Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 16:34:53 (7920)

2002-04-19 16:34:53# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[16:34]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Til að enginn misskilningur sé á ferðum, þá er að sjálfsögðu ekki nokkur viðkvæmni í því að rætt sé um ákveðin gatnamót í Reykjavík. Þó ekki væri. Hins vegar er málið ósköp einfaldlega þannig að verið er að ræða annað mál hér. Og ef einhver viðkvæmni er í þessu máli, þá er viðkvæmnin hjá hv. þm. vegna þess að hv. þm. virðist ekki geta haldið sig í umræðunni við það mál sem hér er á dagskrá og bera saman sambærilega hluti, þ.e. hvernig umferðaröryggisáætlunin í Reykjavík hefur staðið miðað við þá áætlun og þá framkvæmdaáætlun sem þar hefur verið og síðan þá áætlun sem við erum að tala um eða bera saman við þá sem rann út fyrir nokkrum mánuðum.

Herra forseti. Hér er verið að vitna í orð frá því 1995 eða 1996 til borgarfulltrúa sem þá gegndi því embætti að vera forseti borgarstjórnar. En væntanlega breytist eitthvað á því árabili, frá 1995--1996, og eigum við ekki bara að halda okkur við nútímann og bera saman sambærilega hluti? Ég ætla ekki að fara að eltast við ýmsar ákvarðanir, eins og ég gæti gert, eða ýmsar skoðanir ýmissa bæjarfulltrúa Sjálfstfl. í Hafnarfirði. Það kemur mér bara ekki til hugar vegna þess að við erum hér á Alþingi að ræða um allt aðra hluti. Og við gætum auðvitað verið hér í allan dag að rifja upp ýmsar sérkennilegar vægt til orða tekið skoðanir og fullyrðingar bæjarfulltrúa Sjálfstfl. í Hafnarfirði, t.d. um skólamál, en ég ætla ekki að fara að teygja lopann í þá átt.

En varðandi gestina og þá sérfræðinga sem þar komu og þeir fullyrtu ýmislegt í meginatriðum, herra forseti. Ég benti hins vegar á einn mikilvægan þátt sem ekki hefði náðst fram og að óvarlegt væri að orða þetta svona í nefndaráliti vegna þess að það mætti misskilja það og þess vegna var ég að fara fram á það í fullri vinsemd við nefndina að hún velti því fyrir sér hvort ekki væri rétt að skjóta inn eins og einni setningu til þess að taka af allan vafa í málinu.

En, herra forseti, tími minn er liðinn, ég verð því á eftir að bæta um betur varðandi það sem kom fram hjá hv. þm.