2002-04-19 11:18:21# 127. lþ. 123.3 fundur 675. mál: #A alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa# þál. 10/127, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:18]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er að vísu rétt hjá hv. framsögumanni að við stöndum þokkalega að mörgu leyti hér á landi og kannski framar en margar aðrar þjóðir. Þær munu einhvern tíma síðar koma til með að undirgangast þessi ákvæði. Eðlilega hafa ekki margar þjóðir uppfyllt þessi skilyrði vegna þess að fæstir eru í stakk búnir til að uppfylla þau.

Hér á landi er það t.d. ekki svo að við uppfyllum sum ákvæði þessara samþykkta. Ég vil t.d. vekja athygli á 9. gr. á bls. 6, undir yfirskriftinni ,,Efling samvinnu tæknilegs eðlis``. Þar eru talin upp atriði sem aðilar samþykkja að þeir skuli vinna að og ég vil vekja athygli á 2. tölulið: ,,að setja á stofn mennta- og þjálfunarstofnanir fyrir áhafnir fiskiskipa``.

Hér á landi höfum við Stýrimannaskóla og Vélskóla sem mennta yfirmenn. En það er ekki svo að yfirmennirnir séu áhöfn fiskiskips. Yfirleitt eru fleiri í áhöfnun fiskiskipa en bara skipstjórnarmenn og vélstjórar. Síðan höfum við Slysavarnaskóla sjómanna sem þjálfar áhafnir varðandi öryggi. En við höfum ekki stofnun sem þjálfar áhafnir í störfum um borð að öðru leyti en því er snýr að slysavörnum.

Í 3. tölulið 9. gr. er einnig talað um að að útvega tæki og aðstöðu fyrir mennta- og þjálfunarstofnanir. Það hefur auðvitað verið talað talsvert um þetta á undanförnum árum, að taka upp kennslu fyrir undirmenn. Það hefur hins vegar ekki komist á. Þess vegna er það svo að þessi samþykkt er enn þá ekki þannig að við getum haldið því fram með góðri samvisku að við uppfyllum hana.