Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 22:57:38 (7837)

2002-04-18 22:57:38# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[22:57]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Við komumst aldrei að neinni niðurstöðu um þetta, þál. frá 1987 og áform í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 1991. Árið 2002 gerist þetta. Árið 2001 verða þessi upphlaup. Um þetta fáum við aldrei neina niðurstöðu.

Hér var vakin athygli á því að Ríkisendurskoðun endurskoðar þessi hlutafélög. Að vísu hef ég nú verið gagnrýninn á það og raunar fleiri hvernig staðið hefur verið að þeirri endurskoðun því að ríkisendurskoðandi varð sjálfur uppvís að því fyrir einhverjum árum síðan að verktakar sinntu þeirri endurskoðun. Hann skrifaði upp á og sagðist ekki vera ábyrgur að öðru leyti en að hafa skrifað upp á án þess að hafa staðið að þeirri endurskoðun. Það hefur vonandi færst til betri vegar.

Ég vakti athygli á því að með frv. mínu verður gerð grein fyrir þessu í hluthafalögum þannig að þeim litlu köllum sem vilja kaupa með ríkinu í fyrirtækjum eins og Símanum, verður gert ljóst fyrir fram að það gilda um þetta að þessu leytinu til önnur lögmál, nefnilega þau að ekki verður slitið á milli tengsla þings og viðkomandi fyrirtækja við upplýsingagjöf og annað því um líkt.

Rétt að lyktum um opinbera geirann og ég afsaka ef ég hef ruglað með ártöl. Ég spurði út í það, og forsrh. hlýtur að muna eftir því, að um tíu ára skeið hans forsætisráðherrasetu hefur orðið umtalsverð aukning í ríkisgeiranum. Fyrir liggur líka að umtalsverð útgjaldaaukning hefur orðið í hinum opinbera geira. (Forsrh.: Það er vegna kaupmáttaraukningar.) Vegna kaupmáttaraukningar opinberra starfsmanna væntanlega? Það finnst mér býsna einföld skýring því staðreyndin er sú að ríkisgeirinn hefur þanist út þrátt fyrir önnur áform og önnur fróm loforð.