Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 13:41:45 (8303)

2002-04-27 13:41:45# 127. lþ. 131.3 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, Frsm. minni hluta JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hér er á nýjan leik tekið fyrir frv. ríkisstjórnarinnar um að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Mörg stór mál liggja fyrir þessu þingi nú á lokadögum og hvað varðar a.m.k. tvö af þeim, þ.e. frv. um að veita deCODE 20 milljarða ríkisábyrgð og frv. sem við fjöllum um núna, um Þjóðhagsstofnun, þá eru einungis tvær til þrjár vikur síðan þau voru fyrst lögð fram í þinginu, herra forseti.

Það gefur alveg augaleið að það eru ekki góð vinnubrögð að bjóða þinginu upp á slíka málsmeðferð í stórum málum. Enda er það svo í þessu máli sem og ríkisábyrgðarmálinu að stórir hlutir og miklir þættir sem tengjast þessum málum eru óskýrðir og ekki fást fram upplýsingar um. Þannig er Alþingi og þingmenn settir í þá stöðu að eiga að greiða atkvæði um mál sem ekki liggur eins skýrt fyrir og verða má hvaða áhrif og afleiðingar þau hafa í þjóðfélaginu.

Það á svo sannarlega við um þetta mál og þarf ekki að fara lengra, herra forseti, en að vísa í nál. meiri hlutans þar sem skýrt kemur fram að meiri hlutinn gerir sér ekki einu sinni grein fyrir hvað verður um öll þau verkefni sem Þjóðhagsstofnun hefur haft á sinni könnu, vegna þess að í nál. meiri hlutans er sagt, með leyfi forseta:

,,Jafnframt er gert ráð fyrir að aðrir aðilar á borð við Seðlabanka Íslands, aðila vinnumarkaðarins og einkaaðila geti tekið að sér og sinnt einhverjum verkefnum.``

Það hefur ekki fengist skýrt í umræðunni, herra forseti, hvaða verkefni þetta eru. Þetta eru ótæk vinnubrögð sem hér eru á ferðinni að málið skuli vera skilið eftir svona í lausu lofti og greinilegt að meiri hlutinn ætlar hvergi að hvika frá því að afgreiða málið nú.

Ég vil rifja upp, herra forseti, að því var borið fyrir sig varðandi þennan þátt máls í umræðunni, m.a. af hæstv. utanrrh. sem fékk það hlutskipti að mæla fyrir málinu, að leggja niður Þjóðhagsstofnun, að hann taldi nauðsynlegt að gera það m.a. vegna starfsmannanna og óvissunni sem þeir væru búnir að vera í. Það kom reyndar fram, herra forseti, að starfsmenn Þjóðhagsstofnunar telja líkt og við hér í stjórnarandstöðunni að það hefðu verið miklu eðlilegri og réttari vinnubrögð að bíða með málið til haustsins og athuga hvort ekki væri hægt að ná einhverri sátt um það hvernig þessari endurskipulagningu verður háttað, þannig að menn hafi fastara land undir fótum hvert verkefnin fara og að þingmenn séu þá í einhverri sæmilegri vissu um að verkaskiptingu að því er varðar þjóðhagsspá og greiningu á spá og þjóðhagsáætlun sem og ýmsar hagrannsóknir, verði sem best fyrir komið. En það er allt, herra forseti, í óvissu eins og málið er skilið eftir hér.

[13:45]

Þegar ég ræddi þetta mál við 2. umr. átti ég ýmislegt ósagt sem ég þarf að koma á framfæri í þessari umræðu, m.a. þarf ég að fara nokkuð yfir umsagnir sem ekki gafst færi á að fara yfir við 2. umr. málsins. Flestar þær umsagnir sem bárust nefndinni staðfesta það sem við höfum haldið fram í stjórnarandstöðunni, að það eru engin hagfræðileg eða fagleg rök fyrir því að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Það sem verra er, herra forseti, er að það mun tvöfalda útgjöldin frá því sem rekstur Þjóðhagsstofnunar kostar nú að færa verkefnin á þá staði sem menn hafa hugsað sér þó að stór þáttur þeirra sé í óvissu.

Það sem við höfum gagnrýnt er að verið er að leggja niður Þjóðhagsstofnun sem hefur skilgreind og skýr verkefni á sinni könnu samkvæmt lögum. Það er talið upp í átta greinum í lögum um Þjóðhagsstofnun, og engin lagaákvæði koma í staðinn, herra forseti, hvorki um Seðlabankann né Hagstofu sem eiga að fá einhvern hluta af þessum verkefnum. Eftir að Alþingi hefur því samþykkt að fella niður þau lagaákvæði sem gilda um Þjóðhagsstofnun er það hvergi skrifað á lögbókina hverjum þau verkefni sem Þjóðhagsstofnun hefur haft til þessa eru falin. Þess vegna mun ég núna fara nokkuð yfir, bæði þau verkefni sem Þjóðhagsstofnun hefur samkvæmt lögum og eins minnisblað um þjónustu Þjóðhagsstofnunar. Það blað sendi Þjóðhagsstofnun efh.- og viðskn. við meðferð þessa máls og yfir það var hvorki farið, að því ég best veit, við 2. umr. þessa máls né það sem af er 3. umr. sem hér fer fram.

Meðal verkefna Þjóðhagsstofnunar eru þessi, með leyfi forseta:

1. Að færa þjóðhagsreikninga.

2. Að semja þjóðhagsspár og -áætlanir.

3. Að semja og birta opinberlega tvisvar á ári, vor og haust, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum, þar á meðal um framleiðslu, neyslu, fjárfestingu, viðskipta- og greiðslujöfnuð, verðlag og kaupgjald, atvinnu og tekjur almennings, afkomu atvinnuvega og fjármál hins opinbera. Auk þess skal stofnunin koma niðurstöðum athugana sinna á einstökum þáttum efnahagsmála fyrir almenningssjónir, eftir því sem kostur er.

Eins og má heyra af þessari upptalningu sem birtist í 2. gr. laga um Þjóðhagsstofnun eru þetta gífurlega viðamikil verkefni á sviði hagrannsókna og efnahagsspáa og greiningar á þeim sem Þjóðhagsstofnun hefur á sinni könnu sem og ýmsar skýrslugerðir og athuganir sem eru fastir liðir í starfi stofnunarinnar. Það er ekkert, herra forseti, vitað um það nákvæmlega hvert þessi verkefni fara eða hvort því verði t.d. framfylgt að yfirlit um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum verði birt tvisvar á ári, þ.e. þessar skýrslur sem þingið t.d. styðst mjög mikið við varðandi efnahagsmál. Það er ekkert fast í hendi um að þær verði t.d. birtar hér tvisvar á ári eins og á að gera samkvæmt þessum lögum. Og það er auðvitað engin reglufesta, herra forseti, eða stjórnfesta að haga málum með þeim hætti.

