Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 18:09:26 (8410)

2002-04-29 18:09:26# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil í seinni ræðu minni um þetta mál fara yfir nokkur önnur þau atriði sem standa út af.

Í fyrsta lagi vil ég víkja að þeim ummælum sem hv. formaður iðnn. viðhafði fyrr í dag þegar hann mælti fyrir nál. meiri hluta, að ekki hefði komið fram nein sú andstaða gagnvart málinu að ástæða hefði verið til að færa það inn í nál. og vísaði þar m.a. til þess að sveitarstjóri eða sá sem er talinn fara með verkefni sveitarstjóra Skagafjarðar kom á fund nefndarinnar og gerði ekki athugasemdir við þau atriði.

Ég vil í upphafi ræðu minnar koma að andsvörum hv. 1. þm. Norðurl. v. í umræðunum í morgun. Ég vék að því í máli mínu að þegar unnið var að því að koma Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki á á sínum tíma var það gert með samstilltu átaki bæði sveitarstjórnarmanna og þingmanna viðkomandi kjördæmis og veitti ekki af að vel væri haldið á málum. Það var gert af mikilli einurð og skilaði þeim árangri að verksmiðjunni var valinn staður á Sauðárkróki en ekki í Þorlákshöfn og hefur hún verið rekin á Sauðárkróki allar götur síðan og var mikill búhnykkur að fá þetta fyrirtæki heim í hérað.

Eðlilega hefur umræðum um fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar verið fléttað hér inn og rætt um hvernig núverandi ríkisstjórn með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar hefur gengið á fjárhag og stöðu sveitarfélaganna með rangri tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga svo að tekjustofnar þeirra standa nú engan veginn undir lögboðnum framlögum, lögboðnum verkefnum hjá mörgum þeirra. Þetta hefur Sveitarfélagið Skagafjörður líka mátt þola eins og hér hefur komið fram.

Það er vissulega erfitt fyrir sveitarfélögin, hvort sem þau eru á Norðurlandi, Vestfjörðum eða á Austurlandi, að standa frammi fyrir erfiðum fjárhag og að sjálfsögðu er sveitarfélögunum nauðugur einn kostur að grípa til ráðstafana ef ríkisvaldið heldur áfram að beita þau þeirri kúgun sem það hefur gert. Að sjálfsögðu standa sveitarfélög frammi fyrir þeim vanda. En ekki er sama hvernig þar er að staðið.

Í haust, eða fyrir jólin við afgreiðslu fjárlaga, fjölluðum við einmitt um fjárhagsvanda Sveitarfélagsins Skagafjarðar og þá var það í umfjöllun um sölu á Rafveitu Sauðárkróks sem var tillaga ríkisstjórnarinnar að gera með þeim hætti að ríkissjóður legði Rarik til fjármagn til þess að leysa til sín Rafveitu Sauðárkróks. Af því tilefni urðu miklar umræður og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lögðum til annan hátt á að leysa fjárhag Sveitarfélagsins Skagafjarðar en að hafa af því eignir. Við lögðum hreinlega til að fjármagni yrði varið til þess að rétta við fjárhag sveitarfélagsins en það fengi að halda mikilvægum eignum sínum.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði áttum líka aðila heima í héraði sem höfðu sömu sjónarmið. Ég minni á bréf frá ungum sjálfstæðismönnum í Skagafirði sem sent var þingmönnum kjördæmisins í umfjöllun um Rafveitu Sauðárkróks. Ég vil sérstaklega minna hv. 1. þm. Norðurl. v. á þetta sem stöðu sinnar vegna hefði getað haft vald og stöðu til þess að hafa áhrif á gang mála innan flokks síns og innan ríkisstjórnarinnar. Sjálfstfl. hefur tvo þingmenn í Norðurl. v. og hv. 1. þm. kjördæmisins, Vilhjálmur Egilsson, gegnir líka lykilhlutverki á Alþingi, er formaður efh.- og viðskn., auk þess að vera formaður Verslunarráðs, en það er hann þó ekki í umboði kjördæmis síns. (Gripið fram í: Framkvæmdastjóri.) Framkvæmdastjóri já, hárrétt athugasemd, framkvæmdastjóri Verslunarráðs.

