Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 18:02:57 (8406)

2002-04-29 18:02:57# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[18:02]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er dálítið undrandi á því hvaða tökum hv. þm. tekur þetta mál og hefur það allt á hornum sér. Hér er framfaramál á ferð. Hér er verið að leysa úr læðingi fjármuni sem ríkið hefur bundið í þessu fyrirtæki og sem ekki þarf lengur að binda vegna þess að einkaaðilar eru tilbúnir að kaupa þennan hlut og þar af leiðandi er hægt að nota peningana í annað.

Samkomulag er um það milli stjórnarflokkanna að helmingur af andvirði verksmiðjunnar renni til uppbyggingar á svæðinu samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar og helmingurinn renni til þess sem lagði féð fram í upphafi, þ.e. ríkissjóðs. Hvað er athugavert við þetta? Þetta er mjög eðlileg ráðstöfun, sjálfsögð og eðlileg, og ég heyri ekki betur en að þrír flokkar á Alþingi, eða fjórir jafnvel, styðji þá ráðstöfun.

Þingmaðurinn spurði: Hver hefur veitt iðnrh. fjárveitingavald, hvernig stendur á því að iðnrh. er farinn að veita fé? Auðvitað er ekkert um það að ræða. Það sem stendur í frv. er það sem gildir, þ.e. að ákveðið er að ráðstafa helmingi söluandvirðis samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar, og það á eftir að taka ákvörðun um það í ríkisstjórninni með hvaða hætti það verður nákvæmlega gert. Það gerist þá þannig að í frv. til fjárlaukalaga í haust mun koma tillaga um þá ráðstöfun alveg eins og þar kemur greinargerð um þann tekjuauka sem hlýst af sölu þessa fyrirtækis. Þar með kemur það að sjálfsögðu til kasta Alþingis að taka þá ákvörðun endanlega. Þetta veit hv. þm. auðvitað mætavel.

En ég verð að segja að mér finnst það skammsýni mikil hjá honum að hanga á því að aðrir geti ekki átt þetta en ríkið og sveitarfélagið. Og auðvitað er eingöngu hér verið að tala um hlut ríkisins. Verið er að veita heimild til að selja hlut ríkisins. Þess vegna er það misskilningur sem kemur fram í dagskrártillögu minni hluta iðnn., að vísa eigi málinu frá vegna bágrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Það er annar handleggur á málinu.