Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 10:22:16 (8086)

2002-04-22 10:22:16# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, Frsm. 1. minni hluta JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[10:22]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Við ræðum um veiðigjald, stjórn fiskveiða, og ég mæli fyrir nefndaráliti sem við hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir skrifum undir.

Þetta frumvarp fjallar um veiðigjald og reyndar fleira. Sú útfærsla sem lögð er til byggist á niðurstöðum meiri hluta nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði 28. september 1999 til að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Gjaldið leggst á úthlutaðar veiðiheimildir hjá meiri hluta flotans, en á landaðan afla í þorskígildum talið hjá þeim bátum sem eru á sóknardögum. Samkvæmt frumvarpinu mun gjaldtaka hefjast árið 2004 og fara smáhækkandi fram til ársins 2009.

Ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn á Alþingi hefur með þessu frumvarpi valið veiðigjaldsleið sem er ætlað að verja sérréttindi kvótahafanna og það einokunarfyrirkomulag sem gilt hefur í stjórn fiskveiða á Íslandi. Þessa leið hefur ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á Alþingi valið og tekið fram yfir þá leið, fyrningarleið, sem svo hefur verið kölluð sem hefur helst verið líkleg til sátta í þessu stóra deilumáli. Því veiðigjaldi sem lagt er til að upp verði tekið virðist vera ætlað að taka mið af afkomu greinarinnar. Ekkert tillit er þó tekið til aflaheimildanna eða verðmætis þeirra sem viðkomandi útgerðarmenn fá. Sú viðmiðun er þó aðgengileg því að verðmæti aflaheimilda liggur alltaf fyrir á sívirkum markaði. Fyrir fram má sjá að ýmsir gallar munu verða á framkvæmd þessa máls. Í fyrsta lagi verður gjaldið miðað við meðalafkomu í greininni árið á undan. Það kom fram í umfjöllun í nefndinni, m.a. frá aðilum frá Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnun, að þarna væri í raun og veru valin mjög vafasöm aðferð. Það mun auðvitað gerast með þessari aðferð að þeir sem starfa í greininni geta lent í því að vera árum saman að borga verulega hærra gjald en afkoma þeirra gefur tilefni til. Og úr því að menn hafa valið þá leið að láta afkomu í greininni skipta þarna máli er það auðvitað ekki í samræmi við jafnræði almennt að hafa viðmiðun af þessu tagi. Gjaldið sem lagt er til er afar lágt miðað við raunverð þeirra aflaheimilda sem ríkið er að úthluta viðkomandi útgerðum í dag. Ef tillit er tekið til þess að um leið og það verður lagt á verða önnur gjöld á útgerðina lögð niður er um óverulega hækkun álaga á útgerðina að ræða miðað við afkomu fyrri ára. Þótt haft sé á orði að miða skuli við afkomu í sjávarútvegi er samt vitað að vegna aðferðarinnar við að ákveða gjaldið munu einstakar greinar útgerðar, ef illa árar í þeim, þurfa að borga sama gjald og hinar sem vel gengur í. Þetta er mjög varhugavert og getur valdið óþolandi mismunun ef gjaldið verður hækkað í framtíðinni. Þá er gjaldið innheimt miðað við kvótaígildi en ekki aflaverðmæti sem skekkir mjög stöðuna milli útgerðarsvæða, t.d. í þorski á milli Norður- og Suðurlands. Augljóst er að þær útgerðir sem til lengri tíma skila hagnaði munu skila gjaldinu til ríkisins að frádregnum skatti en hinar sem ekki hafa hagnað greiða gjaldið að fullu í ríkissjóð. Þegar það er haft í huga að margar útgerðir hafa verið reknar áratugum saman án þess að sýna hagnað virðist hér komin aðferð til að láta þær greiða til ríkissjóðs þótt í litlu sé samkvæmt tillögunni eins og hún lítur út núna. Almennt má segja um þessa leið að hún er sniðin að hagsmunum þeirra sem nú eru handhafar veiðiréttarins.

Í aðferðinni, þ.e. að leggja gjaldið á úthlutaðar veiðiheimildir án þess að hróflað sé við sérréttindum kvótahafanna, er fólgin sú afstaða að ríkisstjórnin ætlar með öllum ráðum að verja einkaeignarhald kvótahafanna á því að nýta þjóðarauðlindina. Það er lokasvar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar við spurningu sem brunnið hefur á landsmönnum síðan fyrir síðustu kosningar til Alþingis, spurningunni um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ætla að standa við loforð foringja sinna um að leita sátta í deilunum um stjórn fiskveiða. Þessi niðurstaða hefur að vísu legið í loftinu síðan auðlindanefndin skilaði áliti sínu, vegna þess að við það tækifæri setti forsætisráðherra fram sína skoðun á því hvernig bæri að túlka þann afskilnað. En við það tækifæri fór ekki á milli mála að forsætisráðherra vildi fara þá leið sem hér liggur fyrir. Auðvitað talaði hann þá fyrir báða stjórnarflokkana í þessu máli. Sjávarútvegsráðherra kom síðan í fótspor foringjans með yfirlýsingar um að þessi svokallaða veiðigjaldsleið væri leiðin til ,,betri sátta``.

Í kjölfarið hófst svo leikþáttur í kringum nefnd sem sjávarútvegsráðherra skipaði í málið. Nú er það orðið alveg ljóst að sú nefnd hafði aldrei annað hlutverk en að skila samkomulagi foringjanna frá sér í tillöguformi. Allt sýnir þetta að fyrir talinu um sátt var engin innstæða.

Um einstakar greinar í frumvarpinu vill 1. minni hluti taka eftirfarandi fram:

Heimild er í 1. gr. til ráðherra til að ákveða að afli sem fenginn er við vísindalegar rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar, en einnig rannsóknir annarra vísindamanna eða stofnana, skuli ekki reiknast til heildarafla. Með þessari breytingu er opnað á þann möguleika að fleiri en Hafrannsóknastofnunin geti stundað fiskirannsóknir og veitt fisk í rannsóknarskyni án þess að hafa til þess veiðiheimildir. Gert er ráð fyrir að umsögn Hafró þurfi að liggja fyrir. Slíkt hlýtur að vera umhugsunarefni vegna þess að samkeppni milli vísindamanna getur vel haft áhrif á slíkar umsagnir. Auðvitað muna hv. þingmenn eftir því og vita um það að Hafrannsóknastofnunin hefur verið gagnrýnin á þá vísindamenn sem hafa leyft sér að setja fram aðrar skoðanir varðandi stjórn fiskveiða og tillögur um hvernig eigi að nýta fiskstofnana heldur en hefur þóknast stofnuninni sjálfri og slíkir menn hafa ekki átt hauka í horni í a.m.k. þeim sem hafa talað fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar þannig að það er ástæða til þess að þetta ákvæði sé haft undir smásjá þegar hæstv. ráðherra fer að fylgja því eftir.

[10:30]

2. gr. hefur ekki efnislega þýðingu.

3. gr. er ætlað að styrkja framkvæmd Fiskistofu á flutningi veiðiréttar af skipi sem hverfur úr rekstri til annars skips. Nefndarmönnum var tjáð að þessi breyting hefði ekki áhrif á gerða samninga milli kaupenda og seljenda skipa.