[18:15]

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hafði ekki merkilegt innlegg fram að færa í umræðunni um hádegisbilið um sölu á hlut ríkisins í Steinullarverksmiðjunni. Hann gat ekki komið inn í þá umræðu efnislega en ég ætla að rifja upp bréf sem barst þingmönnum um Rafveitu Sauðárkróks, sem er grein af sama meiði og hér er á ferðinni. Ríkið er að krefjast eigna sveitarfélaganna upp í rekstrarskuldir þeirra.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa þetta bréf og vona að hv. 1. þm. Norðurl. v. og aðrir þingmenn Sjálfstfl. í því kjördæmi, jafnvel í Norðvesturkjördæminu einnig svo að þeir viti hvaða hug fólk ber til þessara áforma.

Ég hef lesturinn, virðulegi forseti:

,,Hæstvirti þingmaður.

Þann 13. nóvember sl. samþykkti sveitarstjórn Skagafjarðar sölu á Rafveitu Sauðárkróks og er Rarik kaupandinn. Á næstunni mun þetta mál verða tekið fyrir á Alþingi og ákvörðun tekin um hvort veita eigi Rarik lánsheimild til þessara kaupa.

Í upphafi árs hafði sú ákvörðun verið tekin af sveitarstjórn Skagafjarðar að sameina allar veitur sveitarfélagsins ef það reyndist ákjósanlegt, ef ekki, átti að skoða sölu Rafveitunnar. Við sameiningu hefði orðið til öflugt veitufyrirtæki, sem skilað hefði arði um ókomin ár. Niðurstöður nefndar, sem sett var á fót til þess að kanna hvort ásættanleg hagræðing næðist með sameiningu veitnanna, var sú að hægt hefði verið að lækka skuldir sveitarfélagsins um minnst 370 milljónir kr. Auk þess var mögulegt að hið nýja fyrirtæki keypti áhaldahús sveitarfélagsins á allt að 50 milljónir kr. Allir flokkar voru sammála um að þetta væri hagstæðasta leiðin, er bæði gæti lagað slæma stöðu sveitarsjóðs nú og skilað hagnaði til framtíðar.

Þann 7. júlí lagði Framsóknarflokkur óvænt fram tillögu um að fresta sameiningu og skoða til hlítar að selja Rafveituna. Sjálfstæðisflokkur lýsti vonbrigðum sínum yfir þessari tillögu, enda var hún ekki í samræmi við það sem áður hafði verið samþykkt í sveitarstjórn. Sleit þá Framsóknarflokkur meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokk.

Þetta er eitt heitasta mál sem upp hefur komið hér í Skagafirði og biðjum við ykkur að veita því sérstaka athygli. Hvers vegna liggur meiri hluta sveitarstjórnar svo á að selja Rafveituna núna í haust? Því var hagstæðasta leiðin, sem stefnt hafði verið að frá upphafi árs, skyndilega orðin óhagstæð?``

Virðulegi forseti. Þetta bréf frá ungum sjálfstæðismönnum endar á því að þeir skora á þingmenn Alþingis að beita sér gegn því að fjárhagsvandi Skagafjarðar verði leystur með sölu á Rafveitu Sauðárkróks með þeim hætti að ríkið leggi Rarik til fjármagnið til að leysa hana til sín. Þetta var vilji ungra sjálfstæðismanna í Skagafirði sem þeir sendu þingmönnum sínum.

Ég leyfi mér að fullyrða að hefði hv. 1. þm. Norðurl. v., sem reyndar greiddi atkvæði gegn því að þessi leið yrði farin við atkvæðagreiðslu um fjárlögin fyrir jólin, beitt sér af þeim dug sem hann ætti að geta, stöðu sinnar vegna sem 1. þm. kjördæmisins sem og með lykilstöðu innan ríkisstjórnarinnar, hefði a.m.k. orðið meiri umræða um þetta. Þetta hefði þá kannski farið á annan, sveitarfélagið ætti jafnvel sína rafveitu og hefði jafnvel fengið fjárhagsstuðning með öðrum hætti. Það væri að mínu viti nær að hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði grein fyrir því hvernig hann hyggst fylgja eftir óskum umbjóðenda sinna í Skagafirði.

