Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 20:03:08 (8102)

2002-04-22 20:03:08# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, EOK
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[20:03]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og ég hef tekið fram í umræðunni um frv. þetta í þingflokki mínum og eins og ég fór rækilega yfir við 1. umr. þessa máls mun ég greiða atkvæði gegn þessu frv. enda fjallar það fyrst og fremst um auðlindaskatt á sjávarútveg. Við höfum rætt flesta þætti þessa máls oft áður. Mönnum ætti að vera nokkuð kunnugt um skoðanir hvers annars á því. Hér á eftir mun ágætur þingmaður, eins og svo oft áður í vetur, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, halda fræðsluerindi um niðurstöður auðlindanefndar. Hún hefur gert það nokkrum sinnum í vetur á ákaflega glöggan og ágætan hátt og ég býst við að fá slíkan fræðslufyrirlestur hér á eftir. Hins vegar liggur fyrir, herra forseti, að ég er sama sinnis og áður. Ég er sannfærður um að tillögur auðlindanefndar byggja á gríðarlegum misskilningi að öllu leyti. Að fara að þeim yrði mjög óheppilegt fyrir íslenskt efnahagslíf burt séð frá því hvort skattleggja á vatnsafl, sjávarútveg eða eitthvað annað.

Það mun alltaf koma illa niður á samkeppnishæfni þeirra atvinnugreina sem um er að ræða. Við vitum að í sjávarútvegi, svo langt sem augað eygir, megum við búast við því að það verði seljendamarkaður á bolfisknum á fiskmörkuðum Íslands, það verði seljendamarkaður. Níðskattur með þessu nafni sem nú á að lögfesta formlega getur því aldrei verið greiddur öðruvísi en að skerða hæfni þeirra útflutningsfyrirtækja sem kaupa fiskinn, vinna hann og skerða hæfni þeirra til að borga kaup. Með þessari formlegu viðurkenningu erum við að vega í þann knérunn sem síst skyldi. Landsbyggðin sem byggir afkomu sínu og tilveru fyrst og fremst á sjávarþorpunum vítt og breitt um landið má síst við því að geta útflutningsfyrirtækjanna sé skert að þessu leyti. Þetta hefur samt verið niðurstaðan sem flutt er af ríkisstjórninni.

Stjórnarandstaðan hefur í vetur tilkynnt sjónarmið sín. Þeir vilja ekki styðja þennan auðlindaskatt, segja þeir, heldur telja þeir rétt að fara svokallaða fyrningarleið. Hver er þessi fyrningarleið? Jú, ríkið ætti samkvæmt því að taka til sín ákveðinn hundraðshluta veiðiheimilda á hverju ári. Bíðum við. Við skulum ætla að útgerðinni sé gert kleift að afskrifa það. Hvort sem það er á 10, 20 eða 30 árum sem þetta á að skipta um eigendur, má ætla að útgerðin komi út á núlli. Hvað ætla menn svo að gera við veiðiheimildirnar? Þeir ætla að úthluta þeim aftur gegn einhverju gjaldi að mér skilst. Og hver er þá munurinn? Hver ætlar að borga það gjald og niður á hverjum kemur það? Það mun koma niður á greiðsluhæfni þessara sömu fyrirtækja, hæfni þeirra til að borga laun, fyrst og fremst fiskverkafólki. Það er sama hvernig við förum yfir þetta. Þetta getur ekki snúist um það. Það getur ekki verið að umræðan í dag varðandi fiskveiðarnar eigi að snúast um hvort við ætlum að hafa auðlindagald eða svokallaða fyrningarleið. Það er nákvæmlega sami hluturinn þegar upp er staðið og síst það sem sjávarútvegurinn má við í dag, að vera skattlagður aukalega.

Ég hef gert það að umræðuefni hér, herra forseti, að í 18 ár höfum þóst vera að stjórna fiskveiðunum með aflakvótakerfinu. Þessi 18 ár sem við reyndum að stjórna til þess að byggja upp fiskveiðistofnana, til að hámarka arðinn á sjávarútveginum, hefur allt gengið aftur á bak miðað við það sem við ætluðum. Allra verst hefur þó gengið í þorskveiðunum. Það má segja, eins og ég hef sagt hér áður, að sumar aðrar veiðar hafi gengið miklu betur, en það er fyrst og fremst í þorskveiðunum sem þetta hefur gengið mjög illa og það er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því að svo verði áfram. Haldi svo fram sem horfir er um að ræða hreinan þjóðarvoða.

