Stjórnarfrumvörp og framhald þinghalds

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 10:08:06 (8284)

2002-04-27 10:08:06# 127. lþ. 131.91 fundur 551#B stjórnarfrumvörp og framhald þinghalds# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[10:08]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni hjá hv. þm. að stundum koma mál frá ríkisstjórninni afar seint fram. Það hefur gerst á þessu þingi, eins og stundum áður, að ráðherrar hafi verið seinir með mál sín. Það á auðvitað við um mál eins og um ríkisábyrgðina til deCODE. En það er ekki við ríkisstjórnina eina að sakast í þeim efnum. Hún leggur málið fram með stuðningi þingflokka. Málin eru tekin fyrir á Alþingi með stuðningi þingsins þannig að það er þingið sjálft sem ákveður að lokum að þessi mál eru tekin fyrir. Það er því ósanngjarnt að beina gagnrýninni sérstaklega að ríkisstjórninni í þessum efnum. (ÖJ: Þingflokkum stjórnarinnar þá.) Öllu þinginu, herra forseti. Það er þingið sem veitir afbrigði fyrir því að taka mál fyrir ef þau koma of seint fram.

Ég vil svo segja, herra forseti, að ég er alveg sammála því að menn eiga að ræða mál vandlega og segja hug sinn allan í þeim efnum. En það má stundum ofgera í þeim efnum eins og öðrum, og þingmenn þingflokks Vinstri grænna hafa talað hér alveg óskaplega mikið um þetta mál og hafa verið einir um það. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki raðað sér á mælendaskrá í þeim mæli sem þingmenn Vinstri grænna hafa gert hér dögum saman í þessu máli. Það hefur ævinlega verið þannig, herra forseti, að þegar einn þingmaður þeirra var að stíga úr ræðustól steig annar í ræðustólinn og hinir fjórir voru allir á mælendaskrá.