Afgreiðsla mála fyrir þinghlé

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 10:02:41 (8237)

2002-04-26 10:02:41# 127. lþ. 130.91 fundur 550#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé# (aths. um störf þingsins), ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[10:02]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að óska mönnum gleðilegs sumars. Ég hlustaði í morgun með athygli á viðtal í Ríkisútvarpinu við hæstv. forseta Halldór Blöndal og sannfærðist um að þar fer mikill bjartsýnismaður. Hann sagðist að vísu telja að okkur auðnaðist ekki að ljúka þinghaldinu fyrir helgi, þ.e. á morgun, að öllum líkindum mundu þingstörfin teygja sig yfir helgina og inn í mánudaginn.

Ég vil vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur mikill földi mála, margir tugir, þar á meðal stórmál, og það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að stjórnarandstaðan á þingi mun aldrei láta það yfir sig ganga að þessum málum verði hleypt í gegnum þingið á einhvers konar færibandi, umræðulaust eða umræðulítið.

Það var gert ráð fyrir því að þinginu lyki síðasta miðvikudag. Ef áform hæstv. forseta um að ljúka þinginu í byrjun næstu viku ættu að ganga eftir þarf mikla hugarfarsbreytingu á Alþingi og ráðherrar og ríkisstjórn verða að gera sér grein fyrir því að til þess þarf samninga. Við erum að sjálfsögðu reiðubúin að skoða þessi mál en á þeim forsendum sem ég hef lýst, að ráðherrar og ríkisstjórn átti sig á því að þeir munu ekki valta yfir stjórnarandstöðuna.

Ég óska eftir því að þessi mál verði nú skoðuð.