Eins og fram kemur í yfirlitinu sem ég las, þessu bréfi frá ungum sjálfstæðismönnum, slitnaði meiri hluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna á þeim þáttum sem við erum að fjalla um, fyrst um ráðstöfun á rafveitunni og síðan á hvernig ætti að leysa fjárhagsvandann. Hafi hv. 1. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, ekki fengið í hendur erindi sem sjálfstæðismenn í sveitarstjórn Skagafjarðar samþykktu varðandi vinnubrögð við afgreiðslu málsins skal ég hér lesa upp, með leyfi forseta, bókun í byggðaráði 17. apríl:

,,Sjálfstæðismenn í sveitarstjórn Skagafjarðar átelja harðlega vinnubrögð meiri hlutans og sveitarstjóra varðandi fund iðnaðarnefndar Alþingis sem haldinn var mánudaginn 15. apríl. Sveitarfélaginu var boðið að senda fulltrúa sína á þennan fund, en fundarboðið var ekki kynnt sjálfstæðismönnum fyrr en tveimur dögum eftir að fundurinn var haldinn. Í ljósi þess að sala hlutabréfa í Steinullarverksmiðjunni var samþykkt í sveitarstjórn með naumum meiri hluta hljóta þessi vinnubrögð að teljast ámælisverð.`` --- Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn þessu í sveitarstjórn. --- ,,Þannig var sjálfstæðismönnum ekki gefinn kostur á að færa rök fyrir máli sínu gagnvart iðnaðarnefnd.``

Hefði ekki verið nær, virðulegi forseti, fyrir hv. þm. Vilhjálm Egilsson að fylgja eftir þessum málum fyrir umbjóðendur sína við hv. iðnn. þannig að sjónarmið bæði meiri og minni hluta gætu komið fram, hver svo sem árangurinn yrði? Mér er kunnugt um að það er gríðarlega mikil andstaða gegn þessu ráðslagi og ósk um að ríki haldi hlut sínum í Steinullarverksmiðjunni. (LB: Eru íhaldið og Vinstri grænir samstiga í Skagafirði?)

Varðandi þetta mál, af því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kemur að því, er það svo að af þeim ályktunum sem ég er að vitna til virðist svo vera, að sjálfstæðismenn séu þessu andvígir heima í héraði. Það er rétt. (Gripið fram í.) Það hefur ekki komið fram og ég er að kalla eftir því. Ég kalla eftir því hver afstaða þingmanna Sjálfstfl. er. Það er dæmigert að þingmenn Sjálfstfl., sem eru hér að véla um hagsmuni byggðarlagsins, eru ekki einu sinni þátttakendur í umræðunni. Afstaða Framsfl. hefur verið ljós í þessu máli. Þeir vilja selja. Þeir vilja ná eignum af sveitarfélögunum. Hún hefur legið fyrir. (Iðnrh.: Ná eignum af sveitarfélögunum?) Ná eignum af sveitarfélögunum. (LB: Þeir eru nú tilbúnir að semja um allt hitt.) Gætu verið tilbúnir að semja um þetta ef einhver hefði burði til þess að leita eftir samningum. En það virðist ekki hafa verið svo að hv. þm. Sjálfstfl., sem ættu að eiga möguleika á því að ná samningum við Framsókn, hafi beitt sér fyrir því, því miður. Allt hefur þetta þannig verið á sömu bókina lært.

Ég hefði viljað heyra frá hv. þm. Sjálfstfl. í þessu kjördæmi annað en skæting og útúrsnúninga, hvaða skoðun og hvaða vilja þeir hafa í þessu máli. Hvernig vilja þeir svara óskum og kröfum kjósenda sinna, umbjóðenda heima í Skagafirði í þessu máli? (LB: Þeir flýja bara?) Já, þeir flýja.

Það er mjög sérstakt að í nál. meiri hlutans um steinullarverksmiðju er hv. varaformaður nefndarinnar ekki á þeim nafnalista sem afgreiddi málið úr nefnd, hv. þm. Guðjón Guðmundsson. Fróðlegt væri að heyra sjónarmið hans hvað þetta mál viðvíkur.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð á ekki aðild að núverandi sveitarstjórn en hefur engu að síður ályktað um þetta mál. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vitna til ályktunar frá fundi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem haldinn var 2. mars 2002 á Sauðárkróki:

,,Sölu Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki mótmælt.

