2002-04-30 00:03:06# 127. lþ. 132.21 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[24:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hér til að mæla fyrir brtt. sem ég flyt við þetta mál og gera grein fyrir því að ég er ekki aðili að nál. meiri hlutans. Það háttar reyndar þannig til að sökum annríkis og af ýmsum ástæðum hefur mér ekki unnist tími til að ganga frá sjálfstæðu nál. Það kemur svo sem ekki að sök því að afstaða mín kemur fram í þeirri brtt. sem ég flyt og ég geri því ekki kröfur um að málinu verði frestað þó að svona hátti til, enda í mörg horn að líta í þingstörfunum þessa dagana eins og kunnugt er.

Ég er, herra forseti, mjög ósáttur við frágang þessa máls og alveg sérstaklega það sem snýr að einni málsgrein eða einu efnisatriði þess, þ.e. þær heimildir sem þarna átti og á að taka inn í lög og einnig samkvæmt brtt. meiri hlutans um að greiða stofnstyrki til framkvæmda við grunnskóla sem fjármagnaðir eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd. Er þá enginn greinarmunur á gerður hvort um er að ræða eignarleigu- eða rekstrarleigusamninga. Þetta finnst mér, herra forseti, algerlega fráleitur frágangur málsins, gersamlega fráleitur. Það er ekki bara að menn eigi að gera upp það sem liðið er og þar er auðvitað fyrst og fremst um einn skóla að ræða eins og heimsfrægt er orðið um allt Ísland, Áslandsskóla í Hafnarfirði, heldur er meiningin að ganga frá þessu galopnu varðandi framhaldið. Ég verð að segja alveg eins og er að það eru undur og stórmerki að félmrh. Framsfl. skuli láta þetta yfir sig ganga, skuli flytja svona mál um slíkan grímulausan ríkisstuðning við að einkavæða rekstur grunnskólanna í landinu. Auðvitað er í rauninni verið að ýta undir sveitarfélögin með þeim hætti að fara yfir í einkafjármögnunarleið, einfaldlega vegna þess að þá eiga þeim sveitarfélögum að standa til boða þessir stofnstyrkir upp á 20% af viðmiðunarkostnaði eins þótt þau láti einkaaðila fjármagna og reka skólann og leggi ekkert út fyrir honum. Þetta er auðvitað alveg furðulegur frágangur málsins.

Það sem mér finnst þó bíta höfuðið af skömminni er að ekki skuli a.m.k. gerður einhver greinarmunur á á hvaða grunni þessir samningar eru og skilmálar t.d. um að það sé þá a.m.k. um svokallaða eignarleigusamninga að ræða en ekki rekstrarleigusamninga. Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. félmrh. að forsvara það að greiða sveitarfélagi allt að 20% af viðmiðunarkostnaði ef það gerir rekstrarleigusamning við aðila um að byggja og reka grunnskólann og kemur aldrei til með að eiga hann þannig að inni í greiðslunum á kannski 20--30 ára samningstíma er aldrei stofnvirði húsnæðisins, aldrei, því að sveitarfélagið mun aldrei eiga það? Ég held að það væru alveg rök til þess að gera þarna greinarmun á eignarleigu- og rekstrarleigusamningunum og þar ætti náttúrlega að draga mörkin. Það er alveg kostulegt að sjá hvernig skautað er yfir þetta í grg. frv. Þar er þetta að vísu rætt og aðeins farið yfir það hvaða merkingu menn leggja í þessi hugtök, einkaframkvæmd og hver sé munurinn á eignarleigu- og rekstrarleigusamningum, og það er út af fyrir sig allt fróðlegt. Það sem reyndar segir um lagalega stöðu þessara mála ætti að vera mönnum umhugsunarefni. Hvað segir þar m.a., herra forseti? Þar segir:

,,Ekki er fjallað um einkaframkvæmdasamninga í lögum og engar sérstakar reglur hafa verið settar hérlendis um meðferð þeirra í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga.``

