2002-04-19 11:22:00# 127. lþ. 123.3 fundur 675. mál: #A alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa# þál. 10/127, GHall
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:22]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vil aðeins geta þess að nefnd er að störfum varðandi STCW í tengslum við kaupskip. Í þeirri vinnu er gert ráð fyrir að jafnt yfirmenn sem undirmenn, þ.e. hásetar, fari á námskeið áður en þeir hefja störf á sjó eða uppfylli a.m.k. þau ákvæði og skilyrði sem nú eru gerð til skipa sem koma í erlendar hafnir. Hér er reglan sú að 25% þeirra erlendu skipa sem koma í íslenska höfn eru skoðuð af Siglingastofnun. Þar eru einmitt tekið út skírteini manna, hvaða réttindi þeir hafa o.s.frv.

En varðandi menntunarmál sjómanna þá er það kapítuli út af fyrir sig. Hins vegar veit ég að í umræðunni hjá hæstv. menntmrh. eru einhverjar breytingar á kennsluháttum og rekstri Sjómannaskóla Íslands, þ.e. sjómannaskólans á Rauðarárholti, Stýrimannaskólans og Vélskólans. Ég vildi líka geta þess hér að í sjómannasamtökum í Reykjavík og Hafnarfirði eru fulltrúar allra stéttarfélaga, skipstjóra, stýrimanna og háseta. Þau hafa sent menntmrh. bréf þar sem óskað er eftir því að samtökin fái aðild að þeirri umræðu sem nú fer fram um breyttan rekstur Sjómannaskólans eða að vita hvað þar er á döfinni.

Ég skil það hins vegar svo að með STCW-F samþykktinni, þessari alþjóðasamþykkt um fiskiskip, verði gerð meiri krafa til okkar Íslendinga sem leiði af sér að menntmrn. verður að taka upp aðra hætti en nú eru varðandi kennslu og þjálfun allra sjómanna, jafnt sjómanna á fiskiskipum sem á kaupskipum og er það vel. Það hefur auðvitað vakið athygli og áhyggjur manna hvernig komið er fyrir sjómannamenntuninni á Íslandi. Ég vona að það sem við erum að fjalla um hér verði til að gefa málinu góðan kraft til að hefja menntun sjómannastéttarinnar til vegs á ný.