Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:30:50 (7833)

2002-04-18 22:30:50# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:30]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Engar stofnanir ríkisins eru ómissandi, hafa ekki verið og munu ekki verða. Það er í eðli sínu sjálfsagt að fara í endurmat á stöðu og tilgangi hverrar stofnunar fyrir sig og raunar hlutverki ríkisins í heild.

Tillagan sem hér um ræðir er þegar grannt er skoðað í raun engin uppstokkun á því stofnanakerfi sem byggt hefur verið upp hér á landi um áratuga skeið. Í grg. með þessari tillögu er að vísu rakið að endrum og sinnum allt frá stofnun Þjóðhagsstofnunar 1973 hafi menn velt yfir því vöngum hvar og hvernig henni verði best fyrir komið. Á einhverjum stigum hafa menn spurt hvort verkefni hennar mætti færa til annarra aðila. En tillagan sem hér um ræðir, herra forseti, þannig að það sé sagt þráðbeint, á fyrst og síðast rætur í þeirri staðreynd að á árinu 2000 og reyndar aftur ári síðar kastaðist í kekki milli hæstv. forsrh. og forstjóra þessarar stofnunar. Ástæðan var auðvitað öllum ljós sem með fylgdust. Hæstv. forsrh. líkaði ekki það sem frá þessari stofnun kom, verðbólguspár stofnunarinnar voru ekki þær sem hann vildi heyra, efnahagsspár þessarar stofnunar voru ekki jafnjákvæðar og þær sem hæstv. forsrh. vildi sýna almenningi og þjóðinni. Það er auðvitað kjarni þessa máls.

Væri á ferðinni uppstokkun og verkefnatilflutningur, eins og látið er í veðri vaka, á faglegum grundvelli þá mætti spyrja: Hvers vegna er ekki meira að gert? Hvers vegna er ekki farið víðar um sviðið? Í því samhengi væri auðvitað afskaplega freistandi að velta eilítið fyrir sér hvernig staðið hefur verið að rekstri ríkisins í tíð núv. ríkisstjórnar síðustu sjö árin og skoða umfang ríkisumsvifa. Ég spurði hæstv. forsrh. um þau efni í fsp. ekki fyrir margt löngu og í ljós kom að þrátt fyrir að talsvert væri um sölu og formbreytingu á ríkisfyrirtækjum, stórfyrirtækjum --- kannski meiri formbreytingu en sölu --- verður þess ekki vart að ríkisbáknið, eins og ákveðinn stjórnmálaflokkur hefur nú gjarnan nefnt það, hafi farið á undan með góðu fordæmi í að skera niður þjónustu eða draga úr kostnaði við rekstur hennar. Í tíð Sjálfstfl. við stjórnvölinn, og ég held að ég fari rétt með, er nær lagi að kostnaður og útgjöld ríkissjóðs hafi nánast tvöfaldast.

Maður hefði kannski ætlað við fyrstu sýn, þó að hér sé nú ekki um miklar upphæðir að tefla, að menn hefðu notað ferðina, þegar lagt var til atlögu við Þjóðhagsstofnun, til að sjá til þess að einhverjum sparnaði yrði skilað í leiðinni, að einhverjir fjármunir mundu sparast við þessar aðgerðir. Því er hins vegar ekki að heilsa því að fjmrn. sjálft, sem fær þriðjung góssins, kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé um það að ræða. Það er einfaldlega þannig að þessum 132 millj. kr. sem það kostar að reka Þjóðhagsstofnun á ári hverju er skilað, annars vegar til fjmrn., að 1/3, ef ég man rétt, og Hagstofu Íslands að 2/3. Því væri ósköp ánægjulegt að fá við því einhver svör hvort ekki hafi komið til álita að fara í stórtækari uppskurð og athugun á stjórnkerfinu og gaumgæft í leiðinni hvort einhvers staðar mætti spara peninga.