Ég hygg að þetta sé allt rétt enda hnakkrífast menn um hvernig eigi að bókfæra þetta, hvernig eigi að sýna þetta í bókhaldi sveitarfélaganna. Á að taka þetta inn sem skuldbindingar sem koma fram á efnahagsreikningi þeirra o.s.frv.? Skiptir máli hvort formið er á ferðinni, eignarleiga eða rekstrarleiga, og annað þar fram eftir götunum? Með öðrum orðum er enginn lagalegur grunnur sem þetta byggir á. Þetta er í raun og veru ekki heldur í gildandi lögum um skóla í landinu. Þetta er gert á grundvelli einhvers geðþótta úr menntmrn. þar sem ráðherra heimilar mönnum að gera tilraunir á grunnskólabörnum hér og þar í landinu. Til dæmis var ákveðið að grunnskólabörnin í einu hverfi í Hafnarfirði skuli vera sérstök tilraunadýr nýfrjálshyggjunnar næstu áratugina þar sem þetta er praktíserað. Og Framsókn lætur hafa sig í þetta eins og venjulega og meira að segja mætur maður eins og hæstv. félmrh., Páll Pétursson, á sínum gamals aldri pólitískt þó að hann sé enn kornungur maður lætur þessi ósköp yfir sig ganga sem einu sinni var talinn tilheyra félagshyggjuarminum í Framsfl. Það er af sem áður var. Það er þá meiri óskapafélagshyggjan að hæstv. ráðherra skuli standa í þessu.

Það hefur verið litið svo á að einkaframkvæmd væri í raun og veru hver sú framkvæmd þar sem samið væri við einkaaðila um að taka að sér verk en kostnaðurinn væri greiddur af skattborgurunum eða sameiginlegu aflafé ríkis eða sveitarfélaga. Svo kemur að því að til þess að hægt sé að tala um eignarleigusamning, sem er þá sambærilegt fyrirbæri og Hvalfjarðargöngin í raun og veru eru, að af afloknum samningstímanum þó að þau séu að vísu á sérgrunni vegna þess að um það voru sett sérstök lög en í grunninn er það sem gerist að þegar framkvæmdin hefur verið greidd upp og einhverjum tilteknum samningstíma lýkur eða fjármögnunaraðilinn er búinn að fá framreiknaðan kostnað sinn með einhverri hugsanlega umsaminni ávöxtun vegna fjárbindingar á samningstíma gengur mannvirkið til leigutakans, sveitarfélagsins eða í tilviki Hvalfjarðarganganna Vegagerðar ríkisins. Þá er um einhvers konar eignarleiguform að ræða og eigandinn að loknum samningstímanum verður sá sem leiguna greiddi. Þetta skiptir miklu máli, herra forseti, bæði upp á framtíðarsamskipti þessara aðila og líka þegar verið er að reyna að leggja mat á greiðslustöðu sveitarfélagsins, bókhald þess, fjárhag og alla þá hluti.

Sambærilega má segja að ef leigutakinn á rétt á að kaupa mannvirki, t.d. á einhverjum vildarkjörum í lok samningstímans, má jafna því við eignarleigu samkvæmt fyrra forminu þannig að það getur komið út á eitt. Ef um er að ræða eitthvert það fyrirbæri sem er svo forgengilegt að með því megi reikna að um það bil þegar samningstímanum lýkur verði það ónýtt, orðið að engu, er enn hægt að segja að um þetta fyrirkomulag sé að ræða. Ef hins vegar engu þessara skilyrða og reyndar fleiri sem talin eru upp í þessari reifun í frv. er til að dreifa verður að líta á að um rekstrarleigusamning sé að ræða sem ekki er þá venjan að eignfæra í reikningsskilum sveitarfélagsins, og sveitarfélagið leggur þá aldrei út fyrir grundvallarmannvirkinu sem slíku. Það er þá væntanlega ekki reiknað inn í samninginn nema menn séu að semja af sér alveg stórkostlega vegna þess að eigandinn kemur til með að eiga það og virði þess sem það er að samningstímanum loknum og getur þá mögulega haft einhverja aðra ráðstöfun og einhvern annan arð af mannvirkinu, selt það eða gert eitthvað við það. En samt, herra forseti, á að ganga þannig frá málinu hér að í hvoru tilvikinu sem er geti menn sótt um þessa stofnstyrki rétt eins og um væri að ræða framkvæmd sem sveitarfélagið sjálft stæði fyrir með venjubundnum hætti. Þetta, herra forseti, er að mínu mati alveg fráleitur frágangur mála.