4. liður í verkefnum Þjóðhagsstofnunar er: ,,Að annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir ríkisstjórnina og alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála ...``

Ég efa ekki að fjmrn. sem fær nú veigamikinn þátt í þessum verkefnum öllum sem Þjóðhagsstofnun hefur haft á sinni hendi mun vinna að efnahagsspá fyrir ríkisstjórnina og skýrslugerð um efnahagsmál. En það sem hér kemur fram í 5. tölul. 2. gr. um að ,,láta alþingismönnum og nefndum Alþingis í té upplýsingar og skýrslur um efnahagsmál`` er alveg í vindinum. Það er þó sett á lögbókina að alþingismenn og nefndir þingsins eigi að fá upplýsingar frá óháðri efnahagsstofnun en þessi lagabókstafur fellur væntanlega úr gildi eftir nokkra daga og þá er hvergi skrifað á lögbókina að það eigi að láta alþingismönnum þessar upplýsingar í té. Maður heyrir strax á Þjóðhagsstofnun viðbrögð þeirra þegar þau eru spurð um aðgang og aðkomu stjórnmálaflokka eða einstakra þingnefnda að upplýsingum úr Seðlabankanum. Svörin sem fást um það hvers konar aðgang þingmenn muni hafa að Seðlabankanum eru mjög loðin.

Ég vil þá vinda mér í, herra forseti, að fara yfir þetta minnisblað um þjónustu Þjóðhagsstofnunar til að betur sé hægt að glöggva sig á því hversu mikið af verkefnum verða raunverulega í vindinum, og enginn veit hver mun taka að sér þegar þetta frv. ríkisstjórnarinnar verður að lögum.

Hérna segir, með leyfi forseta:

,,Í þessu minnisblaði verður reynt að gera grein fyrir því hvernig Þjóðhagsstofnun veitir öðrum aðilum þjónustu. Reynt er að greina í hverju þessi þjónusta er fólgin og út frá því ætti að vera auðveldara að meta hvernig þessum verkefnum verður sinnt ef stofnunin verður lögð niður. Verkefni þau sem hér er um að ræða má flokka í þrennt eftir eðli þeirra og verður fjallað um hvert fyrir sig hér á eftir:

Það er skýrslugerð um liðna tíð og upplýsingamiðlun,

mat á ástandi og horfum og önnur fagleg ráðgjöf,

þátttaka í stefnumótun.``

Síðan kemur hér fram, með leyfi forseta, að:

,,Þjóðhagsstofnun safnar margs konar gögnum og notar þau við gerð þjóðhagsreikninga, þjóðhagsspár og önnur kjarnaverkefni sín. Er það ekki að undra þar sem til umfjöllunar er öll efnahagsstarfsemi í landinu. Fyrir utan talnaefni um peningastærðir er einnig unnið með upplýsingar um fólkið í landinu og magntölur um ýmsa þætti efnahagslífsins. Þessar tölur fjalla í sumum tilvikum ekki einungis um Ísland heldur er einnig um að ræða samanburð við önnur lönd. Sumt af þessu efni vinnur stofnunin sjálf úr frumgögnum, svo sem ársreikningum fyrirtækja, skattframtölum einstaklinga og fyrirtækja og beinum fyrirspurnum. Aðrar upplýsingar eru fengnar frá öðrum aðilum sem safna frumupplýsingum, svo sem Hagstofu, Seðlabanka, Fiskistofu og fjölmörgum öðrum innlendum og erlendum aðilum. Umfang þessara gagna er mjög mikið eins og glöggt má sjá á vefsíðu stofnunarinnar, www.ths.is.

Vegna þess hversu mikið magn fjölbreyttra upplýsinga er notað í starfi stofnunarinnar er mikið leitað til hennar eftir gögnum um hin ólíklegustu mál, bæði reglubundið og af tilteknum tilefnum. Stofnunin hefur leitast við að leysa vanda þeirra sem til hennar leita hvort sem þeir eru á höttunum eftir gögnum sem stofnunin sjálf hefur búið til eða þau eru frá öðrum komin. Hér fyrir neðan er að finna lista sem byggir á upplýsingum sem safnað hefur verið hjá starfsmönnum stofnunarinnar um það hvers konar aðilar það eru sem til stofnunarinnar leita. Það skal tekið fram að starfsmenn verða mjög lítið varir við þann mikla fjölda erinda sem leyst eru með heimsóknum á vefsíðu stofnunarinnar án nokkurra samskipta við starfsmenn. Þó eru allir sammála um að álag vegna slíkra beiðna hefur minnkað gífurlega frá því áður en vefurinn kom til sögunnar.``

Síðan eru listaðir þeir aðilar sem með einum eða öðrum hætti leita eftir þjónustu Þjóðhagsstofnunar en það er almenningur, viðskiptabankar, rannsóknarstofnanir, erlendir aðilar, Eurostat, OECD, námsmenn, hagsmunasamtök, erlend sendiráð, opinberar nefndir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, blaðamenn, alþingismenn, stjórnvöld, þingnefndir, Sameinuðu þjóðirnar, Seðlabanki, háskólar, sveitarfélög, einkafyrirtæki og lánshæfismatsfyrirtæki.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að Þjóðhagsstofnun hefur mikil verkefni á sinni könnu og margir leita til hennar. Ég sé ekki fyrir mér að fjmrn., Seðlabankinn og Hagstofan, þeir þrír aðilar sem eiga að taka við þessum verkefnum, geti sinnt öllum þeim verkefnum sem Þjóðhagsstofnun hefur haft á sinni könnu. Það er auðvitað fráleitt eins og maður hefur heyrt hæstv. forsrh. segja í umræðu um þetta mál að til sögunnar séu komnar alls konar greiningardeildir og fjármálafyrirtæki sem séu með á sinni könnu ýmis af þeim verkefnum sem Þjóðhagsstofnun hefur haft. Hann nefnir ASÍ og fleiri aðila en það er alveg ljóst að þeir hafa ekki haft á sinni hendi þau viðamiklu verkefni sem Þjóðhagsstofnun hefur haft eða farið eins ofan í kjölinn og unnið grunnspár eins og Þjóðhagsstofnun hefur gert varðandi ýmsa þætti og úrlausnir á verkefnum.