Ákvæði 4. gr. um að árlega skuli úthluta 1.500 þorskígildistonnum í óslægðum botnfiski til skipa í byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi skal taka gildi 1. september 2002 samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans. Einnig verður ráðherra heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að úthluta á fiskveiðiárinu 2001/2002 allt að 500 þorskígildislestum af fyrrnefndum 1.500 í óslægðum botnfiski til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem verða talin hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Rétt er að ræða í samhengi við þetta að í ákvæði til bráðabirgða XXV er gert ráð fyrir því að úthluta 3.000 lestum af þorski til aflamarksbáta fram til ársins 2006. Meiri hluti nefndarinnar leggur nú til að sú úthlutun verði varanleg. Sama máli gegnir um ákvæði til bráðabirgða XXVI en í því er gert ráð fyrir að Byggðastofnun úthluti aflaheimildum sem nema alls 1.500 þorskígildislestum til og með fiskveiðiárinu 2005/2006. Þetta verður gert varanlegt samkvæmt tillögum meiri hlutans og sjávarútvegsráðuneytinu falin úthlutunin með sama hætti og gert er ráð fyrir í 4. gr. frumvarpsins.

Hér eru á ferðinni tillögur sem lýsa vel áhrifum einkaeignarhaldsins sem gildir á veiðiréttinum. Hvert byggðarlagið á fætur öðru lendir í óvissu og vanda. Þá er hlaupið til með handstýrðar úthlutanir og aðgerðir sem eru jafnvel fundnar út með því að skoða stöðu og þarfir einstakra útgerða. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna lýsa sig andvíga kerfinu og harma afleiðingar þess en ríkisstjórninni tekst ævinlega að kaupa einstaka þingmenn til stuðnings við óréttlátt kerfi sem mismunar einstaklingum og byggðarlögum með hrossakaupum sem lýsa sér ágætlega í þeim tillögum sem hér er fjallað um.

Í 5. gr. er lögð til sú breyting að krókaaflamarksbátar megi vera allt að 15 brúttótonn í stað 6 brúttórúmlesta eða 6 brúttótonna í gildandi lögum. Útgerð krókaaflamarksbáta er nú burðarás í atvinnulífi ýmissa byggðarlaga sem hafa glatað aflaheimildum í núgildandi kerfi. Þessir bátar eru auðvitað allt of smáir til útgerðar á vetrum. Það er hins vegar umdeilanlegt hvar þessi stærðarmörk ættu helst að liggja. Skynsamlegt er öryggis vegna að hækka þau verulega. Þótt einungis væri leyfð stækkun upp í 10 brúttótonn væri um að ræða næstum tvöföldun á stærð bátanna. Hér er ætlunin að leyfa þreföldun á stærð stærstu bátanna. Þetta þýðir að inn í kerfið koma bátar í stærðum sem notaðar eru á alls kyns veiðar aðrar en krókaveiðar, jafnvel net, snurvoð, skel og fleira. Þetta hefur það einnig í för með sér að inn í þennan hóp koma bátar sem hafa aðrar skyldur vegna skráningar áhafnar. Til að tvístra ekki útgerðarmönnum í þessum hópi hefur meiri hlutinn lagt fram frumvarp um breytingu á lögunum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun sem á að tryggja að krókaaflamarksbátar upp í 15 brúttótonn verði áfram hjá Landssambandi smábátaeigenda. Það frumvarp þarf hins vegar nána skoðun og það þarf að fara yfir áhrif af breytingunni með hagsmunaaðilum til að tryggja að ekki komi upp vandamál vegna kjarasamninga eða annarra atriða. Vert er að hafa í huga að ríkisstjórnin hefur nú þegar hrundið af stað endurskoðunarferli sem getur leitt til þess að lögin um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun verði numin úr gildi að einhverju leyti.

Í 6. gr. voru lagðar til miklar breytingar á leyfilegri hámarksaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila. Meiri hluti nefndarinnar dregur úr þessum áformum með breytingartillögum sínum og leggur til að hámarksaflahlutdeild einstakra aðila í ýsu, ufsa og grálúðu verði 20%, en 35% í karfa. Frumvarpið hafði gert ráð fyrir að hámarkskvótahlutdeild yrði 50% í öllum þessum tegundum. Eftir situr þess vegna tillaga um hækkun hámarkskvótahlutdeildar í karfa úr 20% upp í 35%, sem þýðir að þrjár útgerðir geta ráðið öllum karfastofnunum við landið, í ýsu á að hækka hámarkshlutdeild úr 10% í 20% sem þýðir auðvitað að fræðilega geta fimm útgerðir eignast allan ýsustofninn, í þorski úr 10% í 12%. Þá er hámark samanlagðrar aflahlutdeildar fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila hækkuð úr 8% upp í 12%. Hér eru þrátt fyrir breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar miklar breytingar á ferðinni sem greinilega er ætlað að greiða fyrir enn meiri samruna í sjávarútvegi.

Í 7. gr. er leitast við að styrkja framkvæmd Fiskistofu við flutning aflaheimilda milli aðila.

Í 8. gr. er lagt til að samráðsnefnd útgerðarmanna, sjómanna og ráðuneytis verði lögð niður. Þessi nefnd hefur ekki starfað en þær aðstæður gætu komið upp að slík nefnd gæti orðið að gagni og því hefði, meðan ekki næst betri sátt um málefni sjávarútvegsins, verið ástæða til að hafa þennan möguleika til samráðs tiltækan.

Í 9. gr. er leitast við að ná öruggari tökum á eftirliti Fiskistofu með eignarhaldi skipa til þess að kvótinn rati í ,,réttar`` hendur samkvæmt þeim reglum sem gilda.

Í 10. gr. eru tillögur um þær reglur sem ætlað er að láta gilda um svokallað veiðigjald, útreikning og innheimtu á því. Athyglisvert er að sjá hringlandaháttinn í öllu málinu sem lýsir sér vel í því að enn er verið að breyta með tillögum meiri hlutans viðmiðunum um útreikning og upphæðir gjaldsins. Breyting frá haustþingi sem fól í sér að heimilt væri að flytja 30% krókaaflamarks milli fiskveiðiára fellur brott þannig að sama regla verður látin gilda um flutning krókaaflamarks og aflamarks. Lagt er til að heimilt verði að flytja allt krókaaflamark í ýsu, steinbít og ufsa frá fiskveiðiárinu 2001/2002 til fiskveiðiársins 2002/2003. Með því er komið til móts við óskir Landssambands smábátaeigenda um að ekki sé að fullu lokið við úthlutun aflaheimilda til handa smábátunum, eigendur þeirra hafi átt erfitt með að skipuleggja veiðar sínar og hætta var á að aflaheimildir einstakra báta nýttist ekki. Einnig er tillaga um að ráðherra hafi 500 lestir af óslægðum þorski til ráðstöfunar til tilrauna með áframeldi í þorski sem er afar þörf tillaga.

Lagðar eru til breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins. Gildistaka veiðigjaldsins er þó óbreytt frá því sem er í frumvarpinu. Ákvæði 4. gr. frumvarpsins skal taka gildi 1. september 2002. Ráðherra verður þá heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að úthluta á fiskveiðiárinu 2001/2002 allt að 500 þorskígildislestum af óslægðum botnfiski til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem verða talin hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Sú niðurstaða þess þingmeirihluta sem styður ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í mesta pólitíska ágreiningsmáli íslenskra stjórnmála til margra ára sem hér liggur fyrir með þessu frumvarpi er óskiljanleg í ljósi loforða foringa stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar. ,,Þjóðarsáttin`` varð að hraksmánarlegum hrossakaupum milli stjórnarflokkanna og LÍÚ og endaði með táknrænum hætti með því að kaupa fylgi þingmanna stjórnarflokkanna í sjávarútvegsnefnd til fylgis við frumvarpið með sértækum úthlutunum til staða í þeirra eigin kjördæmum.

Fyrsti minni hluti harmar þessi málalok og leggur til að frumvarpið verði fellt.

