Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 13:00:33 (8302)

2002-04-27 13:00:33# 127. lþ. 131.3 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[13:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við erum komin að 3. umr. um Þjóðhagsstofnun en til stendur að leggja þá stofnun niður, nokkuð sem lengi hefur verið í farvatninu eða allar götur frá því á síðasta vori. Þjóðhagsstofnun kom með yfirlýsingar og álitsgerðir sem stríddu gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Þá birtist hæstv. forsrh. þjóðarinnar í fjölmiðlum og sagði að nú stæði til að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Það hefur verið rifjað upp áður við umræðuna að fordæmi séu fyrir slíku háttalagi, maður þurfi að vísu að fara hinum megin á hnöttinn til að finna þau, alla leið til Nýja-Sjálands, en forsætisráðherrann í því landi ákvað að leggja niður nýsjálensku þjóðhagsstofnunina á árinu 1990 eða 1991 eftir að hún hafði andæft stefnu ríkisstjórnarinnar og sýnt fram á veikleika í þeirri stefnu.

Þá hafði það gengið um nokkra hríð að einkavætt hafði verið af miklu kappi í landinu og bæði pólitísk öfl og verkalýðshreyfing sýnt mikið andvaraleysi en það er á þessu tímabili sem menn eru að byrja að taka við sér og þá einnig innan nýsjálensku þjóðhagsstofnunarinnar. Og viðbrögðin voru þau að stofnunin var einfaldlega lögð niður.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði vildum hafa annan hátt á og töldum eðlilegt að starfsemi Þjóðhagsstofnunar yrði tekin til skoðunar, gerð yrði úttekt á starfsemi Þjóðhagsstofnunar og við lögðum fram þáltill. þar að lútandi. Þar lögðum við til að skipuð yrði nefnd sem hefði slíkt verk með höndum. Í henni sætu fulltrúar allra þingflokka, fulltrúi tilnefndur af starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar og einn fulltrúi forsrn., en hann skyldi jafnframt vera formaður nefndarinnar. Verkefni nefndarinnar átti, auk almennrar úttektar, að vera það að skoða verkaskiptingu milli Þjóðhagsstofnunar og annarra aðila sem vinna að einhverju leyti að svipuðum verkefnum og meta kosti þess að Þjóðhagsstofnun yrði færð undir Alþingi. Við ætluðumst til að nefndin skilaði niðurstöðum í skýrslu til Alþingis.

Sú þáltill. var á dagskrá á sama tíma og það frv. sem nú er til umræðu, frv. til laga um Þjóðhagsstofnun eða öllu heldur um brottfall laga um Þjóðhagsstofnun, og þeirri þáltill. var ásamt frv. vísað til umsagnar í þjóðfélaginu og umsagnir voru mjög á einn veg. Þetta var nokkuð sem flestir aðilar gátu tekið undir, ekki aðeins Starfsmannafélag Þjóðhagsstofnunar eða verkalýðshreyfingin, samtök á vinnumarkaði, þau töldu skynsamlegt að fara í slíka endurskoðun. En allt kom fyrir ekki, frá nefndinni er nú komið frv. ríkisstjórnarinnar en þáltill. hefur dagað uppi.

Við vitum hins vegar að innan þingsins eigum við marga bandamenn í þessu máli og má í því sambandi minna á að núverandi þingflokksformaður Framsfl., hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, stóð fyrir þingmáli ásamt öðrum þingmönnum á 122. löggjafarþingi þar sem hugmynd var sett fram í þáltill., að ég hygg fremur en frv., sem byggðist á hinu sama og við erum að leggja til, að Þjóðhagsstofnun yrði færð undir Alþingi.

Í grg. sem fylgdi þáltill. okkar segir á þá leið, best að ég vitni bara í þetta, með leyfi forseta:

,,Breyting á stjórnsýslulegri stöðu Þjóðhagsstofnunar af því tagi sem gert er ráð fyrir að verði skoðuð samkvæmt tillögunni mundi styrkja stofnunina sem óháða fagstofnun, sjálfstæða gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mikilvægt er að stofnun, sem hefur það með höndum að meta stöðu og horfur í þjóðarbúskapnum, hafi svigrúm til að miðla hlutlægum upplýsingum í hvívetna og njóti sem slík almenns trausts í þjóðfélaginu. Ljóst er að slík stofnun gæti jafnframt orðið Alþingi til styrktar við að rækja eftirlitshlutverk sitt og komið að gagni við gerð fjárlaga.

