2002-04-19 11:24:40# 127. lþ. 123.3 fundur 675. mál: #A alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa# þál. 10/127, GAK
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[11:24]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það er rétt að gera hér að umræðuefni að eins og staðan er í Stýrimannaskólanum á hann eðlilega að sinna endurþjálfun fólks og bjóða upp á sérstök námskeið þannig að mönnum sé gert kleift að viðhalda réttindum sínum. Meðal annars er staðan sú og rétt að greina frá því hér að í Stýrimannaskólann vantar siglingahermi, þ.e. ratsjársiglingahermi með svokölluðu ARPA-siglingakerfi. Síðast þegar ég vissi var ekki komin heimild frá menntmrn. til að kaupa slík tæki til endurnýjunar þeirra sem hafa bilað á undanförnum mánuðum. Meðan sú staða er uppi getur Stýrimannaskólinn ekki veitt þau námskeið. Þar af leiðandi sitjum við uppi með þetta að skólastofnunin okkar, sem á m.a. að sjá til að við uppfyllum alþjóðlegar kröfur og sjá til að mönnum sé kleift að fara á þau námskeið sem þeir eiga að fara á á fimm ára fresti til þess að viðhalda réttindum sínum, getur ekki sinnt því. Því miður er staðan þannig eftir því sem ég best veit. Ég vona vissulega að eitthvað hafi gerst í því sem ég veit ekki um og búið sé að heimila Stýrimannaskólanum að endurnýja þennan tækjakost.

Sé staðan eins og ég hef lýst þá stenst Stýrimannaskólinn ekki alþjóðlegar kröfur. Við uppfyllum þannig ekki skilyrði Alþjóðasiglingamálastofnunar um þjálfun yfirmanna okkar og stöndumst ekki reglur STCW. Þetta er staðan og það þarf auðvitað að vera á vaktinni þannig að við séum þannig í stakk búin hér á landi til að standa við þær reglugerðir og alþjóðasamþykktir sem við höfum ákveðið að samþykkja. Allt annað er auðvitað óþolandi. Það er óþolandi að verða fyrir því í erlendri höfn að skipin séu stöðvuð vegna þess að hafnareftirlit viðurkenni ekki stöðuna sem er um borð í skipunum, þ.e. þar sem menn hafa ekki þessi skírteini eða þá að óeðlilegt er talið að við gefum undanþágur frá því.