Stjórn fiskveiða

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 19:30:25 (8063)

2002-04-20 19:30:25# 127. lþ. 124.63 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 2. minni hluta GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[19:30]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Ég þakka þetta svar. Ég mun fara betur yfir það síðar í ræðu minni um þetta mál.

Ég tók eftir því, hæstv. forseti, að hv. þm. notaði hér setningu sem ég hef nokkrum sinnum heyrt hann nota að undanförnu og hann notaði hana núna í sambandi við að stækka bátana í 15 brúttórúmlestir, (Gripið fram í: Tonn.) brúttótonn vildi ég sagt hafa, að búið væri að búa til nýjan veruleika með krókaaflamarkinu. Að nú yrðu menn að horfa til þess að ríkisstjórnarflokkunum hefði tekist að búa til nýjan veruleika krókaaflamarksmanna og smábátasjómanna.

Ég vil bara segja það að ég tel að sá veruleiki sem hv. þm. er að víkja að varðandi það að krókaflamarkið var búið til hafi verið vondur veruleiki, það hafi verið vondur veruleiki að fara þá leið að búa hann til. Ég tel líka að ekki verði hjá því vikist í framtíðinni ef menn ætla að halda sér í þessum veruleika, en endalaust að halda áfram að búa það til sem hv. þm. vék að varðandi byggðapottana, því það er innbyggt í þennan veruleika sem menn hafa búið til að það verða endalausar uppákomur í byggðunum og menn munu þess vegna halda áfram að búa til alls konar byggðapotta. Í því frv. sem við nú ræðum er m.a. búið að búa til byggðapott sem á að koma að fullu til framkvæmda á kosningaárinu 2007.