Fundur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í Sveitarfélaginu Skagafirði mótmælir harðlega fyrirhugaðri sölu sveitarfélagsins á hlut sínum í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Jafnframt mótmælir fundurinn þeirri stefnu stjórnvalda að halda sveitarfélögum í landinu í þeirri úlfakreppu að þau telji sig knúin til að selja dýrmætar eignir sínar til að standa undir skuldbindingum sem þau hafa stofnað til. Það var mikið átak á sínum tíma hjá Skagfirðingum að koma verksmiðjunni upp á Sauðárkróki. Auk þess að vera eitt mikilvægasta atvinnufyrirtæki héraðsins hefur hún skilað sveitarfélaginu miklum arði. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð telur að skoða eigi aðrar leiðir til að auka tekjur sveitarfélagsins af Steinullarverksmiðjunni enn frekar, leiðir sem einnig tryggi framtíð hennar í Skagafirði. Með sölu nú setur sveitarfélagið framtíð verksmiðjunnar á Sauðárkróki í óvissu. Svo stuttu fyrir kosningar er eðlilegra að láta nýrri sveitarstjórn það hlutverk eftir að taka stærri ákvarðanir um endurskipulagningu á eignum og fjárreiðum sveitarfélagsins.``

Virðulegi forseti. Þetta er samþykkt frá fundi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í Sveitarfélaginu Skagafirði sem fjallar um þá ákvörðun meiri hluta sveitarstjórnarinnar í Skagafirði að selja hlut þess. En við hér á Alþingi erum að fjalla um sölu á hlut ríkisins. (Gripið fram í: Þá er íhaldið komið í salinn.) (Fjmrh.: Það er langt síðan.) Jú, hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde er hér mættur og er það vel.

Næst væri kannski rétt að víkja aðeins að vinnubrögðunum, meðferðinni hér á þingi og í hv. fjárln. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti hvaða reglum ber að fylgja við ráðstöfun á eigum ríkisins. Í þeirri reglugerð segir m.a. í 5. gr. ... (KHG: Var það ekki nógu vel gert af Steingrími?) Hæstv. fjmrh. svaraði ekki nógu vel. Ég held líka, virðulegi forseti, að hv. formaður þingflokks Framsfl. hefði átt að athuga hjá hv. formanni iðnn. hvort hann hafi kynnt sér hvernig ætti að vinna að þessu máli svo löglegt gæti talist, sem ég dreg stórlega í efa, enda gat hv. þm. Hjálmar Árnason ekki svarað því í morgun þegar var spurt um það.

Við sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum ákveða fjmrh. og viðkomandi fagráðherrar hvernig fara skuli með söluna. En þegar eignarhluti ríkisins í fyrirtæki er boðinn til kaups skal eftirfarandi atriðum fullnægt: Í fyrsta lagi skal áætlað söluverð eignarhlutans skal metið af hlutlausum aðila, t.d. löggiltum verðbréfasala eða endurskoðanda.

Virðulegi forseti. Hvorki hæstv. fjmrh. né hæstv. iðnrh. hafa svarað því hver stóð að þessu mati. Hver stóð að því að meta þessa hluta til fjár? Hv. formaður iðnn. hafði ekki hugmynd um það og ekki hafa heldur komið fram svör, hvorki frá hæstv. fjmrh. né hæstv. iðnrh., um hvernig staðið var að þessu mati og við hvaða lög var stuðst þegar það fór fram.

Í öðru lagi segja þær reglur sem fylgja ber að eignarhluti skuli auglýstur opinberlega almenningi til kaups þannig að öllum sem áhuga hafa á sé kleift að gera tilboð.

Vel að merkja. Hvað ætli séu margir eigendur að Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki? Ætli hæstv. iðnrh. hafi einhverja hugmynd um það? Ég get upplýst það. Eigendurnir eru nálægt 290. Engum þeirra mörgu sem þar eru var gefinn kostur á að kaupa hlut. Hlutnum skyldi ráðstafað til örfárra aðila. Greinin sem ég var að vísa í, um að eignarhlutir skuli auglýstir opinberlega almenningi til kaups þannig að allir sem áhuga hafa á geti gert tilboð, er ein af þeim reglum sem ber að fylgja. Það þarf ríka ástæðu til þess að víkja frá þeim reglum. Slíkar ástæður hafa ekki komið fram.

