Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 17:53:50 (8402)

2002-04-29 17:53:50# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[17:53]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Margt má segja um þessa miklu ræðu þar sem hv. þm. fór út um víðan völl. Ég vil fyrst svara því sem fram kom hjá honum í upphafi máls hans, að menn væru að blanda saman frv. sem fjallar um sölu á hlut ríkisins í Steinullarverksmiðjunni og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og eignarhaldi þess á hlutabréfum í fyrirtækinu.

Ég vitna í nál. minni hluta iðnn. sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson skrifar og leggur fyrir Alþingi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn er andvígur sölu ríkisins á eignarhlut sínum í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki við núverandi aðstæður og telur slíka ráðstöfun ekki líklega til að leysa fjárhagsvanda sveitarfélagsins.``

Hv. þm. blandar í sömu setningu saman því að ríkið selji hlut sinn og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Í öðru lagi segir líka í þessu nál., með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn vill að allra leiða verði leitað til þess að leysa tímabundinn fjárhagsvanda Sveitarfélagsins Skagafjarðar, annarra en að selja drjúgan hluta bestu mjólkurkýrinnar á þeim bæ.``

Það kemur mjög skýrt fram í nál. minni hlutans að þessi mál eru samtvinnuð. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði nú átt að spara sér hótfyndnina og athugasemdirnar í garð okkar annarra þingmanna um þetta efni.

Í öðru lagi skín mjög glögglega í gegnum ræðu hv. þm. vantraust hans á öðrum en hinu opinbera til að eiga og reka fyrirtæki. Í áliti minni hlutans, hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, kemur hins vegar fram það stöðumat að Steinullarverksmiðjan hafi reynst mikill happafengur, hún hafi skilað drjúgum arði, fjárhagurinn sé góður, litlar skuldir og ekkert bendi til annars en að reksturinn geti áfram gengið vel. Þetta er mat minni hlutans á stöðu fyrirtækisins.

Svo kemur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að nýir kaupendur hafi ekkert annað markmið en að slátra fyrirtækinu.