Steinullarverksmiðja

Mánudaginn 29. apríl 2002, kl. 19:15:04 (8412)

2002-04-29 19:15:04# 127. lþ. 132.16 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[19:15]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að hv. þm. hafi hér verið með efnislegar spurningar og að í sjálfu sér ekki nema eðlilegt að þær komi fram.

Í fyrsta lagi tel ég þetta samræmast ágætlega slagorðinu sem við framsóknarmenn höfum tileinkað okkur: Fólk í fyrirrúmi. Um það er að ræða að lýðræðislegur meiri hluti í Sveitarfélaginu Skagafjörður tekur ákvörðun um að selja og ... (GAK: Ekki ríkishlutann.) --- ég ætla að fara yfir það. Okkur ber skylda til þess, sem förum með eign ríkisins í þessu fyrirtæki, að verja hagsmuni ríkisins.

Í þessu ferli var okkur gert ljóst að finnska fyrirtækið vildi selja líka. Raunar höfðum við haft ákveðnar grunsemdir um að fyrirtækið mundi hugsanlega vilja kaupa af ríkinu en svo var ekki, heldur vildi finnska fyrirtækið selja. Við höfðum, árið 1989, gert hluthafasamkomulag sem skiptir miklu máli í þessu sambandi. Við töldum nauðsynlegt, vegna hagsmuna ríkisins fyrst þessi nýja staða var komin upp, að selja hlut ríkisins í tengslum við sölu sveitarfélagsins og sölu Parocs og það var niðurstaðan.

Það er ekki stefna ríkisins að eiga endilega þetta fyrirtæki. Þetta er myndarlegt fyrirtæki sem við vitum að á mikla framtíð og stefna ríkisstjórnarinnar er frekar að selja fyrirtæki en kaupa þau. Þannig samræmdist þetta ágætlega.

Hvað varðar forúrskurð þá kemur það ekki til greina vegna þess að lögin, samkeppnislögin, kveða ekki lengur á um að það sé hægt. Það var því útilokað.

Í sambandi við Orkubú Vestfjarða vil ég halda því til haga að við keyptum það fyrirtæki af sveitarfélögunum á mjög háu verði og það vita Vestfirðingar.