Eitt meginhlutverk Þjóðhagsstofnunar er að fylgjast með framvindu efnahagsmála, meta árangurinn af efnahagsstjórn ríkisstjórnar á hverjum tíma og líklegar afleiðingar ráðstafana í efnahagsmálum. Því getur tæpast talist heppilegt að stofnunin heyri beint undir forsætisráðuneytið sem fer með yfirstjórn efnahagsmála og hefur þar á ofan nýlega tekið við forsvari fyrir Seðlabankann. Benda má á að breytingar á stöðu Ríkisendurskoðunar, sem var færð undir yfirstjórn Alþingis frá framkvæmdarvaldinu, urðu til þess að styrkja þá stofnun mjög sem sjálfstæðan, óháðan og faglegan eftirlitsaðila. Sömu sögu er að segja af starfsemi umboðsmanns Alþingis, þó að ekki sé um efnislega sambærilega hluti að ræða, að vistun starfseminnar í skjóli Alþingis hefur reynst haldgóð trygging fyrir því að stofnunin njóti óskoraðs trausts og virðingar og að fagleg og hlutlæg vinnubrögð séu ekki dregin í efa, einmitt vegna þess hver staða hennar er í stjórnsýslunni.

Í tilefni af breytingum sem líklega eru í aðsigi, m.a. á stöðu Seðlabankans, á gjaldeyris- og peningamarkaði og fleiri sviðum, er eðlilegt að farið sé yfir stöðu og hlutverk stofnana og embætta sem hlutverki gegna á þessu sviði. Tillagan hefur sem grundvallarforsendu að allar breytingar sem gerðar kunna að verða á starfsemi og stöðu stofnana á þessu sviði séu yfirvegaðar og vandlega undirbúnar, í góðu samstarfi við starfsmenn og samtök þeirra.``

Frá því að þessi orð voru sett á blað hefur sú breyting orðið að seðlabankalög eru orðin að veruleika sem hafa breytt hlutverki Seðlabankans að því leyti að hann á að vera sjálfstæðari stofnun en hann áður var, óháðari ríkisstjórninni en hann áður var, og keppa að öðrum markmiðum, fyrst og fremst því markmiði að halda verðbólgu í skefjum og að öðru leyti á hann að reyna að stuðla að því að efnahagsstefna stjórnvalda á hverjum tíma nái fram að ganga en ekki með því inngripi og þeirri íhlutun í peningamálastjórnina sem hann áður hafði, t.d. varðandi gengið.

Þetta er kannski meginhugsunin sem býr að baki gagnrýni okkar á að leggja Þjóðhagsstofnun niður, meginhugsunin kemur fram í þeim atriðum sem ég vék að og sem ég las hér upp. Við teljum mjög mikilvægt að til staðar sé stofnun sem er óháð pólitísku framkvæmdarvaldi. Við teljum það ekki til bóta að leggja Þjóðhagsstofnun niður, búta starfsemina niður í nokkra þætti, færa hluta hennar undir Seðlabankann, það er óljóst hvað það er sem á að fara undir þá stofnun, við fengum engin greinargóð svör við því. Að öðru leyti á að færa starfsemina undir Hagstofuna, margvíslega skýrslugerð, og í þriðja lagi á að fara með hluta starfseminnar til fjmrn. og beintengja allar spár, allar efnhagsspár, hinu pólitíska framkvæmdarvaldi. Út á það gengur gagnrýni okkar fyrst og fremst. Við teljum mjög óskynsamlegt að beintengja allar efnahagsspár pólitísku framkvæmdarvaldi. Ef farið er í gegnum umsagnir sem borist hafa þá eru þær mjög á þann veg að menn vara almennt mjög eindregið við þessu. Tillaga sem við höfum lagt fram hér í minni hlutanum þar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og sá sem hér stendur leggja til að ef af þessu yrði, sem er nú mjög líklegt að verði því að við erum komin hingað í 3. umr. nema menn sjái að sér og breyti fyrri afstöðu, þá viljum við að stofnað verði sérstakt hagsvið undir Alþingi þannig að sjálfstæði Alþingis og alþingismanna, möguleikar þeirra til gagnasöfnunar og upplýsingasöfnunar verði greiðir og við getum sótt í óháðan aðila.