Í þessu minnisblaði kemur einnig fram að ,,annar flokkur verkefna sem Þjóðhagsstofnun innir af hendi fyrir aðila sem til hennar leita er mat á ástandi og horfum í efnahagsmálum og önnur fagleg ráðgjöf. Stofnunin birti formlega mat sitt í þessum efnum í tveimur yfirlitsskýrslum á ári, þjóðarbúskapnum snemma á vorin og í þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar í þingbyrjun á haustin. Þær spár sem þarna eru settar fram eru endurskoðaðar í sumarbyrjun og undir lok ársins. Grunnur þessara spáa eru þjóðhagsreikningar og nálægðin við þá í sömu stofnun hefur reynst affarasæl. Í þessu mati byggir stofnunin einnig mjög á þjóðhagslíkani sem unnið hefur verið í samvinnu Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka og fjmrn. Margir aðilar leita til stofnunarinnar til að fá nánari skýringu á ýmsu sem þetta mat varðar, bæði forsendur og túlkun. Er þar um að ræða allt milli þess að greina nánar einstakar töflur til greinargerða um tiltekin málefni.

Stofnunin er mjög oft fengin til ráðuneytis í starfi opinberra nefnda. Oft er þar um að ræða gerð greinargerða um tiltekin efni, ýmiss konar útreikninga sem t.d. byggja á líkönum sem stofnunin hefur búið til um skattkerfið og bætur almannatrygginga og aðrar millifærslur. Í sumum tilvikum hafa starfsmenn gegnt ritarahlutverki fyrir opinberar nefndir. Nefndir Alþingis leita umsagnar Þjóðhagsstofnunar um mikinn fjölda mála á hverju ári.

Þá hefur stofnunin yfir að ráða þekkingu til að meta áhrif nýrrar atvinnustarfsemi eða framkvæmda á þjóðarhag og þróun einstakra svæða og hefur m.a. annast mat á þjóðhagslegum áhrifum stóriðjuframkvæmda. Stofnunin getur gert mannfjöldaspár fyrir einstaka landshluta og er oft leitað til hennar eftir mati á íbúaþróun, væntanlegri aldursskiptingu, mannaflaþróun o.s.frv. Starfsmenn stofnunarinnar eru oft fengnir til að halda erindi á ráðstefnum bæði innan lands og utan þar sem þeir taka fyrir ýmsa þætti sem þeir hafa þekkingu á og greina þá nánar en dagleg verkefni þeirra gefa tilefni til.

Hér er einungis um að ræða takmarkaða upptalningu á þeim verkefnum Þjóðhagsstofnunar þar sem leitað er til starfsmanna hennar um faglega þekkingu. Við endurskipulagninu verkefna stofnunarinnar verður að gæta þess eftir því sem kostur er að hægt verði að sinna slíkum verkefnum áfram og fagleg sjónarmið verði áfram í fyrirrúmi,`` segir í þessari umsögn.

Ég sé ekki, og segi það enn og aftur, að þegar maður les þetta upp, þá þjónustu og faglegu ráðgjöf sem þessi stofnun hefur veitt víðs vegar úti í þjóðfélaginu og af margvislegum tilefnum, að fjmrn. taki að sér þessi verkefni eða Seðlabankinn.

Síðan kemur hér þátttaka í stefnumótun. Þetta kemur einnig fram í þessari umsögn eða ,,minnisblaði um þjónustu stofnunarinnar`` eins og það heitir en þar segir, með leyfi forseta:

[14:00]

,,Þátttaka Þjóðhagsstofnunar í stefnumótun á sviði efnahagsmála eða skyldra sviða er fyrirferðaminnst af þeim verkefnaflokkum sem hér eru til umfjöllunar, að minnsta kosti á síðustu árum. Hægt er að skipta aðkomu stofnunarinnar að opinberri stefnumótun í tvo flokka: annars vegar er formleg aðkoma í formi þátttöku starfsmanna stofnunarinnar í nefndum eða starfshópum sem hafa það verkefni að móta stefnu í tilteknum málaflokkum. Hins vegar er óformleg aðkoma að mótun efnahagsstefnunnar með tillögugerð og ráðgjöf.

Að því er fyrri flokkinn varðar hafa starfsmenn stofnunarinnar setið og sitja í nefndum sem hafa stefnumótandi hlutverk, t.d. við útfærslu á auðlindagjaldi í sjávarútvegi og mótun auðlindastefnu, í rammaáætlun um virkjanir, jafnrétti í opinberri stefnumótun, og hnattvæðingarnefnd en þessar nefndir eru hér einungis teknar sem dæmi. Hins vegar er ekki mikið um að starfsmenn sitji í nefndum á vegum stjórnvalda. Á árum áður var Þjóðhagsstofnun mjög virk í hinni óformlegu opinberu stefnumótun í efnahagsmálum, sem þá einkenndist meira af sérstökum efnahagsráðstöfunum til að leysa úr brýnum vanda en nú er. Hið sama gildir um aðkomu stofnunarinnar að deilum á vinnumarkaði. Í því tilviki er þó sú breyting á að áður fyrr voru aðilar vinnumarkaðarins vanbúnir til að annast þá útreikninga sem nauðsynlegir voru til að ná niðurstöðu.``

Herra forseti. Ég hef farið hér í stórum dráttum yfir minnisblað frá Þjóðhagsstofnun, sem lýsir vel þeim verkefnum sem Þjóðhagsstofnun hefur haft á sinni könnu. Það er algjörlega út í hött, forseti, að ætla að þessi verkefni verði leyst af einhverjum öðrum aðilum. Hið sorglegasta í þessu er að þegar verið er að leggja stofnunina niður skuli það ekki gert í hagræðingarskyni, t.d. til að spara fjármagn, heldur er um tvöföldun á fjárframlagi að ræða sem birtast mun í útgjöldum annarra sem taka að sér þessi verkefni, þ.e. Hagstofunni, hjá fjmrn. og Seðlabanka. Auk þess er ljóst að ráðuneytin munu kalla eftir meira fjármagni ef færa á til þeirra reiknilíkön, eins og til sjútvrn. eða heilbrrn., reiknilíkan varðandi almannatryggingar. Þá er ótalið, herra forseti, það sem veita á ASÍ. Ákveðið fjármagn á að fara til að halda úti hagdeild ASÍ og vitanlega munu önnur samtök aðila vinnumarkaðarins einnig biðja um fjármagn í hagdeildir sínar.