[18:30]

Af því að hv. þm. Jóhann Ársælsson var að velta fyrir sér forsendum fyrir sölu á hlut ríkisins í þessu fyrirtæki og hvernig með skuli farið leyfi ég mér að minnast umræðu á Alþingi um ráðstöfun á ríkiseignum og þar sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar gagnrýndu þau vinnubrögð að ríkiseignir væru afhentar yfir borðið án þess að nokkurt formlegt verðmat færi fram né heldur að kannað sé hvort hærra verð fáist. Hv. þm. hafa gagnrýnt það hér og með réttu. Þess vegna er mjög furðulegt að nú þykir allt í lagi, eins og kom fram í andsvörum hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að víkja frá þessum reglum. Mér er spurn: Hvernig ætlar hv. þm. að skýra það? Af hverju eiga ekki þessar reglur að gilda jafnt fyrir alla?

Virðulegi forseti. Hv. formaður iðnn. svaraði því heldur ekki hvers vegna fulltrúar starfsmanna hefðu ekki verið kallaðir fyrir nefndina svo að þeir fengju tækifæri til þess að lýsa skoðun sinni á málinu. Mér er ekki kunnugt um að málið hafi verið einu sinni kynnt þeim formlega með nokkrum hætti. Ég hef áður minnst á hlut Samkeppnisstofnunar. Samkvæmt frv. er gerður sá fyrirvari um að þessi sala nái fram að ganga að Samkeppnisstofnun samþykki hana og við erum þá hér að samþykkja frv. með fyrirvara um samþykki Samkeppnisstofnunar. Hefði ekki verið ráð að gera þetta öðruvísi, að Samkeppnisstofnun kæmi fyrst og fjallaði um þau efnislegu skilyrði sem hún mundi setja áður en við samþykkjum þetta frá Alþingi, a.m.k. áður en hæstv. iðnrh. fer að dreifa peningunum? Hvað ef ekkert verður af þessari sölu? Hæstv. iðnrh. kom inn á það áðan að frv. fjallar um heimild til að selja. Að vísu er búið að kveða á um í frv. og greinargerð með frv. hvernig sú sala skuli fara fram og hvernig hlutirnir skuli verðmetnir. Það er allt saman á hreinu. Engu að síður er þetta heimild. En samt er hæstv. iðnrh. farin að dreifa peningunum.

Ég tel að ráðstöfun á fjármagni, sérstaklega á fjármagni þar sem björninn er enn úti í skógi sé alveg fádæma aðgerð. Lögum samkvæmt eiga fjárln. og Alþingi að afgreiða fjárlög eða ákveða hvernig fjármunum ríkisins er varið.

Hæstv. fjmrh. sagði hér: ,,Svo flytjum við bara fjáraukalög í haust og þá verður þetta endanlega staðfest.`` Já, það er alveg hárrétt hjá hæstv. fjmrh. að heimild á fjárlögum þarf til að selja hluti ríkisins. Þó að sérlög gildi um einstök verkefni þarf heimild á fjárlögum ríkisins. (Fjmrh.: Það er ekki rétt.) Það er samt svo að það þarf heimild og það þarf að samþykkjast á fjárlögum. Allar fjárráðstafanir verða að samþykkjast á fjárlögum annars fá þær ekki endanlegt gildi. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. fjmrh. viti það.

Það er svo aftur annað mál hvort hæstv. fjmrh. telji sig hafa þingmeirihluta til að gera hitt og þetta utan þings. En ég trúi því ekki að hæstv. fjmrh. ætli að halda því fram í raun að ekki þurfi að afgreiða fjárveitingar á vegum ríkisins á fjárlögum. (Fjmrh.: Það er allt annað mál en lagaheimild til að selja.) En engu að síður, virðulegi forseti, er það svo að gjörningurinn verður ekki löglegur fyrr. (Fjmrh.: Þetta er bara bull. Það er ráðstöfun fjárins sem þú ert að tala um.) Ég er að tala um ráðstöfun fjárins, já. En það þarf líka heimild til sölu. (Gripið fram í.) Ég veit það. Það er verið að setja lög um það. En í sömu lagagrein, virðulegi forseti, stendur hvernig eigi að ráðstafa fénu. (Gripið fram í.) Jæja? Við skulum athuga það, virðulegi forseti.

