Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 14:01:48 (8033)

2002-04-20 14:01:48# 127. lþ. 124.9 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er fráleitt mál og fráleitur málatilbúnaður að öllu leyti, bæði efnislega og hvað vinnubrögð snertir. Það eru engin fagleg rök fyrir því að standa svona að verki. Þetta er gert í andstöðu við starfsfólk og margar fagstofnanir og er afturför en ekki framför í því tilliti að hægt sé að byggja á traustum og óháðum þjóðhagsupplýsingum við mikilsverða ákvarðanatöku og stjórn efnahagsmála í landinu.

Aðrir kostir hafa ekki fengið skoðun, eins og þeir að stofnunin verði framvegis í skjóli Alþingis og starfi þar sem óháð fagstofnun á sínu sviði.

Til viðbótar öllu þessu má svo nefna þá staðreynd að kostnaður mun vaxa en ekki minnka við þessar breytingar. Það er alkunna að Þjóðhagsstofnun vann sér það til óhelgi að leyfa sér að gagnrýna hagstjórn hæstv. ríkisstjórnar og fyrir það á hún nú að gjalda með lífi sínu, herra forseti. Hér er í orðsins fyllstu merkingu verið að skjóta sendiboðann.