Herra forseti. Þingmenn hafa einnig áhyggjur af því að með því að leggja niður Þjóðhagsstofnun, a.m.k. stjórnarandstöðuþingmenn, verði erfitt að afla upplýsinga og ýmissa útreikninga sem þingmenn þurfa á að halda í starfi sínu. Þessi tilhögun mun því veikja stöðu Alþingis verulega gagnvart framkvæmdarvaldinu sem er þó ærið veik fyrir. Þingmenn hafa sótt mikið til Þjóðhagsstofnunar eftir ýmiss konar upplýsingum. Ég þekki það af eigin raun að það er oft og tíðum erfiðara að fá upplýsingar hjá öðrum aðilum, eins og fjmrn. og Seðlabanka. Því alveg ljóst að aðgengi þingmanna að upplýsingum mun minnka verulega við þessa breytingu.

Herra forseti. Við 2. umr. vísuðu stjórnarliðar, og hæstv. forsrh. líka að mig minnir, til Hagfræðistofnunar háskólans, að þingmenn gætu m.a. leitað þangað. Það er út af fyrir sig ágætt að geta leitað til Hagfræðistofnunar háskólans en það er ljóst og þarf ekki að fara um það mörgum orðum að Hagfræðistofnun háskólans er ekki í stakk búin til að veita þingmönnum, þingnefndum eða einstaka stjórnmálaflokkum þjónustu á ýmsum sviðum, herra forseti, sem Þjóðhagsstofnun hefur veitt þingmönnum til þessa.

Við í minni hluta efh.- og viðskn., ég ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Ögmundi Jónassyni, höfum lagt fram brtt. um að það eigi að stofna sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis sem taki til starfa 1. jan. 2003 og kostnaður af starfsemi þessari greiðist af fjárlögum og forsætisnefnd Alþingis skuli annast undirbúning og meta nauðsyn á umfangi sviðsins.

Herra forseti. Ég hef fundið fyrir því hjá stjórnarliðum að þeir telja að þetta gæti komið til greina. Þess vegna töldum við flutningsmenn þessarar tillögu fulla ástæðu til að draga hana til baka við 2. umr. málsins og taka hana til umræðu aftur við 3. umr. og þá til lokaatkvæðagreiðslu í þessu máli ef vera kynni að stjórnarliðar mundu veita henni brautargengi. Ég held að stjórnarliðar viðurkenni, a.m.k. í hjarta sínu, að það er verið að draga verulega úr þeirri þjónustu sem þingmenn hafa haft hjá þessari óháðu efnahagsstofnun. Þeir komast heldur ekki hjá því að viðurkenna að verið er að veikja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu með þessu. Sú leið sem við hér viljum fara, þ.e. að stofna sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis, ætti að vera nokkur bót að því er varðar þjónustu við Alþingi og þingnefndir, ekki síst fjárln. og efh.- og viðskn. Reyndar þarf ýmsa útreikninga og aðstoð við aðrar nefndir þingsins, þ.e. þjónustu sem hagfræðingar mundu sinna, sem ekki er að finna núna á nefndasviði þingsins.

Líkt og lögfræðingar á nefndasviði hafa unnið mjög gott starf fyrir þingnefndir og einstaka þingmenn liggur jafnframt ljóst fyrir að það mundi breyta verulega stöðu þingnefnda, ekki síst eftir að Þjóðhagsstofnun hefur verið lögð niður, ef komið væri upp sérstöku hagsviði við skrifstofu Alþingis til að þjóna þingmönnum sérstaklega. Út á það gengur tillagan, herra forseti, sem við höfum flutt hér og ég vænti þess að um hana geti náðst nokkur samstaða.

Herra forseti. Við 2. umr. málsins fórum við nokkuð yfir það hvernig hagfræðileg og fagleg rök fyrir þessari breytingu skortir. Reyndar held ég að það sé erfitt fyrir stjórnarliða, þeim hefur a.m.k. ekki enn tekist það að draga þau fram, að benda á rök með þessari breytingu.

Ég fór nokkuð yfir reiknilíkönin og mikilvæg þjóðhagslíkön sem hafa verið í verkahring stofnunarinnar og hvernig hætta er á að fagleg þekking í tengslum við þau glatist við þessa breytingu. Ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það í þessari ræðu minni en við förum nokkuð yfir það er varðar þessi reiknilíkön í nál. sem við lögðum fram við 2. umr. Þar sýndum við m.a fram á hve ómarkviss hugmyndin um hvernig ætti að flytja verkefnin, t.d. til fjmrn. Það hlýtur að teljast ómarkviss verkefnaflutningur.

Í þeirri umræðu var m.a., herra forseti, dregin fram umsögn eða sérálit Þórðar Friðjónssonar varðandi þann þátt mála sérstaklega. En Þórður Friðjónsson skilaði áliti sem ástæða er til að fara nánar yfir en ég gat gert við 2. umr. málsins. Hann segist í meginatriðum vera ósammála þeim hugmyndum sem settar eru fram í frv. og að þessar hugmyndir þýði í aðalatriðum að Þjóðhagsstofnun verði lögð niður og verkefni hennar færð til fjmrn. og Hagstofu, en slík skipan veikir grunn efnahagsumræðu og hagrannsókna hér á landi.

Orðrétt segir Þórður, með leyfi forseta:

,,Ég tel brýnt að hér starfi hlutlaus, opinber rannsóknar- og ráðgjafarstofnun sem Alþingi, ríkisstjórn og almenningur geta leitað til og treyst.

Hér á eftir eru sex atriði nefnd sem ég vil sérstaklega vekja athygli á:

Að mínu áliti er mikilvægt að hér á landi starfi stofnun sem hefur það hlutverk að vera óháð greiningarstöð efnahagslífsins. Eðli málsins samkvæmt getur ráðuneytið ekki gegnt slíku hlutverki. Hins vegar er eðlilegt að endurskoða hlutverk Þjóðhagsstofnunar, sérstaklega að því er varðar hagsýslugerð fyrir liðinn tíma og tengsl hennar við framkvæmdar- og löggjafarvaldið.``

Þetta hafa, herra forseti, nokkrir aðilar sem komu á fund nefndarinnar tekið undir þannig að með því að leggjast gegn þessu frv. erum við ekki alfarið að hafna endurskoðun á þeim verkefnum sem efnahagsstofnanir með höndum, eins og Seðlabanki, Hagstofa, Þjóðhagsstofnun og ráðuneyti að hluta til, í þeim tilgangi að gera þau hagkvæmara. En sú leið sem hér er farin er úr öllu korti og fjarri því að vera hagkvæm eins og við höfum margfarið yfir.

