Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 23:38:41 (7843)

2002-04-18 23:38:41# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[23:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þegar frá líður og fram í sækir muni hagræðing nást af þessu vegna þess að það er undirligjandi í málinu og meginástæðan fyrir því að menn fara þessa leið --- og hefur það reyndar verið viðurkennt af flestum ræðumönnum hér --- að augljóst er að nú þegar er um mikinn tvíverknað að ræða í þessum stofnunum. Það getur ekki annað gerst þegar fram í sækir og dregur úr þessum tvíverknaði að sparnaður muni felast í aðgerðunum.

Ég vil enn vekja athygli á því að allir þeir menn sem aðallega hafa unnið að þessu máli fyrir mína hönd, þ.e. ráðuneytisstjórinn í forsrn., hagstofustjóri og sérfræðingur fjmrn. í efnahagsmálum, Bolli Bollason, eiga það sameiginlegt að þeir hafa verið varaforstjórar eða aðstoðarforstjórar Þjóðhagsstofnunar. Þeir fara nú nærri um þessi mál þessir þrír menn --- ég hugsa að ekki hafi nokkrir aðrir menn þrír í landinu getað farið betur í þessi mál nema ef við hefðum haft aðgang að Jóni Sigurðssyni til viðbótar, en hann er upptekinn annars staðar --- sem hafa slíka þekkingu til að bera á innviðum Þjóðhagsstofnunar annars vegar, Hagstofunnar og forsrn., Seðlabankans og fjmrn. hins vegar. Ég hygg því að við hefðum ekki getað fengið aðra menn til þess að samræma þessa starfsemi betur með nýjum hætti. Ég fullyrði að þessir menn eru ekki bara að lúta fyrirmælum viðkomandi ráðherra, í þessu tilfelli forsrh. og hagstofuráðherra, (Gripið fram í.) heldur eru þeir sannfærðir um það, faglega sannfærðir um það að þetta var það skynsamlegasta sem var gert í stöðunni og að augnablikið væri hið rétta til þess að gera það.