Ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 10:23:35 (8325)

2002-04-29 10:23:35# 127. lþ. 132.95 fundur 557#B ummæli þingflokksformanna stjórnarflokkanna# (aths. um störf þingsins), SJS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[10:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mótmæli ummælum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Það kann vel að vera og má mín vegna vera svo að hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni finnist að ég kunni ekki að skammast mín. En eitt get ég fullvissað hann um að ég mun ekki fara í læri hjá honum til að læra þá list. Ég mundi leita annað til að fá mér fræðslu í þeim efnum ef út í það væri farið. Ég held að ég hafi ekki heyrt ómerkilegri, ómaklegri né vitlausari málflutning hjá formönnum stjórna þingflokka í annan tíma heldur en hjá þeim hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og Sigríði A. Þórðardóttur. Miðað við allar aðstæður mála hér liggur það gjörsamlega í augum uppi að þessir hv. þm. ættu frekar að taka í hnakkadrambið á ráðherrum sínum og skamma þá fyrir framgöngu þeirra gagnvart þinginu. 9. apríl kemur inn í þingið beiðni ríkisstjórnarinnar um heimild fyrir 20 þúsund milljón króna ríkisábyrgð handa einu fyrirtæki. Svo kemur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og telur að mál séu einstaklega vandlega unnin eins og í þessu tilviki. Nei, herra forseti, þetta er að kunna ekki að skammast sín fyrir sig og sína.