Í 1. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra er heimilt að selja eignarhlut íslenska ríkisins í Steinullarverksmiðjunni.

Helmingur söluandvirðisins skal renna til samgöngubóta eða annarra verkefna í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi steinullarverksmiðjunnar, samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.``

Þetta stendur í 1. gr. frv., virðulegi forseti. Þarna eru menn samtímis að sækja heimild fyrir sölu og líka heimild til þess að ákveða ráðstöfun fjárins.

Ég er hérna líka með tilvitnanir í hæstv. iðnrh. í fjölmiðlum. Ríkisútvarpið fjallaði um sölu hlutabréfa ríkisins í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki.

Þar sagði, með leyfi forseta:

,,Eins og kom fram í fréttum í gær leggur Valgerður Sverrisdóttir, iðn.- og viðskrh., til að um 100 millj. kr. verði varið til atvinnuuppbyggingar í Skagafirði í kjölfar sölu á hlutbréfum ríkissjóðs í Steinullarverksmiðjunni. Rætt hefur verið um Þverárfjallsveg í þessu sambandi og velta menn því fyrir sér hve stór hluti af fjármagninu eigi að fara í það.``

Virðulegi forseti. Þurfum við að lesa meir til að sjá að það er verið að ráðstafa fé ríkissjóðs? Þetta vinnulag gengur þvert á þau lög sem við eigum að starfa eftir, lög um fjárreiður ríkisins. Eigum við að horfa upp á það hér að ríkisstjórnin taki sér hverja heimildina á fætur annarri fram hjá Alþingi? Upp á það er okkur boðið, enda hefur einhver nefnt að þetta sé ráðstjórnarríkisstjórn en ekki þingbundin ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Við skulum aðeins líta frekar á vinnulagið. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. komi hér á eftir og geri grein fyrir því hvað hæstv. ráðherrar hafa að segja um það vinnulag sem hér hefur verið viðhaft hvað lög og reglur varðar. Það er nefnilega svo, herra forseti, að einhver mun hafa verið fenginn til þess að gera eitthvert verðmat (Gripið fram í.) sem ríkið hefur síðan stuðst við. Um það má efast hvort það sé í samræmi við þau lög sem ríkinu ber að starfa eftir.

Ég minntist á það áðan og það kom fram í máli hv. formanns iðnn. að fyrir iðnn. kom sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar til þess að gera grein fyrir málinu. Hæstv. forsrh. sagði í sjónvarpsviðtali um sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar að hann væri einn dýrasti opinber starfsmaður á landinu. Þá var verið að ræða um kjör forstjóra Landssímans. En þá er nefnilega svo, virðulegi forseti, að þarna er líkt á komið. Alveg eins og Landssíminn gerði samning við alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið PriceWaterhouseCooper um að lána þeim, selja þeim eða leigja forstjóra Landssímans er það svo með sveitarfélagið Skagafjörð að það hefur líka gert samning við fyrirtækið PriceWaterhouseCooper um að annast sveitarstjórn í Skagafirði. Sá sem nú er sveitarstjóri er þá sendur frá því. Þetta er útseld vinna frá fyrirtækinu þannig að viðkomandi sveitarstjóri er ekki persónulega ráðinn sem slíkur heldur er það fyrirtækið PriceWaterhouseCooper sem tekur að sér þessi verkefni, það að ég best veit. Eftir því sem ég best veit kostar þessi sveitarstjóri ,,formúur`` eins og hæstv. forsrh. kom inn á í sjónvarpsviðtali, sjálfsagt einhvers staðar á milli 1.500--1.600 þúsund á mánuði.

En hvaða fyrirtæki ætli hafi líka gert þetta verðmætamat eða verið ráðgjafi í þessu máli? Hvaða fyrirtæki ætli það hafi verið? Getum við látið okkur detta það í hug? Jú, við getum látið okkur detta það í hug. Sama fyrirtækið og leigir út sveitarstjórann selur líka þjónustuna í sambandi við þetta verðmætamat.

