Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 23. apríl 2002, kl. 13:31:54 (8141)

2002-04-23 13:31:54# 127. lþ. 126.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, JÁ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Jóhann Ársælsson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Niðurstaða þess þingmeirihluta sem styður ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í mesta pólitíska ágreiningsmáli íslenskra stjórnmála til margra ára liggur nú fyrir með þessu frv. Í ljósi loforða flokksforingja stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar eru þessi úrslit fráleit. Þjóðarsáttin sem var boðuð er orðin að málamyndagjörningi sem er ætlað að festa gildandi fyrirkomulag í sessi en ekki er hróflað við ágreiningsmálinu sjálfu. Þessi niðurstaða er fengin með hrossakaupum milli stjórnarflokkanna og við LÍÚ. Að endingu var framgangur málsins hér á Alþingi tryggður með táknrænum hætti sem er afar lýsandi fyrir feril allrar þeirrar óheillastefnu sem hér er reynt að festa í sessi. Þetta sést á því að stuðningur um málið er augljóslega fenginn með því að kaupa fylgi þingmanna stjórnarflokkanna í sjútvn. við frv. með sértækum úthlutunum til staða í þeirra eigin kjördæmum. Í þriðja sinn á sama vetrinum er verið að úthluta viðbótaraflaheimildum til sérvalinna staða og útgerða til að vinna gegn afleiðingum af kerfi sem samt er verið að reyna að festa í sessi með því frv. sem hér liggur fyrir. Þingmeirihlutinn verður sjálfur að hafa heiður og skömm af þeim björgunarleiðöngrum sem hann telur sig þurfa að fara vegna þessa kerfis sem hann vill viðhalda.

Samfylkingin er andvíg þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir og mun þess vegna sitja hjá við einstakar greinar frv. og brtt. meiri hlutans en greiða atkvæði gegn málinu í heild við lok afgreiðslu þess.