Hæstv. forseti. Það er margt sem mætti um þetta mál segja og kannski er rétt að orða það fyrst þannig í spurningarformi: Er þetta sáttin um stjórn fiskveiða? Þetta er örugglega ekki sáttin um stjórn fiskveiða í huga meiri hluta þjóðarinnar? Það hefur a.m.k. komið fram hvað eftir annað í skoðanakönnunum að þær aðferðir sem hér hafa verið viðhafðar við stjórn fiskveiða eru ekki að skapi þjóðarinnar.

Síðan er rétt að spyrja þeirrar spurningar hvort einhver þörf sé á því að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi. Hvaða rök eru þá fyrir því? Ákvæðin sem hér er verið að ræða um eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en 2004--2005 nema þau sem snúa að smábátum. Hvernig skyldu málin snúa gagnvart smábátunum?

Það liggur fyrir samkvæmt lögum sem sett voru í vetur á hv. Alþingi, reyndar hafa tvisvar verið sett lög sem varða smábáta á hv. Alþingi í vetur og samkvæmt þeim lögum liggur það fyrir að það þarf strax á næsta hausti að endurskoða reglur og lög hvað varðar smábátana því að í lögunum sem sett voru í vetur var gert ráð fyrir því að endurskoða dagakerfið strax í haust þannig að það er gert ráð fyrir því að menn muni hugsanlega starfa eftir öðrum reglum á næsta fiskveiðiári, þ.e. frá 1. september í haust. Hvað rekur menn þá til þess að breyta lögum fyrir þennan hóp báta núna? Það eru því greinilega full rök fyrir því að engin ástæða sé til þess að Alþingi haski sér við þetta umdeilda mál og því verði troðið í gegnum meðferð Alþingis núna á síðustu dögum þingsins á þessu vori.

Mig langar til þess að ræða svolítið betur um þá veiðigjaldsleið sem hér er verið að leggja til því að ég tel að hún sé á margan hátt afar vafasöm. Í fyrsta lagi er auðvitað sú krafa sem hefur legið fyrir alla tíð, þ.e. að menn fyndu sáttaflöt á aðaldeilumálinu. Það er ekki gert með þessu fyrirkomulagi sem hér er lagt til því að það er algerlega greinilegt og skýrt að þingmeirihlutnn ætlar sér með því að samþykkja þetta frv. að viðhalda óréttlætinu sem felst í einkaeignarhaldinu á veiðiheimildunum. Og það hefur alls ekki á nokkurn hátt verið leyst úr þeirri deilu sem um það stendur.

Mig langar til þess að ræða betur um hvernig að þessum málum er staðið. Svo virðist sem það liggi hér í landi hjá stjórnarmeirihlutanum á hv. Alþingi að hann líti þannig á að það sé eðlilegt að deila og drottna og að mönnum beri bókstaflega einhvers konar heilög skylda til þess að hlýða ríkisstjórninni í öllu. Það hafa meira að segja nýlega komið fram yfirlýsingar í blöðum um það hvernig þessi skylda liggur á hv. þingmönnum. Ég taldi mig hafa með mér úrklippu úr Dagblaðinu fyrir tveimur dögum eða svo þar sem viðtal var við hv. þm. Vilhjálm Egilsson. Í því viðtali kemur fram að hann telji sig þurfa að fylgja þingmeirihlutanum jafnvel þó að um sé að ræða málefni sem sé honum algerlega þvert um geð. Ég verð að segja alveg eins og er að það eru mikil vonbrigði ef stjórn landsins byggist á því að menn séu undir einhvers konar heljartaki ríkisstjórnar á hverjum tíma og geti ekki annað en rétt upp hönd þegar ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að flytja eitthvert mál inn í sali Alþingis.

Finnst mönnum það ekki orðið dálítið undarlegt og ömurlegt að fylgjast með því hvernig breytingum á lögum um stjórn fiskveiða er ár eftir ár troðið í gegnum hv. Alþingi með hrossakaupum við einstaka þingmenn þar sem menn ná fram einhvers konar breytingum á lögunum til þess að bjarga einhverjum byggðarlögum í sínum eigin kjördæmum? Skyldi það vera tilviljun að þessar björgunaraðgerðir eru fyrst og fremst mestar þar sem í hlut eiga þingmenn sem eiga sæti í sjútvn. Alþingis?

[10:45]

Ég tók eftir því í framsögu hv. 1. þm. Vestf. fyrir þessu máli að hann hafði tekið það saman hve mikið er orðið nú af byggðakvóta sem úthlutað er eftir hinum ýmsu reglum. Hann hafði komist að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða 7.600 tonn og hann lét fylgja með þegar hann hafði upplýst þetta líklega til þess að koma því til skila að þarna hefði verið myndarlega að staðið að ná þessum 7.600 tonnum til að úthluta þeim, svona handstýrt og fínt handa þeim sem eiga að fá, að það væri kominn tími til að fara að feta sig út úr þessari leið. Hv. þm. sagði þetta. Ég tel ástæðu til að óska eftir nánari skýringum frá honum hvað hann á við með þessu. Er hann að gefa það til kynna að þeir sem hafa fengið þessar úthlutanir megi eiga von á því að þær verði teknar til baka með einhverjum hætti? Eða er hv. þm. að gefa til kynna að það sé kominn tími til að hætta og nú hafi endimörk réttlætisins fundist og þeim hafi verið náð?

Ég er ákaflega hræddur um að það muni margir í mörgum byggðarlögum í framtíðinni telja sig eiga rétt á sérmeðhöndlun eftir þá sérmeðhöndlun sem menn hafa haft á undanförnum árum í þessum málum og það verði áfram hrossakaup meðal þeirra sem stjórna í landinu ef menn ætla að halda áfram á þessari braut um það hverjir eiga að fá og hverjir eiga ekki að fá. Og þegar menn velta því fyrir sér hvort í þessu sé fólgin einhvers konar sanngirni, þá hljóta menn að lenda í miklum vanda einfaldlega vegna þess að allur rökstuðningurinn fyrir því að úthluta með þeim hætti sem gert hefur verið í gegnum undanfarin ár hefur byggst á því að þarna væri eins konar veiðiréttur á ferðinni sem væri atvinnuréttur. Byggðakvóti af því tagi sem hér hefur verið úthlutað á undanförnum árum getur illa farið saman við rökstuðning fyrir því að einstakir útgerðarmenn eigi atvinnuréttindi í útgerð og eigi þess vegna að fá að veiða fisk við Ísland. Eða hvernig má það vera að útgerðarmaður sem hefur verið að gera út frá þeim byggðarlögum sem eru í náðinni t.d. núna og hafa fengið sértækar úthlutanir núna vegna þess að þau eru talin hafa lent í vanda, að sá útgerðarmaður sem hefur róið þaðan fær úthlutun en annar útgerðarmaður sem er í nákvæmlega sömu stöðu og hinn fyrri en er að róa einhvers staðar annars staðar, fær ekki neitt? Hvernig passar þetta við það að um sé að ræða einhvers konar atvinnuréttindi? Það passar auðvitað ekki. En það er líka þannig að allt hefur þetta í raun og veru gengið út á það að deila og drottna. Tilgangurinn hefur helgað meðalið og tilgangurinn er að koma eignarhaldi á fiskstofnana við Ísland.

