Löggilding nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:34:38 (8009)

2002-04-20 12:34:38# 127. lþ. 124.36 fundur 641. mál: #A löggilding nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum# (EES-reglur) frv. 69/2002, Frsm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:34]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. iðnn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

Nefndin fékk að venju til sín gesti og umsagnir, hlýddi á og skoðaði nokkuð rækilega.

Frv. byggist á tilskipun nr. 19 frá Evrópusambandinu frá árinu 2001 og lýtur að viðurkenningu á starfsréttindum ýmissa starfsstétta í tækni- og hönnunargreinum.

Nefndin mælir einróma með því að frv. verði samþykkt en gerir þó eina breytingu. Hún leggur til að raffræðingar bætist við upptalninguna á löggiltum starfsheitum í tækni- og hönnunargreinum, en með því er um að ræða staðfestingu á þeim réttindum sem rafvirkjar hafa aflað sér með meistaranámi sem veitir rétt til A- eða B-löggildingar.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur fyrirvara á nefndarálitinu og sá fyrirvari byggir á því sem síðast var nefnt, þ.e. að hv. þm. styður ekki þessa viðbót varðandi raffræðinga. Að öðru leyti er iðnn. einróma sammála þessu áliti.