Herra forseti. Þær stofnanir sem eiga að fá þessi verkefni Þjóðhagsstofnunar, m.a. Hagstofa Íslands, sem heyrir undir forsrh. hæstv. þó að hann hafi ekki komið þangað nema einu sinni, held ég að hafi aukið umsvif sín líka, án þess að ég hafi það staðfest og verð að viðurkenna það hreinskilnislega. Ég held að þar hafi talsverð aukning orðið á síðustu áratugum og að umfang þeirrar stofnunar hafi vaxið allverulega. Ég man a.m.k að forðum höfðu menn á tilfinningunni að lítið annað gerðist á Hagstofu Íslands en að þar væru taldir hausar og sú stofnun gerði þjóðinni grein fyrir því hversu mikið henni hefði fjölgað milli ára. Auðvitað er langt síðan en hitt liggur fyrir að umfang og verkefni sem Hagstofan hefur haft með höndum hafa vaxið allverulega ár frá ári. Sumpart hafa þau verkefni sem hún hefur sýslað með skarast við þau sem Þjóðhagsstofnun hefur unnið að. Þar hefur með öðrum orðum orðið aukning.

Í fjmrn. hefur nú heldur betur orðið aukning. Stofnun efnahagsskrifstofu þess ráðuneytis, sem ekki er mjög langt síðan varð til með formlegum hætti, hefur gert það að verkum, og enn hef ég ekki tölur við höndina, að umfang þess ráðuneytis og mannahald hefur stóraukist, á allra síðustu árum. Það er ekkert í líkingu við það sem var fyrir t.d. 20 árum síðan. Á sama hátt má líka segja að sumpart hafi verkefni ráðuneytisins tekið að skarast við þau verkefni sem Þjóðhagsstofnun hefur haft með höndum síðustu 25 árin.

En í þessu samhengi má auðvitað velta fyrir sér, í þessu samhengi sem ég var að velta hér upp, sparnaðinum, hvort aukning á framlögum til þessara undirstofnana, þ.e. til ráðuneytisins annars vegar og Hagstofu Íslands hins vegar, nægði ekki. Þarf þessar 132 milljónir til viðbótar til að bæta um betur þegar látið er í veðri vaka, sem er satt að sumu leyti, að þessi verkefni hafi verið unnin á tveimur stöðum og í sumum tilfellum fleiri stöðum? Það væri freistandi að heyra viðhorf flytjanda og málsvara þessa frv., hvort það sé eðlilegt að hvergi sparist ein aukatekin króna.

Ég segi því, herra forseti, í þessu samhengi að hvað sem öðru líður, þótt þekkt sé í tíð þessarar ríkisstjórnar að menn hafi stór orð um að stokka upp spilin og gera róttækar breytingar, einkanlega hvað varðar sölu ríkisfyrirtækja, hefur ríkisstjórnin býsna lítið gert inn á við, þ.e. varðandi uppstokkun í stjórnkerfi ríkisins. Vissulega hafa einhverjar stofnanir verið fluttar út á land. Það er vel en hefur gengið hægar en efni hafa staðið til. En varðandi vangaveltur og öll áform um að endurskoða með einhverjum hætti lög um Stjórnarráð Íslands hefur lítið gerst og kannski hefur hugur aldrei fylgt máli. Kannski er það álit þessarar ríkisstjórnar að þar þurfi engu að breyta, nóg sé að skipta um andlit á ráðherrastólum endrum og eins og þá sé björninn unninn.

Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að tími sé til þess kominn fyrir allmörgum árum að gera atlögu að endurskoðun laganna um Stjórnarráð Íslands og skoða þau mál heildstætt. Þá mundu menn skoða ýmsa vinnu sem unnin hefur verið í þá veru, til að mynda nefndarinnar frá 1985. Tillögur hennar voru engan veginn óumdeildar. Ég nefni hugmyndir sem er að finna í mínum flokki, Samfylkingunni, í þá veruna, þ.e. varðandi samruna og sparnað í rekstri ríkisins og aukna hagræðingu með samruna ráðuneyta og tilflutningi verkefna milli þeirra.