Segja má að samdrátturinn í þorskveiðum sé aðalbyggðavandi Íslands, þ.e. að okkur hafi ekki tekist að byggja upp þorskstofnana en þorskurinn hefur, eins og allir vita, um áratuga skeið verið meginstoðin í uppbyggingu Íslands. Það að við komumst úr fátækt til bjargálna í upphafi síðustu aldar er fyrst og fremst að þakka veiðum okkar á Íslandsmiðum. Þetta er allt saman byggt fyrir fisk. Verði ekki breyting á stefnum við í hreinan þjóðarvoða. Það er því ástæðulaust, algerlega tilhæfulaust og ekki hægt að fyrirgefa það ef niðurstaðan verður sú núna að þingheimur samþykki þessa tillögu. En þeir sem eru á móti, stjórnarandstaðan, er á móti vegna þess að þeir vilja heldur skattleggja sjávarútveginn með afskriftareglum en með auðlindagjaldi. Á því er enginn munur.

Það er hörmulegt, herra forseti, að við skulum í þessari stöðu standa frammi fyrir því að enginn vilji ræða í nokkurri alvöru að þorskstofninn við Ísland fer stöðgut minnkandi, árangur okkar er enginn og verri en það. Við verðum að ræða það í fullri alvöru.

Við höfum nýlega fengið, fyrir nokkrum dögum, fyrsta álit Hafrannsóknastofnunar eftir vorrallið. Það var ekki björgulegt. Það var reynt að halda því á loft að eitthvað væri jákvætt við það en mest af því var neikvætt. Eins árs fiskurinn finnst t.d. ekki og fiskur eldri en fimm ára finnst ekki heldur. Ég ætla ekki að leggja dóm á störf Hafrannsóknastofnunar nú frekar en áður en við erum samt alltaf að fara aftur á bak. Sjálfur veit ég ekki hverju ég á að trúa. Ég viðurkenni það fúslega. Ég ætla að svo sé um flesta þingmenn að þeir viti það bara alls ekki heldur. En eitthvað gerir það þó að verkum að við þorum ekki annað en halda áfram að minnka aflakvótana ár eftir ár. Ég get ekki séð annað en svo haldi áfram. Ég hef enga trú á því að þeir verði auknir miðað við þær skýrslur sem við höfum fengið.

Fyrr í dag, herra forseti, gerði hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson að umtalsefni grein sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudaginn eftir efnafræðinginn Jónas Bjarnason. Hann las m.a. upp úr verulegum hluta þeirrar greinar. Jónas hefur á undanförnum mánuðum verið að benda lesendum Morgunblaðsins á nýja vídd í þessu máli. Víddin sem hann er að benda á er kannski enn hryllilegri en aðrir hafa viljað tala um. Hún er það alvarleg, herra forseti, að við hljótum að spyrja: Er þetta hugsanlegt? Jónas bendir á að það fari saman að þorskstofninn sé að minnka og vöxtur hans hægist. Hvernig í veröldinni má vera að það fari saman, að stofninn bæði minnki og vöxtur hans hægist?

Talið er að þorskstofninn sé nú 577 þús. tonn og hafi minnkað úr 2--2,5 millj. tonna lengst af síðustu öld. En vöxturinn hefur líka minnkað á fiski. Stuðullinn hefur farið úr 6--6,5 niður í það sem er í dag 1,7--1,8. Þessi fræðimaður dregur upp fyrir okkur hrikalega sýn. Í þessari grein bendir hann líka á að mjög mikil samsvörun sé milli þess sem er að gerast á Íslandsmiðum í dag og þess sem var að gerast á hinum gjöfulu miðum við Nýfundnaland og Kanada árinu áður en sá fiskstofn hrundi endanlega. Hann hafði lengi vel verið mældur um 1 millj. tonna. En þegar þeir hættu fyrir rúmum tíu árum reyndist hann allt í einu 50 þús. tonn. Það sem er enn þá verra er að hann virðist ekki ná sér þrátt fyrir veiðibann í nærri áratug. Ef eitthvað slíkt kæmi fyrir Ísland þá þyrft ekki um að binda. Það væri meiri hryllingur en við höfum ímyndunarafl til að tala um í dag, herra forseti.