Áfram segir Þórður Friðjónsson, með leyfi forseta:

,,Slík endurskoðun ætti raunar að ná til fleiri stofnana og má þar t.d. nefna skýrslusöfnun Seðlabankans um þjónustuviðskipti við útlönd og greiðslujöfnuð.``

Síðan kemur hér, herra forseti:

,,Hagkvæmt er við aðstæður hér á landi að hafa eina opinbera greiningar- og þjónustustöð sem getur í senn þjónað Alþingi, stjórnvöldum og almenningi. Þetta stafar m.a. af því að slík stofnun þarf að sjá um og viðhalda mörgum reiknilíkönum og gagnagrunnum eins og Þjóðhagsstofnun gerir nú. Þessi líkön eru flókin og viðamikil og byggjast að hluta á upplýsingum og gagnavinnslu sem á varla heima í ráðuneyti. Jafnframt þarf auðvitað sérþekkingu og reynslu til að vinna með þau. Þessum málum eru hvorki gerð viðhlítandi skil í frv. né voru þau rædd að gagni við undirbúning þess. Sem dæmi um reiknilíkön sem stofnunin hefur á sínum vegum eru þjóðhagslíkön, sjávarútvegslíkön, loftslagslíkan og skatta- og almannatryggingalíkön. Þar fyrir utan er stofnunin að sjálfsögðu með spálíkan fyrir verðbólgu, en þau er víða annars staðar að finna.

Þessi reiknilíkön eru notuð við spágerð og áætlanagerð í efnahagsmálum en einnig í sérverkefnum af ýmsu tagi. Til marks um slík verkefni má nefna mat á áhrifum EES, ESB og evrunnar, stóriðju, loftslagssamninga, mismunandi nýtingar fiskstofna o.fl. Við má bæta verkefnum á sviði skatta og almannatrygginga. Jafnframt eru þessi líkön oft notuð vegna fyrirspurna frá Alþingi og umsagna um frumvörp. Umræða um þetta efni í frv. er lítil og byggð á veikum grunni.``

Síðan segir, herra forseti:

,,Þjóðhagsstofnun er í samstarfsverkefni við ýmsa erlenda aðila. Um þessi verkefni eru mismunandi samningar og þau tengjast einstökum starfsmönnum með mismunandi hætti. Ekkert er á þessi mál minnst í frv. og engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja eðlilegt framhald slíkra verkefna.

Ég tek undir sjónarmið starfsmanna um að skýra þurfi betur í frv. ákvæði til bráðabirgða, að átt sé við sambærileg störf sem boðin verða, enda er það í samræmi við skipunarbréf samstarfshópsins og umræðu um hann.``

Loks segir Þórður Friðjónsson, með leyfi forseta:

,,Hér ber því allt að sama brunni. Sú tilhögun hagstofnana sem frv. gerir ráð fyrir er ekki til bóta. Ég tel því að þetta mál þurfi að vinna mun betur og ræða ítarlegar og með opnari huga en gert hefur verið.``

Herra forseti. Það er mjög sérstakt að sérálit þessa nefndarmanns í nefndinni sem vann þetta mál og hefur verið forstjóri Þjóðhagsstofnunar um langan tíma skuli ekki hafa fylgt frv. ríkisstjórnarinnar. Það er að finna í nál. frá minni hluta efh.- og viðskn. Það er skráð hér í þingskjöl og er auðvitað nauðsynlegt að halda því til haga hvað maður eins og Þórður Friðjónsson, með alla sína þekkingu, hefur um málið að segja.

[14:15]

Starfsmenn Þjóðhagsstofnunar og Starfsmannafélag Þjóðhagsstofnunar hafa gagnrýnt þessa breytingu mjög og einkum þá hvernig að henni hefur verið staðið og telja að ekki hafi verið staðið við það sem starfsmönnum var lofað. Töluliður 1 í brtt. sem við þremenningarnir flytjum á þskj. 1244 er um að staðið verði við það loforð sem starfsfólkinu var gefið. Það kemur reyndar fram í erindisbréfi sem undirritað er af hæstv. forsrh. þannig að hér er fyrst og fremst verið að leggja til að staðið verði við það sem forsrh. lofaði í erindisbréfi til nefndarinnar frá 11. júní, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Auk þeirra verkefna sem tilgreind eru í fyrrnefndu bréfi forsrn. er samstarfshópnum ætlað að útfæra nánar hvernig starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar verði tryggð sambærileg störf hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnum Þjóðhagsstofnunar.``

Við flytjum eftirfarandi brtt.:

,,1. Við ákvæði til bráðabirgða: Í stað orðanna ,,annað starf`` í 1. málsl. komi: sambærilegt starf.``

Þetta er önnur tveggja brtt. sem við flytjum.

Herra forseti. Það er mjög freistandi að fara ítarlega yfir allar þær umsagnir sem hér hafa verið settar fram um þetta mál. Það eru ekki margir, herra forseti, sem mæla með því að leggja niður Þjóðhagsstofnun. Þvert á móti hafa verið færð fyrir því mjög gild og góð rök að ríkisstjórnin sé á rangri braut á þessari vegferð að leggja niður Þjóðhagsstofnun.

Ég hvet þingmenn til þess að fara ítarlega yfir t.d. umsögn Sambands ísl. bankamanna, að ekki sé talað um álit fulltrúa Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar á þessu máli. Það fólk sem skrifar þetta álit og heldur hér á penna, þ.e. fulltrúar Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar, þekkir mjög vel til þessara mála. Þetta fólk býr yfir mikilli fagþekkingu á þessu sviði og auðvitað hefði verið full ástæða til þess að hlusta á það.

Þeir segja hér alveg blákalt það sem við í stjórnarandstöðunni höfum haldið fram og ætla ég að vitna til umsagnar Starfsmannafélags Þjóðhagsstofnunar þar sem segir:

,,Spágerðin yrði því undir pólitísku forræði og gæti því ekki talist óháð. Þessi breyting felur því í sér að stjórnvöld sjá ekki ástæðu til að reka pólitískt óháða efnahagsstofnun. Eðlilegra hefði verið að auka enn frekar sjálfstæði Þjóðhagsstofnunar.``

Það er einmitt þetta sem við óttumst verulega í stjórnarandstöðunni, þ.e. að spágerðin, sem er nú grundvallaratriði við fjárlagagerðina svo dæmi sé tekið og auðvitað í allri efnahagsumræðu, er með þessari breytingu að flytjast undir pólitískt forræði fjmrn.