Við höfum fengið að heyra að núna séu að koma til sögunnar aðrar stofnanir og stofnanir sem áður hreinlega fyrirfundust ekki, sem sinna greiningu á efnahagsstærðum og spásagnagerð, bankar, verkalýðshreyfingin hafi verið að eflast, Háskóli Íslands, hagdeildin þar, og það sé ekkert óeðlilegt að þingmenn snúi sér til slíkra aðila. Það að menn skuli segja þetta lýsir alveg ótrúlegri vankunnáttu á viðfangsefninu. Háskóli Íslands er ekki í þeirri gagnasöfnun sem verið hefur á vegum Þjóðhagsstofnunar. Háskóli Íslands eða Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur tekið að sér tiltekin afmörkuð viðfangsefni sem hann innir af hendi samkvæmt greiðslu. Háskólinn hefur ekki fjármuni til þess sjálfur að sinna verkefnum sínum þannig að fyrir þetta allt þarf að greiða.

Vilja menn virkilega fara inn á þá braut? Og er það heppilegt fyrir lýðræðislega umræðu í landinu að þeir sem vilja taka á einhvern viti borinn hátt þátt í umræðu um efnahagsmál þurfi að greiða fyrir aðgang að upplýsingum? Ég held að það sé ekki heppilegt. En fram til þessa hafa allir þeir sem vilja kynna sér málin eða afla upplýsinga, átt greiðan aðgang að Þjóðhagsstofnun --- ég hef oft reynt þetta sjálfur --- um skuldastöðuna, um þróun skuldastöðunnar, svo dæmi sé tekið, og efh.- og viðskn., þingflokkar og þingmenn hafa getað leitað til Þjóðhagsstofnunar og fengið svör við spurningum sínum mjög greiðlega.

Ekki er þar með sagt að menn hafi alltaf verið sáttir við Þjóðhagsstofnun, því fer reyndar fjarri. Ég hef oft verið mjög ósáttur við það sem komið hefur frá Þjóðhagsstofnun. Ekki síst hef ég gagnrýnt fyrrverandi forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sem á sínum tíma var formaður stóriðjunefndar og fyrrverandi ráðuneytisstjóri í iðnrn. þegar lagt var á ráðin um stóriðju fyrir austan. Mér fannst hann ekki alltaf vera nægilega gagnrýninn á þau áform. Ég skrifa því ekki upp á allt sem frá Þjóðhagsstofnun hefur komið. Síðan hafa komið upp önnur mál þar sem ég hef verið sammála þeim sama manni, þessum sama forstöðumanni. En hitt stendur eftir að upplýsingaöflun og upplýsingamiðlun um efnahagsstærðir og -spár hefur verið með miklum ágætum. Og verkefni okkar ætti þá að vera það að efla þessa stofnun, efla sjálfstæði hennar og möguleika til slíkra faglegra vinnubragða. Út á það hafa okkar tillögur gengið.

[13:15]

Ríkisstjórnin hefur svarað því til að setja þessa stofnun á höggstokkinn og neitar okkur um faglega vinnu þar sem farið yrði yfir þessi mál. Fólkið, starfsfólkið sem sendi fulltrúa sína inn í starfsnefnd ríkisstjórnarinnar varð agndofa. Það hafði aldrei kynnst öðru eins, öðrum eins vinnubrögðum þar sem fyrir fram var ákveðið hver niðurstaða nefndarinnar átti að vera. Þeim var síðan gert að sitja þarna nánast eins og strengjabrúður til þess að framkvæma ákvarðanir sem áður höfðu verið teknar. Síðan leyfðu þeir ágætu menn sem skipaðir voru af ríkisstjórninni sér að koma til efh.- og viðskn. og segja að þarna hefði farið fram mjög opin og breið umræða um kosti þess og galla að hafa skipulagið á þennan veg eða hinn. Það var aldrei til umræðu. Það eitt hafði verið ákveðið að leggja nefndina niður og starfsnefndinni var ekki ætlað annað hlutverk en að koma þeirri ákvörðun í framkvæmd.