Herra forseti. Um þetta mætti auðvitað hafa langt mál. Ég vildi hins vegar segja, af því að forsrh. fór yfir það fyrr í dag í tíðum andsvörum, þ.e. samspil framkvæmdarvalds og Alþingis. Hann sagði raunar í sínu síðasta andsvari að Alþingi Íslendinga væri engin stjórnsýslustofnun. Það er alveg laukrétt. Það er það ekki og á ekki að vera það. Það er fyrst og síðast löggjafarsamkunda. En þingið er um leið eftirlitsstofnun með framkvæmdarvaldinu og því er það auðvitað mikilvægt Alþingi að þessi stofnun og þingmenn þjóðarinnar geti haft aðgang að sem traustustu upplýsingum hverju sinni.

Auðvitað verður ævinlega og alltaf deilt um tölur og upplýsingar um efnahagsmál því sínum augum lítur hver silfrið. Slíkar upplýsingar verða ekki veittar þannig að allir verði um þær sammála upp á punkt og prik. Það er hægt að skrökva með tölum eins og öllu öðru. En Alþingi er hins vegar mjög mikilvægt að hafa aðgang að hlutlægri stofnun eða hlutlægum aðilum með sérþekkingu. Að því sögðu hefði mér fundist eðlilegra, fyrst það er ekki markmið ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsrh. að spara á þessu eina einustu krónu, að færa stofnunina í heilu lagi undir Alþingi, breyta eðli hennar og stjórn og eftir efnum og ástæðum innra skipulagi, en að gera úr henni eins konar hagdeild þingsins þar sem þingmenn hefðu aðgang að eigin upplýsingaveitu en þyrftu ekki að sækja til ráðuneyta eða undirstofnana þeirra.

Það á auðvitað alltaf eðli málsins samkvæmt að vera ákveðin togstreita milli þings og framkvæmdarvalds, ekki hatursfullt samband en engu að síður togstreita því hvor hefur eftirlit með hinum. Það er kjarni málsins. Mér hefði fundist það eðlilegri nálgun við málið og í þeim anda er brtt. fulltrúa Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn., sem ég vænti að fái hér góðar viðtökur.

Herra forseti. Að þessu sögðu get ég ekki látið hjá líða að nefna, því að forsrh. vakti sjálfur á því máls, að enginn ráðherra þessarar ríkisstjórnar né fyrri ríkisstjórna mundi með opin augu eða vitandi vits skammta rangar upplýsingar til þingmanna þegar eftir upplýsingum væri leitað með beinum fyrirspurnum eða öðrum hætti. Ekki dettur mér í hug að ætla nokkrum ráðherra fyrr eða síðar að gera slíkt. Á hinn bóginn verður ekki hjá því komist að vekja á því athygli að þær upplýsingar sem veittar eru af hálfu ráðuneytanna á þessu kjörtímabili eingöngu og eftir hefur verið leitað hér af fjölmörgum þingmönnum eru af ýmsum toga. Um þau mál hefur verið rætt allítarlega, m.a. utan dagskrár, í umræðum um störf þingsins og á öðrum vettvangi. Bara örfá dæmi um þetta:

[22:45]

Félmrh. veitti hér upplýsingar um stöðu húsnæðislánakerfisins og húsnæðismála þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir leitaði eftir því. Þær upplýsingar voru vægast sagt illa framreiddar og sennilega er hægt að fullyrða að margt í þeim hafi ekki staðist raunveruleikann, að þær hafi ekki verið réttar með öðrum orðum. Um það fór hér fram í kjölfarið löng umræða á hinu háa Alþingi. Eðli máls samkvæmt sýndist sitt hverjum. En þar var mjög gagnrýniverð framsetning á málum, mjög partísk framsetning á málum og engan veginn hlutlæg upplýsingamiðlun heldur mjög pólitísk.

Samgrh. hefur hér oftar en einu sinni átt orðastað við alþingismenn, til að mynda um málefni Símans þegar alþingismenn hafa óskað eftir því að fá upplýsingar um gang mála þar á bæ. Það hefur nú ekki alltaf gengið sjálfkrafa fyrir sig að fá þær upplýsingar framreiddar. Það er óþarfi að fara mörgum fleiri orðum um það. Það muna allir og vita allir sem með hafa fylgst.

