Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 14:44:39 (8305)

2002-04-27 14:44:39# 127. lþ. 131.3 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað heyrt á máli hv. þm. en hann sé sammála okkur í stjórnarandstöðunni. Við höfum talað fyrir því að vel megi skoða þessa hluti og endurskipuleggja þá. En við teljum að niðurstaðan sem stjórnarflokkarnir komust að sé röng.

Ég spurði hv. þm. hvað hefði breyst frá því að hann flutti frv. Er hann sammála því að skynsamlegt sé að flytja spágerðina og þjóðhagsspána núna inn í fjmrn. miðað við þá skoðun sem fram kemur í greinargerð hans um þetta mál þegar hann vildi flytja stofnunina undir Alþingi? Er ekki hætta á að þjóðhagsspáin og spágerðin lúti pólitísku forræði þegar þetta er komið til fjmrn.? Er eðlilegt að gera þetta með þeim hætti? Og hefur hv. þm. séð einhvern sparnað í því, svo maður reyni að tína til þau rök ef vera kynni að einhver sparnaður væri í þessu, að gera þá breytingu að leggja niður Þjóðhagsstofnun og flytja verkefnin annað? Ég held að mjög miklvægt sé að fá það fram.

Hv. þm. svarði ekki þeirri spurningu heldur sem ég lagði fyrir hann sem lýtur að þeirri brtt. sem flutt er á sérstöku þingskjali, að um leið og Þjóðhagsstofnun er lögð niður verði stofnað sérstakt hagsvið við skrifstofu Alþingis, hvort hann geti tekið undir þau sjónarmið sem þar koma fram, að það sé eðlilegt þegar verið er að veikja mjög stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu með þessari breytingu að þingmenn njóti þó einhvers konar aðstoðar, hagfræðilegrar aðstoðar á nefndasviðinu. Ég spyr hv. þm. líka hvort hann geti ekki stutt þessa brtt. Mér finnst þingmaðurinn alls ekki færa fullnægjandi rök fyrir þeim sinnaskiptum sem hafa orðið á tiltölulega stuttum tíma að því er varðar það að flytja Þjóðhagsstofnunina undir aðila eins og Alþingi á þeirri forsendu að Þjóðhagsstofnun ætti að geta fylgst með efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og lagt mat á árangurinn.