2002-04-23 00:05:27# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[24:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé hv. 1. þm. Norðurl. e. sem jafnframt er forseti þingsins ekki sæmandi að koma í ræðustól með svona önugheit og sýna geðprýði sín með þessum hætti. Auðvitað væri hægt að hafa stór orð um það hvernig hæstv. forseti stýrði þinginu í síðustu viku. Ég ætla ekki að gera það, ég ætla að spara mér það. Ég held að við eigum ekki að vera að skemma okkur með því að missa okkur í slíka umræðu.

Það er tvennt sem ég vildi segja. Í fyrsta lagi er alrangt hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. að það sé ekki alsiða að röð ræðumanna sé víxlað þegar um það semst milli ræðumanna. Ég hef sjálfur margsinnis gert það með atbeina og fulltingi hv. 1. þm. Norðurl. e.

Í annan stað vil ég geta þess, hæstv. forseti, og rifja upp fyrir hæstv. forseta að þegar stór mál eru í umræðu í þinginu er til siðs að fulltrúar flokkanna í viðkomandi nefnd séu fyrstir á mælendaskrá fyrir sína flokka. Þannig var það í tilviki hv. þm. Svanfríðar Ingu Jónasdóttur. Hún er fulltrúi okkar og einn af helstu talsmönnum Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum og auðvitað var það ekkert annað en viðskotaillska, önugheit og ókurteisi af þáv. hæstv. forseta að meina henni að tala á undan hv. þm. Gísla S. Einarssyni sem þar að auki hafði gefið samþykki sitt fyrir því. Þá var hæstv. forseti ekki að reyna að greiða fyrir störfum þingsins, að sjálfsögðu ekki. Okkur er ekkert að vanbúnaði að vera hér lengi að ræða sjávarútvegsmál. Það var ég sem gerði samkomulagið við hæstv. forseta á laugardagskvöldið þannig að ég veit gjörla hvernig það var. Hver braut það? Hæstv. forseti braut það í dag með því hleypa alls konar málum í gegnum þingið til umræðu sem ekki var um samið við mig. Ég ætla hins vegar, af háttvísi við hv. þm., ekki að taka þátt í þeim brotum. Ef ég get gert mitt til þess að greiða fyrir þingstörfum þessa nótt skal ég hætta við að setja mig á mælendaskrá til þess að ræða sjávarútvegsmál eins og eðlilegt væri að formaður Samfylkingarinnar gerði.