Forsrh. sjálfur hefur eiginlega lagt þá línu hér gagnvart undirmönnum sínum og fagráðherrum sínum að þeim beri ekki að veita tilteknar upplýsingar, einkum og sér í lagi þegar um er að ræða ríkisfyrirtæki sem formbreytt hefur verið og heita nú orðið hlutafélög þó að þau séu að öllu leyti í eigu ríkissjóðs. Því er haldið fram að þá allt í einu skapist það bil á milli þingsins, eftirlitsaðilans, og þessara ríkisstofnana að það megi satt að segja engin tengsl vera þar á milli og allra síst að nokkrar upplýsingar sem að gagni koma megi koma frá þessum stofnunum hingað inn á hið háa Alþingi. Hann hefur gjarnan verið vísað til álitsgerðar eins lögfræðiprófessors frá 1997, ef ég man rétt, Stefán Más Stefánssonar, sem fagmenn og fræðimenn voru allt annað en sammála um. Hann hefur raunar undirbyggt þessi sjónarmið sín. En það er enginn heilagur sannleikur þar fyrirliggjandi og fræðimenn eru langt í frá sammála um þetta. Ég er þeirrar skoðunar og við stjórnmálamenn margir hverjir að hér sé túlkunin afskaplega þröng og það að það eitt að ríkisfyrirtæki fái fyrir aftan sig stafina hf geri það að verkum að það slitni á milli og Alþingi eigi engan rétt á að fá neinar þær upplýsingar sem máli skipta við það eitt, stenst ekki að mínu áliti. Ef það stenst lögfræðileg rök þá stenst það klárlega ekki siðferðileg rök eða pólitísk. Um þetta mætti hafa langt mál.

Í þriðja lagi nefni ég dómsmrh. og upplýsingar um löggæslumál. Ég sjálfur spurði dómsmrh. út úr um tiltekinn þátt í starfsemi lögreglunnar, viðbraðgsflýti og annað því um líkt. Þar var hálfsannleikur sagður og ég varð að ganga eftir því nokkrum dögum síðar þegar ég komst að því sjálfur að ekki var allt satt og rétt.

Þetta eru bara örfá dæmi frá þessu kjörtímabili. Eins og ég segi þá dettur mér ekki í hug að ætla að ráðherrar þessarar ríkisstjórnar né nokkurra fyrri komi hér með skrök á vör og ætli sér vísvitandi að blekkja. En þeir eru auðvitað litaðir af pólitískum viðhorfum sínum, litaðir af pólitískri stefnumörkun sinni og segja hlutina með sínum hætti. Um það er bara ekkert að segja. En bara sú staðreynd gerir það að verkum að togstreitan sem ég nefndi fyrr er til staðar, togstreita og stundum tortryggni sem ekki er óeðlileg milli þings, og þá væntanlega stjórnarandstöðu, og þeirra sem valdið hafa í ráðherrastólum. Þetta búum við við og munum alltaf búa við og gerir það að verkum að þörf okkar alþingismanna fyrir eins hlutlægar upplýsingar og nokkur kostur er á, eins traustar upplýsingar og við metum að við þurfum, er mjög brýn.

Þjóðhagsstofnun er ekki yfir gagnrýni hafin, hvorki mína né annarra og eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá er engin stofnun ómissandi. En mér finnst hins vegar umbúnaður þessa máls og aðdragandi allur vera slíkur að betra hefði verið að menn hefðu gert þennan umbúnað öllu heillegri, skoðað málið á víðfeðmari hátt og gert þá þann uppskurð sem nauðsynlegur er á þessari grein ríkisgeirans, notað ferðina og reynt að spara nokkrar krónur, notað ferðina og reynt að styrkja hagdeild Alþingis og haft þetta mál þannig að það beri ekki það svipmót sem það óneitanlega gerir og ég held að við blasi í augum þeirra sem með fylgjast, landsmanna allra, þ.e. að hér sé afrakstur deilu sem upp kom um túlkun ákveðinna haggilda milli þjóðhagsstofustjóra og forsrh. fyrir einu eða tveimur árum.