Ég hef farið yfir það áður, og vil endurtaka það, að einhver mestu vonbrigði sem ég hef orðið fyrir í öllu þessu máli var þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu og lét koma fram í áliti sínu að málefnalegar ástæður hefðu verið fyrir því hvernig kvótanum var úthlutað. Þessar málefnalegu ástæður voru tilgreindar og þær voru að menn hefðu haft veiðireynslu. Veiðireynsla var vissulega til og var fyrir hendi hjá ýmsum en það er búið að úthluta veiðiheimildum til manna síðan þetta kerfi var tekið upp með svo fjölmörgum afbrigðum sem hafa verið notuð einu sinni eða jafnvel tvisvar að mikið af kvótaréttindum sem eru í dag eru byggð á sértækum úthlutunum og ekki á neinu réttlæti eða almennum viðmiðunum. Margir muna eftir skipstjórakvótanum sem örfáir menn fengu. Sömu skip og þeir voru á og þeir fengu skipstjórakvóta út á fengu líka úthlutanir út á sömu veiðireynslu þannig að tvisvar var úthlutað út á veiðireynslu þeirra skipa.

Á laugardaginn vorum við að ræða um síldina sem menn lentu í miklum vandræðum með þegar samningar náðust við Norðmenn um það að Íslendingar gætu farið að veiða síld úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ekki höfðu menn nú veiðireynslu í síld. En þá var tekið til við að búa hana til og einstök skip fá núna samkvæmt hugmyndunum úthlutað ekki bara leyfi til að veiða síld heldur úthlutað aflahlutdeild í síld inn í framtíðina, sinn part af norsk-íslenska síldarstofninum til ævilangrar eignar samkvæmt því sem hér liggur fyrir. Og það er alveg sama hvað stofninn verður stór, þeir munu eiga hann sem hafa verið að veiða síld á undanförnum árum.

Svona er farið með þjóðarauðlindina. Það er greinilega að yfirlögðu ráði verið að reyna að koma eignarhaldinu á hvern einasta fisk sem syndir í kringum landið. Og það voru fleiri aðferðir en veiðireynsla sem voru notaðar til þess að úthluta veiðiréttindum. Ýmsir sem áttu kili uppi á landi og sögðust ætla að fara að byggja skip fengu úthlutað veiðiréttindum út á það. Ekki var það veiðiréttur sem hægt er að halda fram að hafi verið byggður á veiðireynslu. Það var ekki gerð krafa um það að menn hefðu veitt, ekki einu sinni að þeir hefðu verið á sjó ef þeir áttu bara samning um kjöl. Þetta er eitt af dæmunum.

Það var líka eitt af dæmunum að það var ákveðið að þeir sem keyptu sér veiðiréttindi í þorski norður í landi og flyttu veiðiréttindin hér að sunnan og norður fengju úthlutað 25% viðbót ofan á. Ekki var það veiðireynsla. Ekki voru það einhverjar málefnalegar ástæður sem voru byggðar á veiðireynslu og atvinnuréttindum manna, þessi 25%. Hæstiréttur fór að mínu viti æðiflatt á þessu máli. En svo kvað Hæstiréttur upp sinn dóm og sá dómur olli miklu uppnámi í þjóðfélaginu. Flestir töldu að hann þýddi að það væri ekki hægt að úthluta veiðirétti með þeim hætti sem hér tíðkast. Ríkisstjórnin kallaði saman neyðarhóp til þess að finna út hvort ekki væri hægt að fara einhverja aðra leið í málinu en taka til endurskoðunar úthlutun á veiðiréttinum. Þar fundu menn út að Hæstiréttur hefði ekkert verið að tala um veiðiréttindin sem slík, ekki kvótann, nei, nei. Það hefði verið ákvörðun Hæstaréttar að það væri bannað að leyfa mönnum ekki að fá veiðileyfi sem þeir gætu haft uppi á veggnum hjá sér en út á það veiðileyfi ættu menn ekki að fá að veiða neitt og það hefði verið brot á stjórnarskránni að menn gætu ekki fengið slík veiðileyfi. Þetta var niðurstaðan og á þessari niðurstöðu byggði síðan ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn framhald málsins og setti lög á þeim grundvelli.

Síðan kom upp annað mál og Hæstiréttur kvað upp nýjan dóm. Sá dómur var mjög merkilegur að því leyti til að við þann málflutning klofnaði Hæstiréttur í tvennt og helmingurinn af þeim sem áður höfðu kveðið upp fyrri dóminn komst að þeirri niðurstöðu að hann hefðu aðra skoðun en hinn helmingurinn. Það var sem sagt niðurstaðan í Hæstarétti að helmingurinn af hæstaréttardómurunum hafði allt aðra skoðun á því hvað hann hefði meint með fyrri dómnum heldur en hinn helmingurinn. Og meiri hluti Hæstaréttar í seinna málinu komst að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnin hefði haft rétt fyrir sér, enda hafði hæstv. forsrh. látið menn heyra það mjög að þjóðin mundi ekki þola það að ekki yrði farið eftir forskrift ríkisstjórnarinnar. Hún mundi þá geta tekið sér far til Kanaríeyja ef sú niðurstaða yrði. Og Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu, að vísu klofinn. Tveir af þeim hæstaréttardómurum sem áður höfðu kveðið upp fyrri dóminn héldu sig við hvað þeir hefðu meint með honum en hinir höfðu aðra skoðun svo það lá þá fyrir að það væri niðurstaðan að það væri brot á stjórnarskránni að menn fengju ekki svona veiðileyfi sem engin veiðiréttindi fylgdu. Og þannig stendur málið.

En það er auðvitað fleira sem menn þurfa þá að velta fyrir sér. Það hlýtur að þurfa að velta því fyrir sér hvort þau veiðiréttindi sem menn eru að tala um og hafa úthlutað til fiskiskipa í framhaldi af þessum dómum Hæstaréttar standast. Er einhver glóra í því að halda því annars vegar fram að málefnalegar ástæður séu fyrir því að menn fái slík réttindi og kveða síðan upp þann dóm að veiðileyfin sem voru í gildi á meðan menn öfluðu sér þessara réttinda hefðu verið brot á stjórnarskránni þannig að umhverfið sem menn öfluðu sér þessara réttinda í hefði í raun og veru verið brot á stjórnarskránni? Er líklegt að hægt sé að halda því fram að menn öðlist einhver réttindi í umhverfi af þessu tagi? Ég vil meina að það sé ekki hægt. Þar af leiðir að ég set fyrirvara við það að hægt sé að tala um réttindi sem hafi orðið til við aðstæður sem Hæstiréttur hefur úrskurðað með þessum hætti að séu brot á stjórnarskránni.

Ég vil líka meina að það sé mikil ástæða til þess að ræða um hvað eru atvinnuréttindi vegna þess að það hefur verið notað sem vörn í þessu máli frá þeirra hendi sem hafa viljað hafa úthlutanirnar áfram með þeim hætti sem þær eru. Atvinnuréttindi manna byggjast yfirleitt á því að þeir hafi fengið menntun á einhverju sviði og það hafi verið sett lög sem verja rétt manna vegna þeirrar menntunar, einhvers konar kröfur hafi verið settar um menntun, próf og aðra slíka hluti, og atvinnuréttindi hafa menn líka samkvæmt lögum. Menn ganga í sín félög, verkalýðsfélög og hafa atvinnuréttindi sem eru varin af þeim.

Það að búa til einhver ný atvinnuréttindi sem byggjast á því að menn hafi keypt þau af einhverjum öðrum hlýtur að vera einhvers konar allt öðruvísi fyrirbrigði. Ég vil meina að ekki sé hægt að halda því fram að útgerðarmaður sem hefur gert út skip og skipstjóri sem þar er um borð sem hefur óumdeilanlega atvinnuréttindi sem skipstjóri og sem hefur síðan fengið úthlutað veiðiréttindum á þeim tíma sem kvótakerfð var sett á, hann eigi auðvitað að hafa sín atvinnuréttindi. En hvað þá um skipstjórann sem hefur verið skipstjóri á skipi eftir að kerfið kom á, hefur leigt til sín veiðiréttindi og útgerðin hefur verið byggð á því? Hefur slíkur aðili engin atvinnuréttindi? Eru röksemdafærslur af þessu tagi mögulegar? Er það mögulegt að menn geti litið á atvinnuréttindi sem söluvöru? Ég held ekki. Og mér finnst menn hafa verið leiddir út á algerar villigötur. Þessi réttindi sem búin voru til með því að setja kvótann á eru ekki atvinnuréttindi. Þau eru sérréttindi eða hlunnindi sem hefur verið ákveðið af Alþingi að færa tilteknum aðilum með tilteknum ákveðnum reglum.

