Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 22. apríl 2002, kl. 21:09:16 (8106)

2002-04-22 21:09:16# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[21:09]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Annað sem liggur nokkuð ljóst fyrir eftir það starf sem í gangi hefur verið er að til þess að atvinnugrein þróist með þeim hætti að líklegast sé að hæfustu og bestu mennirnir stundi útgerð, þá þurfa menn að starfa á jafnréttisgrundvelli. Menn þurfa að starfa á þeim grundvelli að þeir sitji við sama borð í öflun veiðiheimilda. Núverandi kerfi leiðir til þess að sumir þurfa ekkert borga og aðrir þurfa mikið að borga fyrir þennan þátt í sinni útgerð og það verndar óhagkvæma útgerð. Að mínu viti hefur það t.d. verndað togaraútgerð á síðustu árum fyrir mjög hagkvæmri smábátaútgerð.

Ef engar hömlur hefðu verið að þessu leytinu til, þá er ég alveg viss um að miklu meiri afli hefði verið veiddur á Íslandsmiðum af þessum hagkvæmu útgerðum þar sem er tiltölulega lítil stofnfjárfesting og fáir sem standa að útgerðinni borið saman við þessi stóru skip þar sem mikið fé er bundið í tækjunum og kostnaður við sóknina er mun meiri. Það er mín trú og ég hef út af fyrir sig tölur sem renna stoðum undir slíkar fullyrðingar.

En vegna þess að þeir sem standa að togaraútgerð búa við að afla veiðiheimildanna án þess að greiða neitt fyrir þær að ráði, þá verður þessi óhagkvæmari útgerð hagkvæmari þegar tekið er tillit til þess munar sem liggur í kostnaðinum að þessu leytinu til. Og til þess að atvinnugreinin sé í framtíðinni líkleg til að skila þjóðinni í heild sem mestum verðmætum þá verður að vinna bug á þessum mun. Við erum að stíga skref í þá áttina með þessu frv.