Það má líka færa rök fyrir því að fullkomlega réttlætanlegt geti verið að gera þarna greinarmun á og láta þau sveitarfélög sem vilja endilega fara út í þessa einkafjármögnunarleið gera það þá, og þeim séu ljós þau skilyrði sem fyrir eru og að þá geti þau ekki reiknað með því að fá framlag úr þessum potti, þessi 20% frá ríkinu á næstu 3--4 árum eða hvað það er sem þarna á að vera í boði. Þetta á náttúrlega alveg augljóslega við ef um rekstrarleigufyrirkomulag er að ræða. Það má líka benda á að kostnaður við þessa samninga fellur mjög seint til hjá sveitarfélögum, fellur þá til með jöfnum afborgunum á kannski 25--30 árum. Það er kannski lægri fjárhæð með rekstri og öllu saman á fyrstu árunum en þessi 20% sem stofnstyrkurinn er. Á þá sveitarfélagið að fá hann borgaðan út og geta lagt hann inn á bók og haft af honum vaxtatekjur á sama tíma og önnur sveitarfélög í landinu leggja út fyrir skólamannvirkjunum? Það hefur ekkert verið farið yfir þá hluti, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég held að hæstv. félmrh. ætti að útskýra fyrir okkur hvaða vísindi og hvaða speki liggja að baki frv. Hvaðan t.d. í ósköpunum kom sú hugmynd sem frv. byggir á, að eyrnamerkja 65 millj. kr. á ári sérstaklega í einkaframkvæmdum? (Gripið fram í: Einn skóla.) Einn skóla, og bara skammta honum fasta upphæð á ári í 3--4 ár. Það er auðvitað alveg furðulegur frágangur. Meiri hluti nefndarinnar var að lokum þeirrar skoðunar að gera á því breytingar og hafa þetta ekki bundið við tiltekna upphæð heldur fá heimild til að greiða þarna á milli en hvor leiðin sem valin er er að mínu mínu mati fullkomlega óeðlileg í þessu tilviki, svona útfærð.

Hver eru einu rökin sem koma fram í frv.? Þau eru að þó að skólarnir séu byggðir í einkaframkvæmd leysi það vandann vegna einsetningar grunnskólans. Punktur. Þau þurfa ekki flóknari röksemdafærslu en þá. Er þá ekki í raun og veru alveg sama hvernig menn leysa vanda sveitarfélaganna, bara alveg sama hvernig það er gert þó að menn kenni í tjöldum, eða hvað? Þetta er alveg furðulegur framsetningarmáti, herra forseti.

[24:15]

Fengi sveitarfélag sem væri svo heppið að bara einhver tæki að sér að sjá um skólann fyrir það gratís, líka stofnstyrk? Það mundi leysa vandann, er það ekki? Það mundi leysa vandann. Ef það er fullnægjandi röksemd þá er orðið býsna gaman að lifa. Svo segir bara að af sömu ástæðu, vegna þess að þetta leysi vandann, að ekki sé talin ástæða til að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða eignarleigu- eða rekstrarleigusamning. Þetta er nú öll röksemdafærslan, herra forseti, sem þarna fer fram. Menn eru að brjóta í blað. Menn eru að setja lög sem auðvitað hafa fordæmisgildi og geta átt eftir að marka brautina dálítið í þessum efnum, galopna hér allt og í raun hvetja sveitarfélögin til að velja þessa leið. Það verður greinilega fjárhagslega mjög freistandi þegar ríkið veifar gulrót, 20% stofnstyrkjum, eins þótt um rekstrarleigusamninga sé að ræða. Þó eiga hefðbundnir leigusamningar að vísu ekki að falla undir ákvæðið enda væri það kostulegt ef menn hefðu fundið út úr því að þau gætu fengið 20% stofnframlag bara ef þau leigja húsnæði einhvers staðar úti í bæ, undir skólahaldið tímabundið. (GÁS: Bitamunur en ekki fjár.) Það má kannski segja að það sé ekki allur munur á því og hreinum rekstrarleigusamningi. Það er mikið rétt.

