting. En almennt á ekki að flytja stjórnsýslustofnanir undir löggjafarþingið. Það ruglar þrígreiningu valdsins eins og við þekkjum hana og hún á að vera skýr.

Annað sem ég hef aldrei skilið er tal sem ég hef oft heyrt hér í þessum sal frá því að ég kom hér fyrst fyrir tæpum ellefu árum. Það er tal um að framkvæmdarvaldið sé að styrkjast á kostnað þingsins. Þetta er einhver reginmisskilningur. Í kerfi okkar er staða þingsins gríðarlega sterk. Í fyrsta lagi er það þannig að 18% þingmanna sitja á toppi framkvæmdarvaldsins, þ.e. ríkisstjórnin. Hún kemur öll úr hópi þingmanna. Hún er valin þaðan úr hópi þingmanna, þingflokka frá meiri hluta þingmanna. Það sem menn eru í rauninni að finna að er að stjórnarandstaðan hafi ekki nægilega mikil völd þegar þeir eru að tala um þingið. Það er bara eðli máls samkvæmt. Stjórnarandstaðan er í stjórnarandstöðu og hún hefur ekki völd. Hún veitir aðhald. Hún spyr spurninga og veitir andstöðu samkvæmt orðanna hljóðan. Hún hefur ekki vald. Það má ekki rugla því saman við það að vald þingsins sé að skerðast á nokkurn hátt. Vald þingsins er afar sterkt á Íslandi.