Það er líka athyglisvert að Samband ísl. bankamanna vekur hér upp tvö önnur mál, tvö önnur dæmi um fyrirtæki og stofnanir sem hafa verið lagðar niður í nafni hagræðingar af þessari ríkisstjórn. Þar er tekið dæmi af Húsnæðisstofnun. Hana átti að leggja niður í nafni hagræðingar því sú stofnun hefði blásið svo mikið út að nauðsynlegt væri að leggja hana niður og hagræða og spara þar. En niðurstaðan hefur orðið allt önnur. Það er raunverulega viðurkennt t.d. í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um þetta efni sem fór mjög í saumana á þessu máli. Þá kom í ljós að útgjöld Íbúðalánasjóðs uxu verulega eftir að Húsnæðisstofnun í þeirri mynd sem hún var í var lögð niður og breytt í Íbúðalánasjóð. Mig minnir að útgjöldin hafi verið um 400 milljónir, en að þau hafi vaxið um 100 milljónir við að leggja þá stofnun niður. Stjórnvöld skyldu því taka alvarlega þær viðvaranir sem koma frá okkur í stjórnarandstöðunni um að hún sé á rangri braut ef hugmyndin með þessari breytingu er að spara fjármagn.

Ég ætla aðeins að vitna í álit Sambands ísl. bankamanna, með leyfi forseta:

,,Í nafni hagræðingar var Húsnæðisstofnun breytt í Íbúðalánasjóð og verkefni þau er starfsmenn veðdeildar LÍ unnu fyrir Húsnæðisstofnun færð annað. Þetta átti að spara ríkinu peninga. Íbúðalánasjóður samdi við einkaaðila um að hanna og skrifa nýtt tölvukerfi til að halda utan um, reikna út og innheimta þau lán sem fyrirtækið á hjá viðskiptavinum sínum. Allt var þetta unnið í andstöðu við flesta starfsmenn Húsnæðisstofnunar og veðdeildar, en pólitísk ákvörðunin réð för. Og hver er niðurstaðan nú nokkrum árum eftir að þessi pólitíski leikur var leikinn þrátt fyrir varnaðarorð starfsmanna?

Rekstur Íbúðalánasjóðs er mun kostnaðarsamari en gömlu Húsnæðisstofnunar og tugum milljóna var hent í undirbúning og gerð hugbúnaðar, sem nú er búið að kasta þar sem séð varð að hann mundi aldrei uppfylla kröfur sjóðsins.``

Herra forseti. Þetta er ekki falleg lýsing. En hún er sönn eigi að síður og sýnir hvað þessari ríkisstjórn eru mislagðar hendur og hvað mál eru oft vanbúin af hennar hálfu þegar hún leggur niður stofnanir í nafni hagræðingar.

Hér stendur síðan, með leyfi forseta:

,,Tölvukerfið sem veðdeild LÍ hafði í samvinnu við Reiknistofu bankanna hannað og notað er því enn notað, eins og starfsmenn bentu allan tímann á að væri hagkvæmasta lausnin.``

Kerfinu sem átti að henda og var hent og tekið var upp annað hugbúnaðarkerfi sem kostaði tugi milljóna. Það var lagt til hliðar og gamla kerfið var tekið upp að nýju alveg eins og starfsmenn Húsnæðisstofnunar höfðu bent á allan tímann að væri hagkvæmasta lausnin, og það er það sem er notað núna hjá Íbúðalánasjóði. Mikið fjármagn fer út um gluggann við þessa tilburði stjórnarflokkanna að hagræða í ríkisrekstri, eða a.m.k. er það undir því yfirskini, herra forseti, að verið sé að hagræða í ríkisrekstri.

Síðan segir, með leyfi forseta:

Margir starfsmenn misstu störf sín eða hættu sjálfir vegna andstöðu við framkvæmdina. Virðing fyrir mannauð og tilfinningum starfsmanna réð ekki för.``

Herra forseti. Mér sýnist á öllu að því er varðar Þjóðhagsstofnun að að sumu leyti sé þessi saga að endurtaka sig. Að sumu leyti er sagan að endurtaka sig að því er þetta varðar.

Síðan vitnar samband bankamanna í umsögn sinni einnig til þess þegar ráðherra ákvað að flytja starfsemi Byggðastofnunar í andstöðu við starfsmenn. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Þegar þessi ákvörðun var tekin var hún m.a. studd með þeim rökum að húsnæðiskostnaður yrði mun minni á Sauðárkrók en hér í Reykjavík og að það kostaði samkvæmt úttekt ráðgjafarfyrirtækis aðeins 2 milljónir kr. að flytja. Þetta var því framkvæmt í nafni hagræðingar og byggðasjónarmiða. Starfsmenn voru andvígir þessum flutningi á faglegum forsendum en einnig misstu þeir allflestir starf sitt og lífsviðurværi. Þeir gerðu einnig athugasemdir við framlagða kostnaðarreikninga, sem pantaðir voru frá ráðgjöfum.``

Síðan segir í álitinu:

,,Þessi tvö mál eru rifjuð hér upp vegna þess að þessar aðgerðir voru gerðar í nafni hagræðingar og í andstöðu við starfsmenn og allar ráðleggingar þeirra. Hagræðingin varð engin en mistökin mörg og því er það grátlegt að þurfa nú enn einu sinni að lesa það í frumvarpi frá ríkisstjórn að stofnun í eigu ríkisins verði lögð niður í nafni hagræðingar.``

Það sem við staðfestum í stjórnarandstöðunni og kom fram í vinnu nefndarinnar kemur fram líka í áliti Sambands ísl. bankamanna, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn Þjóðhagsstofnunar voru tilbúnir með ýmsar aðrar útfærslur og hugsanlega samvinnu stofnana, en á þeirra sjónarmið var aldrei hlustað eða þau rædd. Það er skammarlegt og í algerri andstöðu við atvinnulýðræði að hunsa vilja starfsmanna og rýrir þann trúnað og traust sem nauðsynlegt er að skapa milli starfsmanna og atvinnurekenda.``

Herra forseti. Af mörgu er að taka í þessu máli þegar leitað er í umsagnirnar vegna þess að þær eru raunverulega á eina lund eins og ég sagði. Menn færa fram rök gegn þessu máli. Það sem vekur líka athygli okkar í stjórnarandstöðunni sem höfum grannt fylgst með þessari umræðu og höfum reynt að andmæla því sem hér er á ferðinni, er að framsóknarmenn virðast ekki láta sjá sig í þessari umræðu. Enginn framsóknarmaður, hvorki við 1. umr., 2. né það sem af er þeirri 3., hefur tekið til máls í þessu máli um að leggja niður Þjóðhagsstofnun, utan hæstv. utanrrh. sem fékk það sérkennilega verkefni að mæla fyrir frv. um að leggja niður Þjóðhagsstofnun í fjarveru hæstv. forsrh. Framsfl. hafði þó látið víða í sér heyra um að þeir væru mótfallnir þessu eftir að hæstv. forsrh. kom fyrst fram með þessa hugmynd í beinni útsendingu. Þess vegna urðu margir mjög hissa á því þegar þetta mál skaut aftur upp kollinum og auðvitað velta margir því fyrir sér hvað eiginlega varð til þess að framsóknarmenn sneru við blaðinu. Við því hafa ekki fengist nein svör, herra forseti. Eitt er víst, að hæstv. utanrrh., sem er eini framsóknarmaðurinn sem hefur staðið hér í ræðustól við að mæla fyrir þessu máli, hefur ekki komið fram, herra forseti, með nein rök sem styðja að skynsamlegt sé, eðlilegt eða faglegt að leggja niður þessa stofnun.