Ég vil gera að tillögu minni til hæstv. sjútvrh. að hann standi fyrir því nú í sumar að skipa milliþinganefnd þingmanna til að rannsaka þau sjónarmið og gögn sem dr. Jónas Bjarnason leggur til grundvallar þessum skrifum sínum. Við getum ekki skorast undan því, herra forseti, að skoða þessa hluti ofan í kjölinn. Við getum ekki staðið frammi fyrir því ef svo fer sem horfir áfram að hafa ekki reynt að rannsaka með öllum ráðum hvort svo megi vera. En inntakið í grein Jónasar gengur út á að þorskveiðarnar hafi alls staðar á öllum fiskimiðum farið niður. Hann telur einsýnt að einmitt stærðarveljandi veiðarfæri eigi mjög stóran þátt í því. Það er líka einsýnt af skrifum hans og ræðum að hann telur að aflakvótakerfið, sem bætist ofan á stærðarveljandi veiðarfæri sé eins og að skvetta olíu á eldinn. Aflavótakerfið hvetur menn þar að auki til þess að velja aflann, sækja í stærsta fiskinn. Þar ber allt að sama brunni. Við erum að veiða ofan af þessum stofni með þeim árangri að það er alltaf minni og minni vöxtur í honum. Seiðin sem lifa af hafa minnsta vaxtarmöguleika.

Ég hef alla tíð, herra forseti, mjög efast um aflakvótakerfið í bolfiskveiðum og aldrei verið vissari um það en núna að við förum rangt að, enda liggur fyrir eftir 18 ára reynslu okkar að við höfum bara farið aftur á bak en aldrei áfram og við erum að gera það. Ég tel að allt bendi til þess að við eigum að hætta því --- því fyrr, því betra. Það er engin ástæða fyrir þessa þjóð til að halda áfram í ótíma því kerfi sem engu hefur skilað. Til þess er engin ástæða. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er alveg hægt að skipta um kerfi, rétt eins og Færeyingar gerðu. Það er hægt að umreikna veiðirétt manna alveg eins úr aflakerfi í sóknarkerfi. Það er mjög auðvelt og hefur verið gert. Forusta útgerðarinnar hefur staðið gegn öllum hugmyndum um að breyta þessu en hún verður að horfast í augu við að fari eins og í Kanada er engu að skipta. Þeir eiga allra hagsmuna að gæta ekki síður en aðrir Íslendingar í að við reynum til þrautar öll þau ráð sem mönnum detta í hug til þess að stoppa þennan ófögnuð.

Ég er þess fullviss að við eigum ekki að halda áfram aflakvótakerfinu í bolfiskinum og minni á að höfundur nýliðunarmódelsins, Bermington sjálfur, varaði við því að nota þetta kerfi á bolfiskinn. Hann sagði sjálfur að helst væri hægt að nota það á uppsjávarfiskana og varaði við að nota það á þorskinn.

Tvö meginatriði, herra forseti, tel ég þar að auki að við verðum að leggja áherslu á í dag sem skiptir öllu máli fyrir framtíð sjávarútvegsins. Stjórnvöld verða með öllu móti að einbeita sér að því verkefni að setja lög sem tryggi að við getum stjórnað stærð fiskiskipaflotans eins og aðrar þjóðir. Það er lykilatriði til að hér geti nokkurn tíma orðið nokkur framför.

Í öðru lagi er ljóst, herra forseti, að einokun ríkisins á vísindum er hættulegasta einangrun sem komið getur fyrir nokkra þjóð. Okkur ber að sjá svo um að vísindin og rannsóknirnar verði frjálsar þannig að allir okkar bestu menn geti komið þar að borði, menn geti lagt sig alla fram, lagt saman þekkingu sína og af fremsta megni reynt að finna út hvernig í veröldinni við eigum að koma okkur út úr þeim ógöngum sem við erum komin í.