Þetta minnir mann mjög á yfirlýsingar sem oft hafa verið gefnar, m.a. hér í þessum sal og í fjölmiðlum af hálfu hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar um samráð sem haft hefur verið við starfsmenn, t.d. þegar stofnanir hafa verið gerðar að hlutafélögum, þær einkavæddar og seldar. Það var talað um alveg frábærlega gott samstarf við bankamenn og samtök þeirra þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru gerðir að hlutafélögum, alveg stórkostlega gott samstarf og samráð, sagt að menn hefðu verið kallaðir til og málin rædd. En samstarfið og samráðið fólst hins vegar ekki í öðru en því að mönnum var stillt upp við vegg gagnvart þeirri ákvörðun sem þegar hafði verið tekin og þeim tilkynnt um. Samráðið fólst síðan í því að ákveða hvernig gengið yrði frá ýmsum lausum endum og hnútar hnýttir. Það var samráðið. Samráðið var ekkert annað.

Nákvæmlega þetta gerist varðandi þá stofnun sem hér um ræðir. Þetta kemur mjög vel fram í umsögn frá Starfsmannafélagi Þjóðhagsstofnunar. Þar er byrjað á því að leggja áherslu á að fulltrúar Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar séu algerlega mótfallnir þeim áformum sem birtast í frv. og telji að þau muni hvorki leiða til eflingar faglegrar umfjöllunar um íslenskan þjóðarbúskap né til hagræðingar í rannsóknum á efnahagsmálum. Í vinnu samstarfhópsins hafi í engu verið tekið tillit til sjónarmiða starfsfólks stofnunarinnar. Þetta er sagt alveg berum orðum. Síðan er tíundað hver sérstaða Þjóðhagsstofnunar hafi verið í efnahagsumhverfinu sem óháð sérfræðistofnun sem njóti trausts og álits --- ég get skrifað upp á það --- og að hún sé talin vinna faglega að þeim málum sem henni hafi verið falin. Upp á það get ég skrifað líka frá sjónarhóli reynslu minnar.

Ég ætla ekki að lesa þessa umsögn Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar enda hef ég áður vísað í þá umsögn við fyrri umræðu. En Starfsmannafélag Þjóðhagsstofnunar bendir líka á þann veikleika sem felst í því að færa gerð efnhagsspáa og áætlana undir pólitískt framkvæmdarvald, bendir á þá veikleika sem felist í því.

Síðan er að því vikið einnig að mjög margt sé óljóst um hver verði afdrif einstakra vinnsluþátta. Í umsögninni er rakið hvernig þetta gekk allt saman fyrir sig og þeim var stillt upp við vegg.

Það er rétt að árétta það eina ferðina enn að undir lok umsagnar Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar er minnt á að einhvern tíma í umræðuferlinu hafi því verið heitið að starfsmönnum yrðu boðin sambærileg störf annars staðar í stjórnsýslunni. Nú sé búið að breyta þessu orðalagi og heiti ,,önnur störf`` án þess að það sé tilgreint nokkuð nánar.

Við gengum eftir því við ráðuneytisstjóra forsrn. hvort ekki væri hægt að breyta orðalaginu í þá veru sem starfsmannafélagið óskaði eftir og að vísað yrði í sambærileg störf, þ.e. að starfsmönnum yrði heitið sambærilegum störfum. Ráðuneytisstjórinn sagði að það yrði að sjálfsögðu gert, að reynt yrði að bjóða starfsmönnum sambærileg störf þeim sem þeir gegndu núna, en þeir kysu að hafa orðalagið á þennan hátt. Ég skil ekki hvers vegna menn eru ekki fáanlegir til að láta orðin ríma við athafnirnar að þessu leyti ef þeir ætla sér að hafa þennan háttinn á.

Í nál. minni hluta efh.- og viðskn. stóðum við sameinuð, þingmenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við erum algerlega einhuga í þessu máli, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og sá sem hér stendur. Við skiluðum sameiginlegu nál. eftir að hafa farið mjög gaumgæfilega í saumana á þessu máli og kynnt okkur mjög gaumgæfilega umsagnir sem bárust úr atvinnulífinu, frá samtökum launafólks og ýmsum öðrum aðilum. Þessar umsagnir voru mjög á einn veg.