Sérstaka athygli vekur formaður þingflokks framsóknarmanna, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem hafði í eina tíð áhuga á þessu máli og flutti merka tillögu ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Gísla S. Einarssyni um að breyta lögum um Þjóðhagsstofnun, þ.e. að færa hana undir Alþingi. Nú hafa þingmenn Vinstri grænna reyndar tekið upp það mál hér. Það fæst ekki rætt almennilega og ekki tekið almennilega á dagksrá og ekki út úr nefnd sem hefði auðvitað verið eðlilegt. En rök hv. þm., sem núna sést ekki hér í sölum, sést ekki einu sinni bregða fyrir, voru þau sem fram koma í greinargerð með því frv.:

,,Vegna hlutverks stofnunarinnar er talið nauðsynlegt að hún sé að öllu leyti óháð stjórnvöldum.``

En að hverju stendur þingmaðurinn núna? Hann stendur að því að færa þjóðhagsspár inn í fjmrn. En hann flutti eitt sinn tillögu um að Þjóðhagsstofnun yrði enn óháðari stjórnvöldum en hún hafði verið áður með því að flytja hana undir Alþingi. Hv. þm. vildi gera hana enn óháðari en hún þó var. Er hún þó óháðasta efnahagsstofnunin sem við höfum hér á landi. Hann hefur algjörlega skipt um skoðun í þessu máli án þess að telja sig þurfa að færa fyrir því nein rök úr þessum ræðustól, herra forseti.

Í þessari greinargerð stendur:

,,Telja verður óheppilegt og jafnvel óeðlilegt að Þjóðhagsstofnun skuli heyra undir forsætisráðuneytið jafnframt því að stofnunin eigi að fylgjast með efnahagsstefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma og leggja mat á árangurinn.``

Herra forseti. Rökin eru þau að þetta eigi að heyra undir Alþingi vegna þess að stofnunin á að fylgjast með efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og leggja mat á árangurinn. Við höfum einmitt áhyggjur af þessu, þ.e. að verulega muni draga úr öllu aðhaldi þegar óháð stofnun er lögð niður sem hefur haft það verkefni að vera með aðhald og eftirlit í kerfinu, t.d. aðhald með hagstjórnaraðilum eins og Seðlabanka og fjmrn., sem nú eiga að fá þessi verkefni.

Herra forseti. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að vita hvort formaður þingflokks framsóknarmanna sé í húsinu. Mér finnst eiginlega varla hægt að ljúka þessari umræðu án þess að hann segi eitt eða tvö orð um þær skiptu skoðanir sem hann hefur núna allt í einu í þessu máli.

[14:30]

(Forseti (HBl): Forseti mun láta athuga málið. Og upplýsir að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er í húsinu.)

Þá væri gott að fá hann hingað í umræðuna þannig að hann geti leitt fram rök sín í málinu. Fróðlegt væri að vita hvort honum takist það fremur en hæstv. utanrrh. eða hæstv. forsrh. að reiða hér fram einhver rök sem eru skynsamleg fyrir þessari breytingu.

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst, þó að hæstv. forsrh. neiti því, að það eru sérkennileg sjónarmið sem liggja að baki þessari breytingu og ég held að í raun og sanni megi segja að það sé fyrst og fremst vegna þess að forsrh. líkuðu ekki þær spár sem komu frá Þjóðhagsstofnun sem voru ekki í samræmi við það sem hann vildi sjá að því er varðar verðbólguspá og fleira. Og það var minnisstætt þegar Seðlabankinn á árinu 2000 gaf út verðbólguspá, ég held að það hafi verið í desember árið 2000, upp á tæp 6% sem hæstv. forsrh. var óánægður með og taldi háa. Í mars 2001 gaf Þjóðhagsstofnun út Þjóðhagsbúskapinn og þar gagnrýndi Þjóðhagsstofnun efnahagsstjórnina á árunum 1999 og 2000, þ.e. að ekki hafi verið gripið til aðhalds eftir kosningarnar 1999. Þetta fór fyrir brjóstið á hæstv. forsrh. þó að allir hagfræðingar landsins hefðu tekið undir þá gagnrýni.

Í þjóðhagsspánni kom fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Gífurleg útlánaaukning, slaki í hagstjórn, einkum 1998 og 1999, og almennar launahækkanir umfram launabreytingar í helstu viðskiptalöndum hafa viðhaldið uppgangi og eftirspurn í efnahagslífinu. Þegar litið er um öxl er ljóst að aðhaldsstig efnahagsstefnunnar var ófullnægjandi á árunum 1998 og 1999 og þar er því að finna rætur eftirspurnarþenslunnar.``

Þetta fór mjög fyrir brjóstið á hæstv. forsrh. og það var einmitt í kjölfar þess, ef ég man rétt, sem hann kom með sína frægu yfirlýsingu í beinni útsendingu í sjónvarpi sem ég veit ekki til þess að hann hafi áður ráðfært sig við framsóknarmenn um, sem réttilega voru mjög á móti því fyrir ári að fara þá leið en hafa nú skipt um skoðun.

Ég þakka fyrir að hv. formaður þingflokks framsóknarmanna er kominn hér í salinn. Hann gæti kannski reitt fram rök fyrir þeim sinnaskiptum sem hafa orðið hjá framsóknarmönnum í málinu.

Ég var einmitt, herra forseti, að rifja upp ágætt frv. sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, nú formaður þingflokks framsóknarmanna, flutti 1997--1998, en þá var hv. þm. í Alþb. (SJS: Hann var í miklu betri félagsskap þar.) Var í miklu betri félagsskap, segir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og það má vel vera að það sé félagsskapurinn meðal framsóknarmanna sem hafi haft þessi áhrif á hv. þm. En ég vil rifja upp fyrir þingmanninum þau rök sem hann setur fram í sínu ágæta frv. og spyrja hann í framhaldi af því einnar spurningar.

