Afgreiðsla mála fyrir þinghlé

Föstudaginn 26. apríl 2002, kl. 10:09:11 (8243)

2002-04-26 10:09:11# 127. lþ. 130.91 fundur 550#B afgreiðsla mála fyrir þinghlé# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 127. lþ.

[10:09]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Gleðilegt sumar. Á dagskránni er mikill fjöldi mála en það er ekki svo að þau séu öll órædd. Það er búið að ræða þessi mál í nefndum aftur og aftur og lengi þannig að við erum á lokahnykk þessara mála.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson vill taka upp gamla siði, að samið verði við stjórnarandstöðuna um einstök mál, að sleppa einstökum stjfrv. Það kemur ekki til greina. Það er andstætt lýðræðinu. Á Alþingi er kosinn ákveðinn meiri hluti af kjósendum og sá meiri hluti á að hafa sitt vald til að koma sínum málum í gegn.

Ég legg til að í staðinn fyrir að semja við stjórnarandstöðuna um að einstök stjórnarmál verði tekin út á frestum við þinginu fram yfir sveitarstjórnarkosningar og tökum aftur upp þráðinn í byrjun júní. Við erum ekkert of góð til að vinna að sumrinu eins og annað fólk.