Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 15:32:57 (7910)

2002-04-19 15:32:57# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, Frsm. ÞKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. um till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi.

Ég vil byrja á því, herra forseti, að þakka nefndarmönnum í allshn. sérstaklega fyrir þá samstöðu og eindrægni sem þeir sýndu við umfjöllun á þessari merku þáltill. Mikil vinna var lögð í umferðaröryggisáætlunina, þ.e. þessa þáltill., og vil ég sérstaklega þakka nefndarmönnum fyrir þá vinnu.

Nefndin gerir sér grein fyrir því að tillaga um umferðaröryggisáætlun 2002--2012 felur í sér viðamiklar og metnaðarfullar aðgerðir sem munu kalla á aukið fjármagn til umferðarmála. Nefndin telur þó að þær muni leiða til verulegs sparnaðar með fækkun umferðarslysa og leggur því áherslu á nauðsyn þess að fjármagn verði tryggt til framkvæmdar áætlunarinnar.

Ég vil þó geta þess að nefndin er ekki þar með að segja að leiðin sem getið er í niðurstöðum starfshópsins sé röng. Í greinargerð með þáltill. segir:

,,Þróunin meðal Evrópulanda er að sektir vegna umferðarlagabrota renni beint eða að hluta til umferðaröryggisstarfs. Starfshópurinn gerir tillögu um að sektir sem innheimtast vegna aksturs gegn rauðu ljósi, hraðaksturs og ölvunar við akstur renni í sérstakan sjóð, ,,eftirlits- og þróunarsjóð lögreglunnar``.``

Nefndin tekur ekki beint undir þetta heldur er miklu fremur að tala um að fjármagn til framkvæmdarinnar almennt verði tryggt.

Jafnframt telur nefndin brýnt að gert verði hið fyrsta kostnaðarmat fyrir áætlunina sem lögð verði fyrir allshn. strax á næsta þingi. Í máli gesta nefndarinnar kom fram að markmið síðustu umferðaröryggisáætlunar hafi í meginatriðum gengið eftir þrátt fyrir mikla fjölgun bíla í umferð en það hafi fyrst og fremst verið samstöðu og einhug viðkomandi aðila að þakka --- þá samstöðu lögreglunnar, ökumanna, Umferðarráðs og allra þeirra sem hafa komið í einni eða annarri mynd að framkvæmd þessarar áætlunar --- og er því mikilvægt að eins vel verði staðið að framkvæmd þessarar umferðaráætlunar.

Í athugasemdum með þáltill. er vísað til skýrslu starfshóps um umferðaröryggisáætlunina og er greint frá helstu niðurstöðum hans í 15 liðum. Þar er gengið út frá því að skipaðar verði m.a. tvær nefndir, annars vegar umferðaröryggisnefnd sem ætlað er að leggja fram tillögu að stefnu stjórnvalda í umferðaröryggismálum sem tekin yrði fyrir á Alþingi og afgreidd þaðan og hins vegar framkvæmdanefnd sem hafi það meginverkefni að tryggja að unnið sé í samræmi við umferðaröryggisáætlunina og að markmiðum Alþingis og stjórnvalda verði náð. Nefndin áréttar að nefndirnar verði skipaðar sem fyrst og að umferðaröryggisnefnd forgangsraði án tafar þeim verkefnum sem áætlunin gerir ráð fyrir. Nefndin tekur að öðru leyti ekki afstöðu til fyrrnefndra atriða í athugasemdum með tillögunni þótt þau hafi verið rædd sérstaklega í nefndinni en telur rétt að leggja áherslu á eftirfarandi: Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að í meiri hluta alvarlegra umferðarslysa liggur orsökin hjá ökumanninum sjálfum. Ástæðurnar eru fyrst og fremst taldar ölvunarakstur, hraðakstur, svefnleysi og þreyta auk hirðuleysis um notkun öryggisbúnaðar.