Herra forseti. Þetta teljum við alveg fráleitan frágangsmáta. Ég leggst gegn honum og mun greiða atkvæði gegn þessari málsgrein frv. Það sem ég gæti sæst á og um það flyt ég brtt. --- ég lít á það sem samkomulagstilboð --- er að menn segðu sem svo: Við skulum ekki leggjast gegn því að gera fortíðina upp vegna þeirra samninga á eignarleigugrunni sem gerðir hafa verið fram að gildistöku þessara laga. Auðvitað má segja að þau sveitarfélög sem hafa fengið leyfi stjórnvalda til að ráðast í slíkar framkvæmdir hafi gert það í góðri trú um að þau yrðu jafnsett öðrum. En drögum strikið þar a.m.k. þangað til búið er að ákveða leikreglurnar í þessum efnum og fá botn í það hvort svona ævintýralega eigi að vera frá þessu gengið að enginn greinarmunur sé gerður á því hvert samningsformið er. Ég sé ekki hvernig í ósköpunum menn ætla að réttlæta það, eins og ég hef áður nefnt.

Herra forseti. Ég legg því til þessi málsgrein orðist eins og segir í brtt. sem ég flyt sem minni hluti félmn. á þskj. 1231:

,,Ráðstöfunarfé skv. 1. mgr. skal varið til að greiða allt að 20% af viðmiðunarkostnaði við grunnskólabyggingar í sveitarfélögum með 2.000 íbúa og yfir, í samræmi við viðmið og reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eins og þær eru hverju sinni.`` --- Þetta er í raun óbreytt. En svo kemur: ,,Aðeins er heimilt að veita styrki til stofnframkvæmda við grunnskóla sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, sem þegar hafa verið gerðir og eru frágengnir við gildistöku laga þessara. Gildir það jafnt um samninga ...``

Þetta væri þá a.m.k. að því leyti til mun skárra að þarna væru dregin skýr skil við gildistöku laganna og eftir það vissu sveitarfélög að hverju þau gengju í þessum efnum. Þau gætu ekki treyst á að opnað yrði fyrir að þau fengju slíka stofnstyrki. Það er verið að fara, herra forseti, algjörlega frá öfugum enda í þetta mál að öllu leyti. Fyrst læðir hæstv. menntmrh. heimildinni til meiri hlutans í Hafnarfirði, íhalds- og framsóknarmeirihlutans þar, á grundvelli þess að verið sé að gera tilraun í skólastarfi, sem virðist nú ganga svona og svona ef marka má mannahaldið og fleiri fréttir sem maður fær af þeim bæ. Svo á að koma með þetta mál í staðinn fyrir að móta einhverja stefnu um þetta, takast bara á um þetta mál og svara eftirfarandi spurningu: Ætla menn út á þá braut að leyfa einkarekstur á venjulegum hverfisgrunnskólum, jafnvel þannig að sveitarfélögin eigi þá ekki að samningstímanum liðnum og séu ofurseld aðilanum sem á eina skólahúsnæðið í hverfinu? Vilja menn virkilega fara inn á þá braut þegar öll rök benda til þess að þetta verði dýrara fyrir alla aðila þegar upp er staðið? Ekki ómerkari reikningshaus en hv. þm. Gunnar Birgisson hefur komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki fýsileg leið vegna þess að hún verði dýrari fyrir sveitarfélagið þegar upp er staðið. Auðvitað verður það dýrara. Auðvitað verður rekstur Sóltúns, eða hvað það nú heitir þarna sem Öldungur ehf. rekur, dýrari fyrir ríkið þegar upp er staðið enda var samningurinn boðinn til sölu á 700 millj. kr. sem menn töldu bara handavinnu að hafa út úr honum. Koma þeir peningar af himnum? Nei, þeir koma úr ríkissjóði. Nákvæmlega eins verður það með þessa dellu, þessa steypu nýfrjálshyggjunnar, að fara út í þessa einkaframkvæmd á svona þjónustumannvirkjum sem eiga auðvitað að vera í eigu sveitarfélaganna. Yfirgengilegt er að ofstækið skuli vera svo algert að menn láti ekki einu sinni við bindast og hlífi sjálfum kjarnanum í velferðarkerfinu fyrir þessari nauðhyggju sinni, séu komnir á fulla ferð með það að einkavæða til þess að hægt sé að okra á börnunum í grunnskólanum og gamla fólkinu á hjúkrunarheimilinum. Framsókn lötrar með eins og venjulega. Gamla Framsókn lötrar götuna fram á eftir íhaldinu og lætur sig ekki muna um það í hverju málinu á fætur öðru. Þetta er eitt ágætt dæmi um hversu dapurlega er komið á þeim bænum, herra forseti.