[11:00]

Ég tel að það sé ekkert vafamál að reglur af þessu tagi geti aldrei staðist nein jafnræðissjónarmið og mér finnst að umræðan um þetta þurfi að halda áfram vegna þess að enn á ný halda menn áfram að verja sig með þessari röksemdafærslu.

Auðlindanefnd sem skilaði af sér áður en þessar tillögur urðu til skilaði almennri niðurstöðu og öll hennar niðurstaða byggðist á því að aðgangur að auðlindum í almannaeigu ætti að vera undir jafnræðissjónarmiðum. Það að menn skuli síðan ætla að halda áfram með þeim hætti sem hér er lagt til er með miklum endemum og það er verið að snúa út úr heildarniðurstöðu auðlindanefndarinnar ef menn halda að það geti staðist að setja á kerfi með þeim hætti sem hér er ætlað, þ.e. að viðhalda þessari úthlutun sérréttinda eða hlunninda eins og þetta hefur verið inn í framtíðina með einhvers konar veiðigjaldi þar sem öðrum er haldið utan við þetta kerfi sem ekki hafa hlotið náðina að vera með í úthlutununum.

Eitt langar mig til að nefna vegna þess að það hefur fylgt þessari umræðu frá upphafi í sambandi við veiðigjaldið sem hér er lagt til. Þegar Alþingi Íslendinga samþykkti þá tillögu sem varð til þess að auðlindanefndin varð til, samþykkti að lagt yrði hóflegt gjald á þá sem nýttu sér auðlindir þjóðarinnar. Það vantar algerlega að finna út hvað menn áttu við með þessu. Hóflegt gjald, hvað er það? Ég tel að hóflegt gjald fyrir réttindin eða verðmæti sem hið opinbera lætur frá sér hljóti að vera það gjald sem kemst næst því að sýna það verðmæti sem látið er af höndum. Hóflegt gjald. Ef menn velta því bara fyrir sér að ríkið væri að láta af hendi húseign eða einhverjar aðrar eignir sem ríkið á í hendur aðila í þjóðfélaginu, þá ætlast enginn til að ríkið reyni að okra á því. Hóflegt gjald fyrir slíkar eignir finna menn út með því að skoða markaðinn, komast að því hvað sé sanngjarnt og eðlilegt fyrir réttindin, fyrir húsið, fyrir verðmætin sem hið opinbera er að koma til skila. Það að búa til eitthvert gjald eins og það sem hér er til umræðu og halda svo áfram að úthluta mönnum veiðiréttindum með sértækum hætti er auðvitað ekkert annað en grímulaus aðferð við það að halda uppi ójafnræði og ganga fram hjá öðrum en þeim sem eru í náðinni.

Þessi umræða um sjávarútvegsmál hefur til margra ára verið erfið í þjóðfélaginu. Hún hefur verið það vegna þess að þær ríkisstjórnir sem hafa setið frá því að kvótakerfð kom á hafa því miður allar gengið erinda LÍÚ-forustunnar sem tók ástfóstri við þá hugmynd að gera fiskstofnana á Íslandi að séreign strax í upphafi og hefur unnið markvisst að því alveg frá því að kvótakerfinu var komið á að ná þessu markmiði sínu. Þessi forusta LÍÚ hefur oft gengið miklu lengra heldur en margir af þeim sem voru aðilar að þessu batteríi á sínum tíma vildu að hún gerði.

Flestir útgerðarmenn sem ég talaði við fyrr á árum um þessi mál voru mjög andvígir kvótakerfinu og eignarhaldinu og þeir meira að segja veigruðu sér við því og notuðu ekki árum saman þau réttindi sem þeim hafði verið rétt upp í hendurnar, að leigja frá sér veiðiheimildir eða selja þær vegna þess að þeim fannst þetta vera óréttlátt kerfi. En LÍÚ-forustan hélt sífellt áfram að berja þingmenn áfram og ráðherra í ríkisstjórninni til þess að festa þetta kerfi í sessi og færa eignarhaldið á auðlindinni í hendur útgerðarmanna með öllum ráðum. Og til þess notaði hún afar naglalega ósvífni. Hún var ómálefnaleg og þetta var óheiðarleg pólitík. Þessu heldur forusta LÍÚ áfram enn þá fram á daginn í dag. Þetta er auðvitað þjónkun í þágu sérhagsmuna, þröngra sérhagsmuna en undir þessu hafa flokksforingjarnir og þingmeirihlutinn gengið allan tímann síðan. Menn höfðu kannski afsökun fyrstu árin meðan þetta gekk af því að menn höfðu ekki áttað sig á því hvað væri að gerast. En menn hafa enga afsökun lengur í þessu máli. Enga. Menn eru búnir að sjá fyrir löngu í gegnum hvað er á ferðinni. Það er löngu komið í ljós að átökin í þessu máli standa um eignarhaldið á veiðiheimildunum fyrst og fremst.

Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það í hæsta máta ósvífið af ríkisstjórnarflokkunum að ætla með þessu billega bragði að ljúka umfjöllun um stjórn fiskveiða sem þeir lofuðu þjóðinni að ná einhverri sátt um í kringum síðustu kosningarnar. Ekki verður sátt um málið eins og það liggur fyrir núna, það er a.m.k. alveg á hreinu.

Ég tel að við þurfum að taka okkur góðan tíma til þess að fara yfir þetta mál í dag. Ég er í dálitlum vanda um það hvað ég eigi að hafa ræðu mína langa núna. Ég hef möguleika til þess, og verð leiðréttur ef það er ekki rétt, að tala þrisvar í þessu máli í dag og ég mun nota þau réttindi mín. Mér finnast ástæða til að fara yfir sögu þessa máls og mér finnst ástæða til að skoða ýmsa hluti sem hafa verið uppi í umræðunni. Ég ætla mér að ræða m.a. um kaup og sölu á aflaheimildum. Það varð út af því nokkur umræða í fjölmiðlum í vetur vegna þess að ég fékk svar við fyrirspurnum frá hæstv. sjútvrh. um það hverjir hefðu verið að selja frá sér aflaheimildir, hverjir hefðu verið að leigja frá sér aflaheimildir og hversu mikið. Viðbrögð við því voru með ýmsum hætti. Ég ætla að nefna það hér að tvö af stærstu fyrirtækjunum í sjávarútvegi töldu alveg sérstaka ástæðu til að leiðrétta, eins og þau kölluðu það, þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf í svarinu. Þær leiðréttingar voru að vísu með þeim hætti að hæstv. ráðherra var ekki sagður segja ósatt. Fiskistofa gaf upp réttar upplýsingar en þeir sem stjórna fyrirtækjunum héldu því fram að upplýsingar væru samt ekki réttar. Þeir hefðu nefnilega verið að flytja frá sér veiðiheimildir og láta geyma þær hjá öðrum. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort það er leyfilegt samkvæmt þeim lögum sem gilda. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé brot á lögunum. En það er þó alla vega ljóst að það er verið að brjóta gegn fyrirætlunum þeirra sem settu lögin því að í lögunum er gert ráð fyrir því að þeir sem ekki nýta sér sínar veiðiheimildir megi flytja tiltekið magn veiðiheimilda milli ára. Það að flytja frá sér veiðiheimildir og fá geymdar annars staðar eins og þessir háttvirtu forstjórar voru að tala um að þeir hefðu gert er þá greinilega aðferð sem menn nota, og hefur svo sem verið vitað að hafi verið eitthvað notuð, til þess að missa ekki frá sér veiðiheimildir af því að þeir hafi ekki notað þær. Menn hafa rétt til að veiða ákveðið magn. Þeir hafa rétt til að flytja ákveðið magn á milli ára en ekki meira. Það að fá aðra til þess að geyma réttindin er þá svona að renna sér fram hjá þeirri reglu. En gott og vel. Ekki skiptir það öllu máli í þessu sambandi.

