Þjóðhagsstofnun o.fl.

Laugardaginn 27. apríl 2002, kl. 14:46:52 (8306)

2002-04-27 14:46:52# 127. lþ. 131.3 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. var auðvitað aðalatriðið í því frv. sem þingmaðurinn gat um og flutt var hér 1997--1998 að tryggja að sú stofnun sem safnaði upplýsingum um efnahagsmál, lagði mat á þær og setti fram spá um líklega þróun í framtíðinni væri sjálfstæð í störfum sínum. Aðalatriði málsins var að tryggja sjálfstæði þeirra sem legðu mat á þessar upplýsingar. Þess vegna var lagt til að færa stofnunina undir Alþingi.

Frá þeim tíma hafa orðið breytingar sem gera það að verkum að það er hægt að hugsa sér breytingar frá því sem þá var. Fleiri aðilar leggja núna mat á framvindu efnahagsmála og eru algjörlega óháðir ríkisstjórninni eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanns, m.a. í bankakerfinu, og þeir aðilar eiga aðgang að þessum tölfræðilegu upplýsingum sem munu hafa verið hjá Þjóðhagsstofnun og munu verða hjá Hagstofunni þannig að þeir eiga að geta haft nokkuð góðar forsendur til að undirbyggja sína eigin spá. Þessi aukni fjölbreytileiki gerir það auðvitað að verkum að ekki er sama staða uppi. Það er ekki eins horft til álits þessa eina aðila sem þá útbjó spá um framvindu í efnahagsmálum. Það verður að skoða hlutina í því ljósi sem breyst hefur síðan, herra forseti.

Um brtt. hv. þm., um hagsvið eða starfsmenn með hagfræðiþekkingu á Alþingi, vil ég segja að ég tel það vera að mörgu leyti skynsamlega tillögu og ég held að við eigum að skoða það í náinni framtíð, að byggja upp þekkingu innan Alþingis á þessu sviði.