Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 16:45:00 (8395)

2002-04-29 16:45:00# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[16:45]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef einmitt fylgst með þessari umræðu og ég verð að viðurkenna að þess vegna spyr ég. Hv. þm. nefndi það sérstaklega að stefnumörkun þeirra hjá flokknum væri sú að stoðkerfið ætti að vera í eigu opinberra aðila. Væntanlega tilheyrir þessi verksmiðja ekki stoðkerfinu. En hv. þm. sagði líka að þeir væru ekki á móti því að selja verksmiðjur. Nú er hér verið að selja verksmiðju, hlut í henni. Mér finnst svolítið skrýtið að hopa þannig í málinu og segja að úr því að þannig fer að sveitarfélagið selur sinn hlut þá eigi ríkið að kaupa. Hverju er bjargað með því? Ég átta mig hreinlega ekki á því.

Svo kallaði hér fram í formaður flokksins: ,,Hver er stefna Samfylkingarinnar?`` Það liggur fyrir. Hún vill að sveitarfélagið og forráðamenn sveitarfélagsins fái að ráða sínum málum, sveitarfélag sem situr uppi með skuldir vegna þess að það hefur fjárfest í atvinnulífinu og vill losa sig við þá eignarhluti. Hvers vegna í ósköpunum á að bregða fæti fyrir það? Ég átta mig bara alls ekki á því. Mér finnst ástæða til þess að það sé útskýrt betur fyrir mönnum ef þannig á að bregða fæti fyrir fyrirætlanir þeirra sem rétt eru til þess kjörnir að stjórna einu sveitarfélagi. (Gripið fram í: Þetta er útúrsnúningur.)

Ég tel að full ástæða sé til þess að hlusta gaumgæfilega á það sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs eru hér að segja. En mér finnst að töluvert vanti á til að a.m.k. ég átti mig alveg á hver stefnan sé, því svo virðist vera að ríkið, ja, sveitarfélagið númer eitt og síðan þá ríkið í öðru falli eigi að eignast þessa verksmiðju til þess að reka framleiðslu á einangrunarefnum. Það er alla vega ekki stefna Samfylkingarinnar. Það get ég upplýst í þessari umræðu.