Ég vil hins vegar segja það að mér fannst þessar útskýringar skrýtnar og undarlegar og þær voru enn þá skrýtnari og undarlegri í ljósi þess að t.d. liggur það fyrir í beinum yfirlýsingum frá t.d. forstjóra Samherja að hann vill hafa kerfið svona, hann vill geta leigt frá sér veiðiheimildir að vild og selt þær að vild. Og hvers vegna að vera þá að afsaka sig þegar hann flytur veiðiheimildir af sínum skipum og yfir á einhver önnur fyrirtæki? Og hvernig stendur á því, ég verð að segja alveg eins og er, ég spyr hæstv. sjútvrh., hvernig stendur á því að þessi tvö fyrirtæki sem ég er að tala um, sem eru Samherji á Akureyri og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, halda því bæði fram að þau hafi alls ekki verið að leigja frá sér þessar veiðiheimildir, þau hafi einungis verið að láta geyma fyrir sig veiðiheimildir? Það kemur fram í gögnum frá Fiskistofu að þessi fyrirtæki hafi leigt frá sér, Samherji annars vegar, tæp 15 þús. tonn á síðustu fimm árum, og Vinnslustöðin hins vegar, 7.400 tonn á síðustu fimm árum. Þetta eru stærstu aðilarnir í því að flytja frá sér aflamark til óskyldra aðila og þetta kemur fram í svari við því hverjir eru 100 þeir stærstu sem flytja frá sér, þá eru þessi tvö fyrirtæki efst þar í flokki.

En síðan er önnur spurning sem er líka svarað. Hún er: Hverjir eru stærstu kaupendur á sl. fimm árum? Ef menn hefðu verið að leigja frá sér veiðiheimildir og ekkert annað, þá hefði svarið við spurningunni verið nákvæmlega eins og það kemur fram í þessu. Þeir segja: Við vorum að geyma þetta frá öðrum. Þá hefur þessu væntanlega verið skilað til baka. Og ef þessu er skilað til baka, þá kemur þetta fram í gögnum Fiskistofu eins og þeir hafi leigt þetta til sín, flutt til sín frá hinum til baka aftur.

Nú vil ég spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvernig stendur á því að þessi stóru fyrirtæki sem segjast hafa verið að láta geyma fyrir sig þessi aflaréttindi, koma svo alls ekki fram í svarinu við hinu? Er þetta enn þá í geymslu hjá þeim? Það gæti verið skýringin að þessi réttindi væru enn þá í geymslu eftir fimm ár. Það finnst mér að vísu ekki mjög líklegt. En ég verð að segja alveg eins og er að ég hef áhuga á því að hæstv. ráðherra upplýsi það hvort mögulegt sé að það séu vitlausar tölur frá Fiskistofu í þessu eða hvort hann geti með öðrum hætti útskýrt hvernig stendur á því að þær útskýringar sem forstjórar þessara tveggja fyrirtækja sem stærst voru í því að flytja frá sér veiðiheimildir á þessum fimm árum stangast svona á við það sem stendur í svarinu.

[11:15]

En áróðurinn heldur áfram í þessu máli og LÍÚ-forustan þarf ekki að kvarta undan því af hafa ekki fengið tækifæri til þess að tala sínu máli í fjölmiðlum á Íslandi í gegnum tíðina. Ég er sannfærður um að það hefur enginn annar nema hugsanlega forsrh. fengið fleiri viðtöl í fjölmiðlum til þess að útskýra sína stefnu og reka sinn áróður heldur en Kristján Ragnarsson hefur fengið í gegnum tíðina og forustumenn LÍÚ. Og þeir halda áfram sínum áróðri. Það síðasta sem þeir gerðu var að þeir létu gera fyrir sig skoðanakönnun til þess sjálfsagt að stríða hæstv. sjútvrh. vegna þess að þeir telja að þeir eigi að halda áfram að segjast vera á móti auðlindagjaldinu sem þeir samþykktu þó á aðalfundi sínum á sl. hausti. Þeir samþykktu að taka þátt í að greiða þetta gjald ef það yrði til sátta. Nú liggur fyrir að það er greinilegt að þeir telja málið ekki vera til sátta því að þeir hamast á móti þessu. Ríkisstjórnin hefur að vísu verið að lækka gjaldið. Alveg frá því að fyrstu hugmyndir komu fram eru alltaf nýjar og nýjar lækkanir að koma inn í hugmyndina. En samt sem áður er LÍÚ-forustan á móti gjaldinu núna um þessar mundir og birti nýverið skoðanakönnun í blaði sínu, Útvegurinn, þar sem það virðast vera tvær spurningar sem lagðar eru fram, mjög langar, lesið yfir fólki hvernig staða útgerðarinnar hafi verið í annarri spurningunni, hvað hagnaðurinn hafi verið mikill o.s.frv., í hinni spurningunni ekki og síðan er þetta borið saman. En ef menn eru spurðir, án upplýsinga, um hagnað, þá kemur í ljós, ef þeim sem ekki tóku afstöðu er sleppt, að 54% segja að það sé hæfilegt gjald sem þarna er gert ráð fyrir, 25% að gjaldið sé of hátt og 21% að það sé of lágt.

Í fjölmiðli í gær hlustaði ég á frásögn af þessari skoðanakönnun og þar hafði tölunum um hæfilegt og tölunum um of hátt verið slegið saman. Það stendur reyndar í þessu plaggi hjá LÍÚ, þar hafa þeir lagt á sig þær reiknikúnstir að finna það út að þeir sem telji gjaldið of hátt og þeir sem telji það mátulegt séu 85% og það er einhver áróðurspunktur í málinu að telja þetta saman. En hinir sem telja gjaldið of lágt séu þá einungis 15%. Þetta var svarið við seinni spurningunni þar sem menn höfðu verið upplýstir í leiðinni um það hver hagnaðurinn hefði verið á undanförnum árum af útgerð og þeim sagt að menn þyrftu að borga 1,5 milljarða. Það var að vísu ekki gerð nein grein fyrir því í spurningunni að það væri verið að lækka gjöld á þeim í leiðinni. Það var ekki nefnt. Það er kannski svolítið athyglisvert að það skyldi þá ekki líka vera upplýst. (Gripið fram í.) Fella niður gjöld á móti.