Þetta er sambærilegt við Landssímann. Er þetta trúverðugt? Alla vega uppfyllir þetta ekki þau skilyrði sem ég rakti áðan. Í reglugerð um ráðstöfun eigna ríkisins stendur, með leyfi forseta:

,,Áætlað söluverð eignarhlutans skal metið af hlutlausum aðila, t.d. löggiltum verðbréfasala eða löggiltum endurskoðanda.``

Það skal metið af hlutlausum aðila, t.d. löggiltum verðbréfasala eða endurskoðanda. Var það gert hér? Mér er spurn.

Virðulegi forseti. Mér þætti mjög gott að heyra hvort hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. finnast slík vinnubrögð vera verjanleg af hálfu ríkisins varðandi verðmætamat á þessum eignarhlutum.

Ég vil líka spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson sem hefur blandað sér í umræðuna. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið ötulir við að benda á það sem miður hefur farið við sölu eigna. Við höfum fengið miklar umræður um sölu jarðeigna þar sem mikill vafi leikur á að fylgt hafi verið þeim reglum sem ber að viðhafa við sölu eigna af hálfu ríkisins. Hér er nákvæmlega sami hátturinn hafður á. Hér er afhent yfir borðið.

Herra forseti. Ég get farið að stytta mál mitt. Ég vil enn vísa til þess að þetta fyrirtæki var stofnað á Sauðárkróki fyrir sterkan einhug og atbeina heimafólks, sveitarstjórnarmanna og þingmanna kjördæmisins. Þáverandi sveitarstjóri, Þorsteinn Þorsteinsson, átti þar drjúgan hlut að máli, sérstaklega hvað það varðar hversu vel tókst til. Þess vegna skýtur afar skökku við þegar keyrð er áfram sala á þessu fyrirtæki út úr byggðarlaginu. Þeir eignaraðilar sem stóðu vörð um og veittu þessu fyrirtæki brautargengi eru að láta það af hendi án þess að um það ríki nein sátt. Því fer fjarri. Það ríkir mikil ósátt heima í héraði um þessa ráðstöfun, mikil ósátt, þveröfugt við það þegar verið var að stofna þetta ágæta fyrirtæki. Salan fer þannig fram að ekki er leitað betri kjara. Ekki er kannað hvort heimaaðilar vilji kaupa hlut ríkisins til þess að styrkja stöðu fyrirtækisins þar ef ríkið á að selja hlutinn á annað borð. Það er ekki gert. Hagsmunir sveitarfélagsins, hagsmunir íbúanna eru ekki hafðir að leiðarljósi við afgreiðslu ríkisins á þessu máli.

Herra forseti. Það er dapurlegt þegar við erum að fjalla um ríkisábyrgðir upp á tugi milljarða kr. til erlends stórfyrirtækis sem er með dótturfyrirtæki hér á landi --- en ríkisábyrgðin er veitt til hins erlenda aðila --- að þá skuli ríkið ekki vera stærra í sniðum en svo, sálin ekki stærri en svo, að því þykir muna um að selja þennan hlut sinn í fyrirtækinu Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki og svipta það þar með þeirri kjölfestu sem hefur stutt það áfram í gegnum árin.

Fróðir menn sem þekkja til bókhalds þessa fyrirtækis segja mér að eignastaða þess sé mjög góð og reksturinn góður og meira að segja sé eignarstaðan svo góð, virðulegi forseti, að hinir nýju eignaraðilar gætu þess vegna sótt kaupverðið inn í fyrirtækið sjálft með því að lækka niður hlutafé þess og láta það síðan greiða út og skuldfæra sig. Svo góð er eignarstaða þessa fyrirtækis. Því er dapurlegt, herra forseti, að þetta skuli vera það sem ríkisvaldið hefur að leggja til varðandi þetta ágæta fyrirtæki og atvinnuuppbyggingu úti á landi.

Ég endurtek svo spurningar mínar, herra forseti, til hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. um að þeir svari því hvernig reglum sem ber að fylgja við sölu á ríkiseignum hafi verið fylgt og hvernig staðið hafi verið að verðmætamati á fyrirtækinu. Hvernig hefur verið staðið að því og hvers vegna var ekki öðrum heimaaðilum gefinn kostur á að eignast hluti í fyrirtækinu, þ.e. ef á annað borð ætti að selja það?

Herra forseti. Þessi málsmeðferð er ríkisvaldinu ekki til sóma.