2002-04-30 00:30:44# 127. lþ. 132.21 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[24:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. tali dálítið um hug sér þegar hún lýsir því að hún sé mjög undrandi á þeirri afstöðu sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur tekið í þessu máli. Ætli það sé ekki að koma á daginn hér eins og endranær að við erum algerlega sjálfum okkur samkvæm. Við erum andvíg þessari einkavæðingu velferðarþjónustunnar, undirstöðu stofnana þar eins og grunnskólanna, og tökum afstöðu í samræmi við það. Við erum ekki bundin af neinu öðru en stefnu okkar flokks og samvisku í því sambandi þegar við tökum afstöðu á Alþingi. Þessi umsögn Reykjavíkurborgar hefur því a.m.k. ekki áhrif á mína afstöðu, ekki eitt milligramm, og ég held að það gildi um alla okkar félaga hér.

Ég get ekki svarað fyrir það á hvaða grunni þessi umsögn Reykjavíkurborgar er reist þótt hún sé dagsett 10. apríl. Hitt veit ég að málefnasamningur þeirra sem nú eru að ganga sameiginlega til borgarstjórnarkosninga tekur gildi við þær kosningar. Hann verður grundvöllur hins nýja meiri hluta í Reykjavík á næsta kjörtímabili og eftir honum verður væntanlega starfað. Þá mundi umsögn af þessu tagi ekki vera í samræmi við þá stefnu eins og ég hef lesið hana.

Ég hef átt kost á því að skoða þann málefnasamning og tel hann mjög góðan. Ég tel að okkar félagar, í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í Reykjavík, hafi náð þar miklum árangri, m.a. í því að girða fyrir kvilla af þessu tagi. Ég endurtek og ítreka að það eru algerlega hreinar línur að þar er einkavæðing velferðarþjónustunnar ekki á dagskrá, þvert á móti er tekið fram með pósitífum hætti, ég held ítrekað, að slíkar stofnanir skuli vera í eigu sveitarfélagsins eða hins opinbera, og ég treysti því og trúi að eftir því verði starfað á næsta kjörtímabili. Annað get ég ekki um það mál sagt í sjálfu sér.

Síðan eiga menn náttúrlega bara að taka afstöðu til þess hvort þeir telja þetta skynsamlegt og rétt eða ekki. Menn eiga ekki að vera að búa sér til afstöðu eftir því hvort einhverjum öðrum hafi farið með þessum eða hinum hætti. Eigum við ekki að greiða atkvæði í samræmi við samvisku okkar á þinginu? Það er a.m.k. hollt fyrir sessunaut hv. þm. að velta því fyrir sér.