Ég tek þessa skoðanakönnun upp af annarri ástæðu og nefni hana hér. Mér finnst nefnilega svo stórkostlegt þegar LÍÚ-forustan er allt í einu farin að taka mark á skoðanakönnunum. Það er alveg gjörbreyting. LÍÚ-forustan veit þó afskaplega vel að það hafa verið gerðar skoðanakannanir sem sýna það klárt og kvitt að þjóðin er bókstaflega á móti því að hafa fyrirkomulagið eins og það er. Á að taka mark á þeirri skoðanakönnun eða þeim skoðanakönnunum sem hafa ítrekað verið gerðar? Það er mikið umhugsunarefni hvort LÍÚ-forustan er allt í einu farin að gera sér háar hugmyndir um að það eigi að spyrja þjóðina um hvernig sjávarútvegsmálin eigi að vera. Ég held að það væri kannski umhugsunarefni hvort ekki ætti þá að gera eina almennilega skoðanakönnun og láta hana gilda um þessa hluti, hvort menn vilji fara veiðigjaldsleiðina eða fyrningarleiðina. Ég veit ekki betur en að þær skoðanakannanir sem þegar hafa verið gerðar segi alveg skýrt og ákveðið að það séu miklu fleiri sem vilji fara fyrningarleiðina heldur en þessa veiðigjaldsleið.

Það er alveg ljóst að menn verða að taka á þessu stóra máli og ná um það einhvers konar skynsamlegri sátt. Og einn hluti málsins sem ekki hefur verið ræddur, a.m.k. ekki í sölum Alþingis, er mjög mikilvægur og verður mikilvægari með hverjum deginum sem líður. Ef menn meina eitthvað í alvöru með umræðunni um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, þá hljóta menn að þurfa að fara yfir fiskveiðistefnuna og sú fiskveiðistefna sem hefur verið til umræðu í því sambandi í gegnum þau ár sem hafa verið að líða núna hefur verið fiskveiðistefna Evrópusambandsins. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að ræða um þá fiskveiðistefnu hér því að ég er að ræða um fiskveiðistefnu Íslendinga. En sú fiskveiðistefna á aldeilis erindi í umræðuna um það hvort ganga eigi í Evrópusambandið því það er alveg ljóst að ætli menn að ganga í Evrópusambandið eða velta þeirri hugmynd fyrir sér, þá hljóta menn að þurfa að horfast í augu við það að einkaeignarhald á veiðiréttinum við Ísland er Íslendingum stórhættulegt. Það er alveg ljóst að gangi Íslendingar einhvern tímann í þetta bandalag, þá þarf að taka á þessu málefni.

Ég tel að það eigi að vera augljóst hverjum manni sem þekkir hvernig þetta kerfi gengur fyrir sig að hætturnar eru verulega miklar. Þær eru fólgnar í því að fyrirtæki í Evrópu, stórar matvælakeðjur og aðrir slíkir sem kæmu að útflutningi á fiski eða sölu á fiski erlendis, gætu séð sér verulegan hag í því að kaupa sér aðgang að Íslandsmiðum, að kaupa veiðiréttindin. Væntanlega er það nokkuð ljóst að ef menn ganga í Evrópusambandið, þá verður jafnræði til atvinnuréttar hér á Íslandi til að reka fyrirtæki. Menn munu ekki komast undan því að erlendir aðilar geti fjárfest hér í sjávarútvegi og fari menn að fjárfesta hér í sjávarútvegi þá er veiðirétturinn eins og hann er núna einkaeignarréttur. Matvælakeðjur gætu keypt veiðirétt á Íslandsmiðum og gætu látið veiða fyrir sig fisk á Íslandsmiðum út á hann, en á hvaða verði mundu menn flytja þann fisk úr landi? Ætli það yrði ekki eitthvað líkt því og ætli við höfum ekki módelið, þegar stóru fyrirtækin á Íslandi og ýmsir aðrir, líka smærri, eru að láta veiða fyrir sig fisk? Hvað skyldu menn fá fyrir þann fisk? Á netavertíð í vetur hafa menn borgað 50 kr. fyrir stærsta fiskinn veiddan í net. Það hefur verið verðið sem t.d. ÚA hefur borgað þeim sem hafa verið að veiða fyrir þá hér á Suðurnesjunum. 50 kr. Fiskurinn fluttur norður til Húsavíkur til að salta hann. Hvað skyldi verða mikill arður eftir á Suðurnesjunum? Menn ættu að velta því svolítið fyrir sér. Ef menn væru síðan búnir að glata eignarhaldinu á þessum veiðirétti í hendur útlendinga einhvers staðar annars staðar þá væri módelið komið, veitt fyrir eitthvert skiterí, fiskurinn fluttur úr landi á því verði og arðurinn yrði til annars staðar. Nei, það er svo sannarlega ástæða til þess ef menn ætla að ræða um Evrópusambandið að ræða um hvað menn þurfa að gera heima hjá sér áður en að því kemur.

Ég átti, hæstv. forseti, sæti í þessari svokölluðu sáttanefnd. Ég verð að viðurkenna að eftir þá lífsreynslu hefur mér oft verið mál að segja eitthvað því það rann upp fyrir mér þegar á átti að herða og var búið að halda okkur uppi á einhverri pínulítilli von um að þar væri hægt að ná einhverju samkomulagi, þá rann það allt í einu upp fyrir okkur eða a.m.k. mér að það var aldrei meiningin, enda er niðurstaðan út úr sáttanefndinni alveg nákvæmlega sú sem hæstv. forsrh. lét í skína eftir að búið var að kynna niðurstöður auðlindanefndarinnar, nákvæmlega sú niðurstaða birtist síðan út úr nefndinni sem hæstv. sjútvrh. skipaði, það var aldrei meiningin að leita eftir neinni sáttaleið í þessu máli og það er afar miður.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég tel að þessi niðurstaða sé fengin með hrossakaupum og það er ástæða til að fara yfir það hér. Hrossakaupum við hverja? Ég veit ekki betur en að t.d. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi skilað séráliti út úr þessari sáttanefnd. Og hvað sagði hann í þessu séráliti? Hann sagði í þessu séráliti að hann vildi fara allt aðra leið en þessa. Nú sé ég ekki betur en að hv. þm. skrifi undir nál. meiri hlutans, er bara allt í einu kominn hinum megin, tilbúinn í slaginn. Af hverju? Hvað hefur breyst? Jú, það sem hefur breyst er það að búið er að bæta inn einhverjum sporslum tilheyrandi einhverjum tilteknum byggðarlögum. Hvað er þetta? Er þetta eitthvað annað en hrossakaup? Hvar er sannfæring þeirra manna sem taka þátt í þessu?

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem flutti framsögu fyrir meiri hlutann lýsti þessu ágætlega. Hann fór yfir það hvaða viðbætur væri búið að draga í byggðarlögin sem hefðu farið verst út úr kvótakerfinu. Og hvernig er þá niðurstaðan? Hún er sú að menn sem telja að óréttlætið sé alls staðar að ríða yfir koma og rétta upp hönd með kerfinu ef þeir fá einhverjar lagfæringar heima hjá sér. Slíkt er auðvitað gjörsamlega óþolandi, hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég kvíði fyrir framhaldinu því að það getur ekki orðið öðruvísi en eins. Það verður enginn endir á því undir þessu kerfi að byggðarlög lenda í vanda. Það verður aldrei endir á því. Ég átta mig ekki á því og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þarf að útskýra það betur fyrir okkur hvað hann meinar með því að ætla að feta sig út úr þessu byggðakvótasukki sem er í gangi. Hvað meinar hv. þm. með því? Er það meiningin að byggðarlögin sem eiga eftir að lenda í vanda á næstu árum verði bara látin sitja uppi með hann? Eða hvaða ráð eru það sem verið er að gefa til kynna að séu þá til staðar ef menn ætla að hoppa út úr byggðakvótanum?

Allt er þetta mál með þvílíkum endemum og það er alveg makalaust að minni hluti þingmanna skuli hafa lent í því að láta leiða sig í gegnum öll þessi ár til þess að styðja kerfi sem hefur verið á móti. Það hafa legið fyrir endalausar yfirlýsingar um það að menn séu á móti kerfinu. Síðan hafa menn verið á móti sértæku aðgerðunum. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur margoft lýst því yfir að hann sé aldeilis á móti öllum svona sértækum aðgerðum. Ekki hefur hann skorið sig úr. Hann hefur rétt upp hönd eins og hinir með þessu.

