Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 21:06:56 (8105)

2002-04-22 21:06:56# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[21:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði það og stend við það að þetta er ekki líklegt til þess að sætta menn og þar af leiðandi til að standa lengi. Hitt er jafnskiljanlegt, vonbrigði þeirra sem bundu vonir við að það nokkurra ára starf sem nú er að baki mundi skila einhverjum efnislegum niðurstöðum. Ég held að það sé þá miklu frekar óbeint sem eftir liggi ákveðinn afrakstur sem mögulega geti nýst mönnum á síðari stigum. En hann birtist mönnum ekki í formi niðurstöðu hér, í formi breytinga á lögunum eða fyrirkomulaginu. Það gerir það ekki því þetta festir í aðalatriðum í sessi óbreytt kerfi.

Varðandi hinn þátt málsins, þ.e. gjaldtökuna, þá fer það allt eftir því hversu mikla áherslu menn lögðu á þann þátt málsins. Til eru þeir eins og Morgunblaðið sem fyrst og fremst ræddu alltaf um það og gerðu gjaldtökuna sem slíka að aðalatriði málsins en ekki kerfið sem hún væri í. Ég hef aldrei verið í þeim hópi og hef alltaf reynt að hafa fókusinn meira á kerfinu og afleiðingum þess fyrir greinina, fyrir byggðina o.s.frv., og hef sett gjaldtökuna í annað sæti í minni nálgun. Ég spái því að það mál muni þoka með einhverjum hætti til hliðar, enda ekki verið að festa hér í sessi stórtíðindi í þeim efnum nema þá bara að því leytinu til að ríkið taki til sín einhverjar tekjur sem séu ekki beilínis eyrnamerktar eins og áður var. En þá erum við líka að segja að gjaldtakan gjaldtökunnar vegna sé aðalatriðið, ekki einu sinni upphæðin, og það fyndist mér dálítið skrýtin niðurstaða ef svo væri, að það væri bara nóg að leggja einn eyri á tonn og þá væri réttlætinu fullnægt af því að það hefði verið grundvallarprinsippið, gjaldeyristakan sem slík, sem væri aðalatriði málsins en ekki hin efnislega verkun. Ég get ekki stutt slíka nálgun því að það má færa mikil rök bæði með og á móti því að það sé skynsamlegt að fara í að taka verulega fjármuni út úr greininni sem auðvitað koma ekki af himnum ofan heldur koma einhvers staðar frá.