Einnig kom fram varðandi svefnleysið --- og við fjölluðum ítarlega um þann þátt --- að m.a. kæfisvefn getur haft mikil áhrif á akstur ökumanna. Þá á ég ekki við að menn séu sofandi undir stýri og fái kæfisvefn þar og þá. Kæfisvefn truflar fólk á næturnar og leiðir til þreytu sem síðan getur leitt til alvarlegra umferðarslysa þegar líður á daginn. Þetta var einn athyglisverður punktur sem kom m.a. fram við yfirferð nefndarinnar á þessu máli. Einnig má geta þess varðandi hirðuleysið um notkun öryggisbúnaðar að starfsmaður rannsóknarnefndar umferðarslysa, Ágúst Mogensen, gat þess að ef allir notuðu bílbeltin mundi slysum fækka um 28%. Bara það eitt að við værum aðeins meira vakandi, sinntum þessu handtaki að setja á okkur beltið --- sem tekur kannski tvær sekúndur --- mundi slysum fækka um 28%. Sem sagt, herra forseti: Allir með belti.

Nefndin telur því sýnt að markmiði umferðaröryggisáætlunar verði ekki náð án þess að örva og virkja vitund almennings með öflugri og markvissri fræðslu og forvarnastarfi og breyta þannig viðhorfum hans til umferðaröryggismála. Ekki sé síður mikilvægt að almenningur sé meðvitaður um þá ábyrgð sem felst í því að setjast undir stýri. Af þeirri ástæðu leggur nefndin til breytingu á tillögugreininni um að almenningur komi að sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og áhugahópa um umferðaröryggismál. Þá telur nefndin afar mikilvægt að þáttur þreytu og svefnleysis í umferðarslysum verði skoðaður nánar og í kjölfarið verði úrræði og fræðsla til almennings þar að lútandi aukin. Nefndin ræddi skráningu slysa og vekur í því sambandi athygli á slysavarnaráði sem starfar samkvæmt lögum nr. 33/1994, um slysavarnaráð. Tilgangur þess er að stuðla að fækkun slysa og skal ráðið m.a. móta reglur sem miða að því að slys séu skilmerkilega skráð og sú skráning sé samræmd, jafnframt því sem séð verði um úrvinnslu upplýsinganna og útgáfu á slysatölum. Þá skal samræmd slysaskrá varðveitt hjá landlækni og mótar ráðið reglur um framkvæmd skráningar og aðgang að upplýsingum úr skránni. Bendir nefndin á að þessi samræmda skráning geti nýst vel í þágu rannsókna og til eflingar umferðaröryggismálum. Enn fremur kynnti nefndin sér störf rannsóknarnefndar umferðarslysa og gerir sér grein fyrir mikilvægu hlutverki hennar.

Á fundum nefndarinnar og í máli gesta nefndarinnar kom m.a. fram að til að mynda í Svíþjóð skipta markvissar vettvangsrannsóknir miklu máli. Til þess að rannsóknarnefnd umferðarslysa geti sinnt því starfi þarf að efla einmitt þetta hlutverk hennar og gera það skilvirkara.

Þá áréttar nefndin að samkvæmt tillögunni er ætlunin að fækka alvarlegum umferðarslysum um 40% sem er mun meira en gert er ráð fyrir í nýsamþykktri heilbrigðisáætlun til ársins 2010 en þar er gert ráð fyrir að dánartíðni og örorka vegna umferðarslysa minnki um a.m.k. 25%.

Ég vil kannski geta þess í því samhengi að munurinn á áætlununum liggur m.a. í því að í þessari umferðaröryggisáætlun erum við að miða við slysatölur á árunum 2000 og 2001.

Loks leggur nefndin til að sérstaklega sé tekið fram í tillögugreininni að stefnt sé að fækkun banaslysa eins og kveðið er á um í athugasemdum með þáltill.

Nefndin telur að um nauðsynlegt átak sé að ræða og leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við tillögugrein:

a. Á eftir orðinu ,,fækkun`` í 1. málsl. komi: banaslysa og annarra.

b. Í stað orðanna ,,og áhugahópa um umferðaröryggismál`` í 2. málsl. komi: áhugahópa um umferðaröryggismál og alls almennings.

Kolbrún Halldórsdóttir sat fund nefndarinnar og er samþykk áliti þessu.

Eins og ég gat um áðan lögðu allir nefndarmenn sig fram í þessu máli og eru nefndarmenn einhuga um mikilvægi þess.