Alþýðusambandið sendi ekki frá sér skriflega umsögn en það kom mjög vel og skýrt í ljós í máli fulltrúa sambandsins sem kom á fund efh.- og viðskn. að Alþýðusambandið hefði verið andvígt því að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Eftir að Alþýðusambandið hefði hins vegar metið stöðuna svo að af þessu yrði hvað sem tautaði og raulaði þá hefði verið gengið til viðræðna við ríkisstjórnina um aðra kosti. Upp úr þeirri umræðu hefðu sprottið fyrirheit úr Stjórnarráðinu um að Alþýðusambandið fengi fjárhagslegan stuðning við sína hagdeild. Það kom fram í máli talsmanna annarra samtaka, BSRB, BHM, Kennarasambandsins og Sambands íslenskra bankamanna að menn horfðu einnig vonaraugum í þessa átt. En hin samtökin létu þess þó getið að þau væru algerlega andvíg því að leggja niður Þjóðhagsstofnun og vildu ganga í gagnstæða átt, þ.e. að efla stofnunina en væru þess þó fýsandi að taka þátt í endurskoðun á starfsemi hennar.

Það er athyglisvert að í umræðunni sem fram fór í efh.- og viðskn. komu fram ýmsar hugmyndir um hvað mætti gera. Auk hugmyndarinnar um að færa Þjóðhagsstofnun undir Alþingi var t.d. um það rætt að það kynni að vera ráð að sameina Hagstofuna og Þjóðhagsstofnun og mynda sjálfstæða greiningarstofnun innan þessa nýja batterís. Enginn er að andmæla því að starfsemi Þjóðhagsstofnunar verði endurskoðuð. Enginn er að andmæla því að verkefnum verði skákað til og færð frá einni stofnun til annarrar. Það er enginn að andmæla þessu. Það eina sem menn eru að andmæla er að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður og þannig dregið úr möguleikum stofnana samfélagsins, Alþingis, verkalýðshreyfingar og annarra sem vilja taka þátt í lýðræðislegri umræðu um efnahagsmál á traustum faglegum grunni. Menn eru að andmæla því að þessir aðilar séu sviptir þessum möguleika að fá upplýsingar. Út á það gengur málið.

Ég furða mig á því hvað hnjáliðirnir í Framsfl. eru undarlega vel smurðir. Ég man ekki betur en að Framsfl. hefði andæft þessu og að menn hefðu haft uppi stór orð um að þeir mundu aldrei láta þetta yfir sig ganga. En hvað hefur síðan gerst? Ekki heyrist orð frá Framsfl. Þar á bæ eru menn bara bærilega sáttir. Hvað kemur fyrst upp í huga manna við það? Skyldi það vera verslun og viðskipti? Ætli það sé ekki bara verslun og viðskipti? Og menn fara að spyrja: Hvað var keypt og hvað var selt?

Svona eiga stjórnmál ekki að ganga fyrir sig. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að í stjórnmálum þarf oft að miðla málum og menn þurfa að slá af ýtrustu kröfum og sjónarmiðum og hliðra til til þess að ná lendingu. Það þekkja menn innan stjórnmálaflokka einnig. Menn þekkja það bara úr lífinu almennt að við þurfum stöðugt að laga hugsun okkar að hugsun annars fólks til þess að geta starfað saman. En þegar stjórnmál eru farin að ganga út á verslun og viðskipti með þessum hætti erum við komin út á mjög hála braut.

Í nál. minni hlutans er farið mjög rækilega yfir málin. Þau eru skoðuð frá sjónarhóli hagfræðinnar og bent á að hagfræðileg og fagleg rök skorti fyrir þessum breytingum. Verkefni Þjóðhagsstofnunar eru tíunduð ítarlega. Þau eru:

1. Að færa þjóðhagsreikninga.

2. Að semja þjóðhagsspár og -áætlanir.

3. Að semja og birta opinberlega tvisvar á ári yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum.

4. Að annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir ríkisstjórn og alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála.