Þessu máli þarf a.m.k. að snúa við svona. Menn geta þá farið í þá vinnu í framhaldinu sem ætti auðvitað að byrja á. Auðvitað mun þetta einkavæðingarfyllerí renna af mönnum. Það mun sem betur fer renna af mönnum einhvern tíma. Það er alveg ljóst því að menn sjá auðvitað að þetta er tóm vitleysa. Menn munu sjá að þetta er eins og hvert annað fár og hefur hvergi leitt til neins velfarnaðar. (Gripið fram í: En timburmennirnir verða erfiðir.) Timburmennirnir gætu orðið langvinnir og erfiðir. Það er eins víst að Framsókn eigi eftir að liggja í rúminu í nokkur ár ef hún nær sér þá upp úr þessu yfir höfuð. (Gripið fram í: Með móral.) Það er auðvitað löngu tímabært að gefa þeim hvíldina í þessu sambandi og að fleira leyti. Þangað til verður að reyna að standa í vörninni. Það væri m.a. hægt með því að setja þau mörk núna að menn geri upp fortíðina --- sjálfsagt má færa fyrir því einhver rök að slíkt geti verið sanngjarnt --- en hafist þá ekki að frekar í þessa átt. Það er þá alfarið á ábyrgð sveitarfélaganna og þeirra mál ef þau vilja reyna þetta eftir sem áður án þess að fá stofnstyrkina. Menn fari síðan í gegnum þetta á grundvelli menntastefnu og skólastefnu og ákvæða sem verða þá sett í lög um málefni grunnskólans og annars staðar þar sem taka þarf á þessum hlutum ef þeir ætla inn á þetta spor, t.d. í sambandi við bókhald ársreikninga sveitarfélaga og annað í þeim dúr, þ.e. hvernig þeir ætli að hafa þetta þannig að ekki þurfi að standa í að rífast um það. Svo geta menn tekið á þessum endum málsins ef eða þegar það yrði tímabært, sem ég mundi þó vona að yrði ekki því menn sæju að sér og hættu við þetta.

Herra forseti. Ætli ég láti þetta ekki nægja sem framsöguræðu fyrir þessari brtt. Ég hef þá í raun gert sömuleiðis grein fyrir minnihlutaáliti mínu, þótt munnlegt sé, við þessa umræðu um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Það eina sem má segja að sé jákvætt við þetta mál er að ríkið ætlar af rausn sinni að halda áfram þarna, að vísu án þess að leggja neitt af mörkum sjálft því að sveitarfélögin eiga eins og venjulega að borga sér greiðann sjálf út úr sjóðum sínum. En það á að útbúa kerfi til þess að færa þarna út úr sjóð undir handarjaðri sveitarfélaganna sem virðast vera aflögufær ef marka má þetta frv., áframhaldandi fjármuni til að framlengja þetta átak að reyna að ljúka einsetningu grunnskólans eða a.m.k. stuðla að því að það verði hægt hvað húsnæðisforsendur snertir og setja þarna inn nýtt þriggja eða fjögurra ára tímabil. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert. En á því máli er þessi ágalli sem ég get á engan hátt sætt mig við að verði svona frágenginn. Fáist brtt. mín ekki samþykkt mun ég greiða atkvæði gegn þessari málsgrein frv.