Hv. þm. segir, með leyfi forseta:

,,Telja verður óheppilegt og jafnvel óeðlilegt að Þjóðhagsstofnun skuli heyra undir forsætisráðuneytið jafnframt því að stofnunin eigi að fylgjast með efnahagsstefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma og leggja mat á árangurinn.``

Hv. þm. telur það óeðlilegt, jafnvel þó að Þjóðhagsstofnun sé nú kannski óháðasta stofnunin í þjóðfélaginu, að hún heyri undir forsrn. og vill að Þjóðhagsstofnun heyri beint undir þingið vegna þess að það sé hlutverk hennar að fylgjast með efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og leggja mat á árangurinn.

Þetta er mjög rökrétt hjá hv. þm. Þetta er mjög rökrétt og skynsamlega sett fram af hv. þm. En nú finnst mér hann ganga í þveröfuga átt vegna þess að nú á efnahagsspáin og þjóðhagsspá, útreikningar á verðbólgu o.fl. og þjóðhagslíkön að flytjast inn í fjmrn. Og ekki er hægt að sjá annað en að verið sé að setja þetta allt undir einhvers konar pólitískt forræði eins og fram kom hjá Starfsmannafélagi Þjóðhagsstofnunar.

Þess vegna er spurning mín til hv. þm. --- hann á nú sæti í efh.- og viðskn. þingsins og fylgdist þar væntanlega með umræðum --- í fyrsta lagi: Hvers vegna hefur hv. þm. skipt um skoðun frá 1997--1998 þegar skoðun hans var sú að Þjóðhagsstofnun ætti jafnvel að vera enn óháðari en hún er og flytjast undir þingið?

Hver telur þingmaðurinn að verði sparnaðurinn í því að leggja niður Þjóðhagsstofnun? Þegar hefur komið fram í áliti fjmrn. að a.m.k. tímabundinn kostnaður verði 50 milljónum meiri en kostar nú að reka Þjóðhagsstofnun og þá er ótalinn kostnaðurinn sem verður vafalaust og við munum kannski sjá þegar við næstu fjárlagagerð því að einstök ráðuneyti munu kalla eftir meiri mannskap þegar þau fá aukin verkefni við þessa breytingu. Og síðan liggja fyrir loforð um að styðja a.m.k. hagdeild ASÍ sem ekki er reiknað með í þeim kostnaði. Hvernig sér hv. þm. fyrir sér hagræðinguna í þessu?

Síðan er þá þriðja spurningin til hv. þm., hvort hann með vísan til fyrri skoðunar sinnar í þessu máli sem birtist í frv. 1997--1998 gæti ekki hugsað sér að styðja þá brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Ögmundi Jónassyni þess efnis að stofna eigi sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis sem taki til starfa 1. jan. 2003. Eigum við ekki að segja að þetta sé í dúr við það sem hv. þm. var að hugsa á árinu 1997--1998 þó að ekki sé kannski hægt að líkja því saman að stofna sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis eða að Þjóðhagsstofnun, með sama hætti eins og Ríkisendurskoðun, heyri undir Alþingi?

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég vil þó leyfa mér að bæta við, af því að það er svo oft vitnað til þess, bæði af hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. að svo miklar breytingar hafi orðið, það séu svo margir aðilar farnir að stunda hér spágerð, eins og greiningardeildir banka, samtök aðila vinnumarkaðarins o.s.frv. og það er m.a. tínt fram sem rök fyrir því að leggja Þjóðhagsstofnun niður, að þá kemur einmitt fram í umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja að þar er ekki fallist á það að greiningardeildir bankanna geti með einhverjum hætti komið í staðinn fyrir Þjóðhagsstofnun. Eðlilega ekki.

Og þar segir, með leyfi forseta:

,,Í greinargerð frumvarps er því teflt fram sem einu af rökum fyrir breyttu fyrirkomulagi að greiningardeildir fjármálafyrirtækja sinni sambærilegri starfsemi og gefi margar út mánaðarlegar skýrslur um efnahagsmál. Rétt er að ítreka að þær skýrslur hafa m.a. byggst á fyrirliggjandi úttektum Þjóðhagsstofnunar, en greiningardeildirnar bæði meta forsendur að baki þeim tölum og nýta þær síðan í að greina áhrif á hlutabréfa- og skuldabréfamarkað í landinu. Greiningardeildirnar hafa hins vegar ekki spáð fyrir um helstu þjóðhagsstærðir á sama hátt og Þjóðhagsstofnun, enda hafa þær ekki byggt upp þjóðhagslíkön né haft heimildir til að innkalla upplýsingar og gögn með sama hætti og Þjóðhagsstofnun.``

Í þeirri skoðun sem ég var að lýsa og kemur fram í umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja kemur glöggt fram að greiningardeildir fjármálafyrirtækja vinna með allt öðrum hætti að slíkum verkefnum en Þjóðhagsstofnun og greiningardeildirnar byggja á þeim skýrslum sem koma fram frá Þjóðhagsstofnun um efnahagsmál. Þetta vildi ég setja fram af því að rökin eru tínd til, herra forseti, þar sem þeir aðilar sem fyrir þessu máli standa hér á þingi tefla fram að ýmsar greiningardeildir á fjármálasviðinu sem vinna að efnahagsspám séu rökin fyrir því að hægt sé að leggja niður Þjóðahgsstofnun.

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að fyrir því að leggja niður Þjóðahagsstofnun var einungis að finna það sem fram kom í máli hæstv. forsrh. þegar hann í beinni útsendingu raunverulega lagði niður Þjóðhagsstofnun og framsóknarmenn og aðrir sem hafa verið mótfallnir þessu hafa verið knúnir til samstarfs við hæstv. forsrh. til að ná fram sínu máli. Það er það eina sem hægt er að finna sem ,,af hverju`` þegar maður leitar skýringa á því hvers vegna er verið að leggja niður þessa mikilvægu stofnun. Hagfræðileg rök eru ekki til, fagleg rök eru heldur ekki til, herra forseti, og ekki heldur kostnaðarleg rök vegna þess að það verður miklu dýrara að flytja verkefni stofnunarinnar annað, eins og á að gera, en að reka hana áfram.

Ég ítreka að með sama hætti og starfsmenn Þjóðhagsstofnunar hafa sagt og aðrir aðilar teljum við rétt, herra forseti, að fara í endurskoðun og endurskipulagningu á þeim verkefnum sem falla með einum eða öðrum hætti undir hinar ýsmu efnahagsstofnanir, en ég held að ríkisstjórnin hafi valið óskynsamlegustu og dýrustu leiðina að því marki.