5. Að láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál.

6. Að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir.

Tökum bara tvennt það síðasta. Það er lögbundin skylda Þjóðhagsstofnunar að sjá Alþingi fyrir upplýsingum, alþingismönnum og nefndum Alþingis. Það er líka skilgreint verkefni Þjóðhagsstofnunar að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir. Það er ekkert gengið frá því hvernig þessu skuli fyrir komið. Ég minnist þess og ég held að það komi reyndar fram í lögum --- sennilega mun það vera í lögum um Seðlabanka eða í öðrum gögnum um starfslýsingu hans --- að þar segir að hann eigi að láta þessum aðilum í té upplýsingar ef um það semst. ,,Ef um það semst``, er sagt. Hvað er átt við þar, þ.e. ef um það semst að Seðlabankinn vilji sinna slíku verkefni? Er verið að tala um greiðslu?

[13:30]

Mér finnst núna á síðustu dögum þingsins vera að opinberast öllum mönnum hve vanbúin við erum til þess að taka á ýmsum flóknum málum. Hingað inn á borð fengum við frv. ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð til deCODE upp á 20 milljarða kr. og þá er leitað til þessara stofnana. Það er leitað til Seðlabankans, leitað er til Þjóðhagsstofnunar, leitað er til banka og hagsmunaaðila í fjármálalífi. Og hvaðan skyldu gagnrýnustu raddirnar hafa komið með tilliti til efnahagsmála? Það er frá Þjóðhagsstofnun. Þar voru uppi varnaðarorðin. Er það þess vegna sem á að loka henni? Ég spyr. Er ekki einmitt ástæða til þess að efla slíka stofnun, efla slíka starfsemi? Seðlabankinn kveinkaði sér undan því, og ég skil það mjög vel, að þurfa að skila umsögn á einum degi um málið. Hann skrifaði efh.- og viðskn. bréf og sagðist eiga afskaplega erfitt með að tjá sig um þetta mál því að hann hefði haft til þess einn dag. Ég skil það afskaplega vel, ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin segir núna að hún þurfi nokkra mánuði til að fara í saumana á ýmsum forsendum þess máls sem lúta að t.d. ESA. En Seðlabankinn sagðist ekki hafa möguleika á að skoða málið á einum degi, en hann sagði meira og við það staðnæmdist ég. Hann sagði að sig skorti forsendur til þess að kafa ofan í málið. Ég er ekki alveg viss um að ég skrifi upp á það vegna þess að Seðlabankinn sem og aðrar stofnanir geta leitað til sérfræðinga sér til aðstoðar. Við þingmennirnir sem vildum kynna okkur málefni deCODE fórum einfaldlega á bandaríska verðbréfavefinn sem öllum fyrirtækjum sem eru skráð á verðabréfamarkaði í Bandaríkjunum er skylt að færa upplýsingar um sjálf sig inn á. Við fórum þangað og öfluðum upplýsinga. Auðvitað á maður að gera þá kröfu til þessara stofnana, Seðlabankans og annarra, að þær geri slíkt hið sama og kalli síðan til sérfræðinga ef þurfa þykir.

Þetta segir mér að þegar taka þarf á erfiðum málum, flóknum, erfiðum álitamálum, þá skortir okkur tækin til þess. Væri þá ekki nær að efla slík tæki í stað þess að drepa niður það sem þó er til eins og nú er verið að gera? Væri ekki nær að efla það? Við hefðum t.d. í þessu tilviki með deCODE getað snúið okkur til Þjóðhagsstofnunar, ég tala nú ekki um ef hún hefði verið færð undir Alþingi og hefði það verkefni fyrst og fremst að þjóna Alþingi um upplýsingar, t.d. í málum eins og þessum, þannig að menn kæmust hjá því að þurfa að grafa ofan í þetta allt sjálfir eða með aðstoð manna sem leitað er til nánast eftir atvikum. Það hefði líka forðað okkur frá því að þeir sem eru óskaplega hlynntir verkefnum á borð við þetta þyrftu að opinbera að þeir hefðu ekki tölurnar á hraðbergi. Þeir gætu leitað sér aðstoðar hjá slíkri stofnun og slíkt mundi auðvelda umræðuna, dýpka hana og gera hana faglegri, og það yrði til þess að efla lýðræðið að hafa þessi mál í góðu lagi.

Við bendum einnig á í minnihlutaáliti okkar að þetta sé ómarkviss verkefnaflutningur. Þar ítreka ég það sem ég hef áður sagt að það kann vel að vera rétt að einhver verkefni sem hafa verið hjá Þjóðhagsstofnun eigi betur heima annars staðar og hugsanlega eigi síðan verkefni sem áttu heima annars staðar betur heima hjá Þjóðhagsstofnun. Það kann vel að vera. En þá þarf að skoða það og með opnum huga.

