2002-04-23 00:08:24# 127. lþ. 125.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 127. lþ.

[24:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forseti þessa þings gerði samkomulag við mig. Ef hann vill breyta því samkomulagi kemur hann og talar við mig um það. Það er svo einfalt mál.

Hæstv. forseti bauð upp á ákveðna vinnuaðferð á laugardaginn. Af því að ég var þá af hálfu Samfylkingarinnar til samræðu við hann lagði ég blessun mína yfir það. Mér þótti gott að okkur tækist sameiginlega að lenda því máli með nokkrum friði. Það samkomulag fól í sér að hér væru þrjú sjávarútvegsmál rædd og þeim lokið á þessari nóttu. Henni er ekki lokið. Það er sjálfsagt að ræða þessi mál inn í nóttina, og morguninn ef því er að skipta. Við höldum það samkomulag sem við gerðum um að umræðu um þetta verði lokið.

Ég ætlaði sjálfur, herra forseti, að setja mig á mælendaskrá. Ég er formaður Samfylkingarinnar sem hefur beitt sér mjög í sjávarútvegsmálum. Hér hafa ýmsir menn talað fyrir Samfylkinguna en formaðurinn á eftir að tjá sig. Það væri ekkert óeðlilegt að ég héldi langa ræðu. Ég hef a.m.k. helming þess vits sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur á sjávarútvegsmálum og miðað við það væri með einfaldri þríliðu hægt að reikna út að ég ætti að tala hérna í a.m.k. einn og hálfan tíma. Til samkomulags og til að stilla þær öldur sem risið hafa í huga hv. 1. þm. Norðurl. e. skal ég hætta við að tala á þessari nóttu í þessum málum og fresta ræðum mínum til 3. umr. Hv. þm. Halldór Blöndal veit að ég hef sérstakan áhuga á síldveiðimálum, sérstakan áhuga á því hvernig ber að stýra þeim og hef fjórum sinnum lagt fram frv. um það. Væri eitthvað óeðlilegt þó að ég héldi svolitlar ræður yfir þingheimi um þau mál? Nei. En ég ætla ekki að gera það til að sýna hv. þm. að ég stend við samkomulag þó að hann kjósi að fara fram hjá þeim sem hann semur við um niðurstöður mála.