[11:30]

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur lýst þessum hugsunarhætti alveg sérstaklega vel. Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til þess að vitna í Dagblaðið fyrir mjög stuttu. Þá lét hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafa nokkuð eftir sér sem gekk út á það að ef ríkisstjórnin vildi eitthvað þá yrði hann að samþykkja það, það skipti bara engu máli þótt hv. þm. hefði aðra skoðun, hann yrði að samþykkja það sem ríkisstjórnin vildi. Mér finnst það vera mikill --- ég kann nú ekki við að nota orðið kjarkur, en kannski hefur einhver annar betri tillögu um orð í þessu sambandi. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þar sem vitnað er í þingmanninn í Dagblaðinu. Þar stendur:

,,Hafnað er hugmynd ríkisstjórnarinnar um að veita einstöku fyrirtæki ríkisins ábyrgð á lán með fyrirvara um samþykki Alþingis. Áður verður að koma til kynning á forsendum þess að slík ábyrgð sé nauðsynleg eða hvernig veiting hennar falli að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar fyrir almennan stuðning hennar við atvinnulífð. Þetta segir efnislega í ályktun sem stjórn Verslunarráðs Íslands``--- sem hv. þm. hefur dálítið með að gera --- ,,sendi frá sér í gær.

Lög um ríkisábyrgð til deCODE eru nú til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, en formaður hennar er Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðs. Vilhjálmur sagði í gær að hann tæki undir þau sjónarmið sem fram kæmu í ályktun stjórnar Verslunarráðsins.`` --- Tæki undir sjónarmiðin. --- ,,Þessi gagnrýni væri í anda þess sem hann sjálfur hefði sagt á fyrri stigum.`` --- Þetta er allt eins og hann hefur sagt sjálfur á fyrri stigum, segir hv. þm. --- ,,Engu að síður verð ég að styðja þetta frumvarp á þingi, enda er það stjórnarmeirihlutinn sem stendur að því``, sagði Vilhjálmur Egilsson.``

Ég á engin orð til að lýsa því sem manni dettur í hug þegar maður les slíkt viðtal. Það er greinilegt að menn eru aldeilis í bandi hjá ríkisstjórninni. Það eru ekki vandræði með stuðningsmenn sem líta þannig á hlutverk sitt að það sé bara nákvæmlega sama hvað þeim finnist sjálfum, þeir skulu sko upp með höndina þegar á þarf að halda. Og eftir höfðinu dansa limirnir. Hér er nú enginn venjulegur þingmaður á ferðinni, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem er formaður efh.- og viðskn. og 1. þm. Norðurl. v. Hann er framkvæmdastjóri Verslunarráðs og hefur alveg sömu skoðun og þeir í Verslunarráðinu. En því miður hefur annar húsbóndi kveðið upp dóminn. Höndin skal upp og þá fer hún upp. Ég er að taka þetta sem dæmi vegna þess að í öllu þessu sjávarútvegsmáli frá upphafi til enda hefur svona brögðum verið beitt. Þingmenn hafa ýmist lotið agavaldi ríkisstjórnarinnar eða verið keyptir til þess með einhvers konar sporslum eða framlögum í formi kvóta eða með einhverjum öðrum hætti til einhverra byggðarlaga í þeirra eigin kjördæmum.

Svona ætla menn að halda áfram. Það er greinilega meiningin. En vera kann að einhverjar nýjar aðferðir séu í spilinu, að mönnum hafi dottið í hug einhverjar nýjar hugmyndir um hvernig eigi að standa að þessu því hv. þm. Einar Guðfinnsson er a.m.k. að tala um að feta sig út úr þessum byggðakvóta. Þá hlýtur eitthvað annað að eiga að koma í staðinn. Fróðlegt verður að heyra hvað það er, hvernig eigi að standa að því að bjarga byggðarlögum í vanda, hvort sem þau eru á Vestfjörðum eða einhvers staðar annars staðar.

Eðli kvótakerfisins hefur komið mjög skýrt og vel fram. Það lýsir sér í því að atvinnuréttindi fólksins sem býr við ströndina eru einskis virði. Það eru eingöngu svokölluð atvinnuréttindi útgerðarmanna sem skipta máli. Þeir flytja þau eins og þeim sýnist milli byggðarlaga og byggðirnar standa eftir í vanda. Almennar reglur sem allir eru jafnir fyrir virðast vera eins víðs fjarri hugsun þeirra sem hér ráða ríkjum og hægt er að hugsa sér.

Alveg er það makalaust með Sjálfstfl. sem hefur þóst vera málsvari viðskiptafrelsis og eðlilegra samkeppnisreglna á öllum sviðum samfélagsins, að það virðist eiga að liggja fyrir honum að fara einhverjar allt aðrar leiðir. Þar vilja menn deila og drottna, láta menn hafa nokkur tonn hér og þar til þess að viðhalda eignarhaldinu á veiðiréttinum. Þeir eru á móti því að fiskur fari á markað til þess að hægt sé að skera almennilega úr um hvaða fiskverð eigi að gilda. Þeir eru á móti því að skipta milli veiða og vinnslu með þeim hætti að menn sjái skýrt og greinilega hvernig kaupin gerast á eyrinni. Sjálfstfl. er á móti þessu. Sjálfstfl. stóð sig sérstaklega vel í því að vera á móti því að ríkið væri að veita ríkis\-ábyrgðir í loðsilungnum forðum, sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar stóð fyrir. Hann taldi þetta vera hina verstu ósvinnu, það væri aðalsmerki Sjálfstfl. að losa ríkið undan svona fyrirbrigðum. Nú er Sjálfstfl. kominn með tillögu inn í Alþingi um að veita stærstu ríkisábyrgð sögunnar og munar ekki mikið um. Og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson lýsir því yfir að hann sé að vísu alveg sammála Verslunarráðinu, þetta sé tóm vitleysa, en hann verði að styðja málið fyrir því. Þetta er stórkostlegt. Þetta eru stjórnmál á Íslandi. Þarna er Sjálfstfl., stærsti flokkur þjóðarinnar, á ferðinni. Þetta eru vinnubrögð hans. En vinnubrögðin hafa kannski í engu máli, og þar á Sjálfstfl. ekki einn sök, verið ömurlegri en í því að reyna að koma aðganginum að þjóðarauðlindinni í hendur einkaaðila til frambúðar. Til þess hafa menn notað öll ráð og fundist það greinilega allt í lagi. Bullið um að menn hafi unnið sér inn þessi réttindi á málefnalegan hátt hefur staðið út úr mönnum í þingsal. Það er alveg sama hversu oft þau eru hrakin. menn halda áfram að halda því fram að þetta eigi að vera svona, þetta sé eðlilegt og að fyrir þessu séu málefnaleg rök.

Gott og vel, menn geta bara haldið áfram með sínar ræður hvað það varðar. En menn verða líka að þola að hlusta á það að aðrir hafi aðrar skoðanir á því. Ég verð að segja, hæstv. forseti, og skal nú fara að ljúka þessari ræðu minni sem er sú fyrsta af þremur í þessu máli í dag, að þessu máli er ekki lokið. Það mun halda áfram á meðan menn viðhalda óréttlætinu og á meðan þeir halda áfram þeirri stefnu að ætla sér að afhenda einkaaðilum til frambúðar eignarréttinn á því að nýta þjóðarauðlindina, mun þessi barátta halda áfram og menn munu ekki fá frið fyrir þeim sem berjast gegn þessu óréttlæti.