Síðan er annað sem við bendum á að mjög líklegt er að þetta verði til kostnaðarauka, þetta verði dýrara fyrirkomulag og sannast sagna mundi ég ekki gráta það ef það yrði miklu markvissara og betra og upplýsingagjöfin betri og markvissari. Þá mundi ég ekki gráta það að við settum meira fjármagn til þess að styrkja slíka starfsemi vegna þess að ég held að það sé gott og nauðsynlegt samfélaginu og lýðræðinu. En ef það reynist hins vegar vera svo að kostnaðurinn aukist án þess að gæðin aukist að sama skapi þá er verr af stað farið en heima setið. Og þetta gagnrýnum við í sambandi við kostnaðinn.

Síðan gagnrýnum við það mjög harðlega að sjónarmið starfsmanna skuli hafa verið hunsuð og ég hef þegar vikið að því í umsögn fulltrúa starfsmannafélagsins sem ég vísaði í hér áðan. Ég hef einnig farið nokkrum orðum um spásagnagerðina, hversu varasamt það er að hún skuli látin lúta pólitísku forræði. Og hér er mjög mikilvægt að það komi fram að þegar við höldum þessu fram þá erum við ekki að gagnrýna þá einstaklinga, það starfsfólk sem sinnir þeim verkum í fjmrn., síður en svo. Við erum ekki að saka það um óheiðarleika í verkum sínum, síður en svo. Við erum hins vegar að benda á að það vinni samkvæmt uppsetningu og formúleringum sem pólitískt framkvæmdarvald setur. Það er málið. Það er ekki spurt þeirra spurninga sem við hugsanlega vildum spyrja.

Síðan er einnig á það að líta að enginn er alvitur og efnahagsspádómar byggja að verulegu leyti á líkindareikningi, þeir byggja á líkindum að verulegu leyti. Þess vegna þarf það ekki að vera vegna ónákvæmni og síður en svo vegna óheiðarleika að missagnir voru í spásögnum fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar við síðustu fjárlagagerð, eins og kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Hann benti mjög rækilega á þær missagnir og það misræmi sem annars vegar var í spám Þjóðhagsstofnunar og hins vegar í spám fjmrn. Það munaði talsvert miklu varðandi spádóma um útflutning og innflutning og þenslu í hagkerfinu o.s.frv. Þess vegna er fjölbreytnin einn þátturinn til viðbótar sem rétt er að halda til haga, að það séu margir aðilar að sinna slíkum verkum.

Sú hætta er fyrir hendi og það hefur verið að færast í vöxt á síðustu árum að fjármálastofnanir eru að hasla sér þarna völl á sama tíma og verkalýðshreyfingin hefur ekki haft nægilega burði til slíks þótt hún hafi staðið sig að mörgu leyti afar vel og sé að senda frá sér mjög mikilvægar upplýsingar, ég er ekki gera lítið úr því, alls ekki. En þarna þurfum við að tryggja jafnvægi og við þurfum að tryggja fjölbreytni. Þetta var um hina pólitísku spásagnagerð.

Síðan undir lokin vekjum við athygli á því, sem ég hef áður gert í máli mínu, að þetta komi til með að veikja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Eitt af því sem einkennir stjórnarfarið hjá okkur er mjög sterkt framkvæmdarvald og tiltölulega veikt löggjafarvald og þegar kemur að eftirlitshlutverkinu hefur framkvæmdarvaldið mikla yfirburðastöðu með sérfræðingaveldi á sínum snærum. Það er þar sem Þjóðhagsstofnun, þessi óháða stofnun eða tiltölulega óháða stofnun, hún heyrir undir forsrn. í seinni tíð, kemur til skjalanna. Við höfum fremur viljað efla sjálfstæði hennar annaðhvort með því að færa hana undir Alþingi eða annað.

Í þessari fyrri ræðu minni við 3. umr. ætla ég ekki að hafa fleiri orð að sinni en mun fylgjast með umræðunni hér af athygli og vekja þá máls á öðrum atriðum ef mér þykir þurfa.