Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 17:19:15 (7933)

2002-04-19 17:19:15# 127. lþ. 123.21 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[17:19]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að hér er á ferðinni þverpólitískt mál og allir flokkar standa að því og standa að baki þeim markmiðum sem menn hafa sett sér. Hins vegar þarf ekki að fara í grafgötur með að það sem skiptir hér sköpum og skiptir öllu í því hvort þeim markmiðum verður náð ræðst af því hvaða fjármagn verður sett í málaflokkinn. Og þó að hæstv. ráðherra eigi kannski ekki nema ár eftir á sínum stóli, a.m.k. ekki á þessu kjörtímabili, hvað svo sem verður eftir næstu kosningar, þá munum við sjá a.m.k. við næstu fjárlagagerð þær áherslur sem hæstv. ráðherra hefur. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að hún muni beita sér í því af fullum þunga að tryggja aukið fjármagn í samræmi við þá þáltill. sem hér er verið að samþykkja, og ég skildi hana einnig þannig að þær hugmyndir sem fylgja þessari þáltill. og eru tilteknar í 15 liðum komi aðeins til skoðunar og ekkert liggi fyrir um það, a.m.k. er það þannig hér í þinginu að þingið er ekki að samþykkja þær tillögur sem þarna koma fram.

Ég vil einnig ítreka að ég hefði af því miklar áhyggjur ef tengja ætti saman sjóð eins og fram kemur í 6. tölulið og innheimtu sekta. Ég held að í því tilviki sé ekki ástæða til að vera með einhvers konar hvatakerfi í þessum efnum, ég held að það geti verið stórhættulegt þó að maður skuli nú aldrei fullyrða um það, en ég er ekki viss um að sú hugsun gangi upp. Þetta er a.m.k. skilningur minn á orðum hæstv. dómsmrh. og sé hann réttur þá verð ég að segja að ég mun styðja þessa tillögu alveg heils hugar.