2002-04-30 01:04:18# 127. lþ. 132.21 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[25:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hljótum að þekkja báðir hvernig staðan er í sambandi við samstarf flokka í Reykjavík. Ég og hæstv. félmrh. höfum báðir ágæt sambönd til að vera upplýstir um gang mála þar. Hér var nefnt nafn 1. varamanns af R-lista í borgarstjórn Reykjavíkur hygg ég vera, Árna Þórs Sigurðssonar, sem á sem einstaklingur sæti í þessari borgarstjórn en var kjörinn inn í hana á grundvelli þess samkomulags sem gert var um R-listann 1998. Það sem ég sagði stendur og er rétt að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð á ekki flokkslega aðild að núverandi R-lista heldur er þátttakandi í kosningabandalaginu sem býður fram við næstu kosningar.

Að öðru leyti fundust mér rök hæstv. félmrh. ekki mjög beysin þegar hann reyndi að útskýra fyrir okkur hvers vegna frv. væri á þessum grunni, að það væri enginn greinarmunur gerður á eignarleigu- og rekstrarleigusamningum og þetta haft galopið. Eiga þannig meira að segja sveitarfélög sem láta byggja grunnskóla í einkaframkvæmd með rekstrarleigusamningi og leggja aldrei út fyrir stofnkostnaðinum sem slíkum --- eigandinn alla tíð annar --- að geta fengið þessa stofnstyrki samkvæmt þessu furðulega frv. hæstv. ráðherra? Hvert var svarið? Samband ísl. sveitarfélaga vill hafa þetta svona, og þar með voru það fullgild rök. Það er ekki eins og guð almáttugur hafi talað þó að Samband ísl. sveitarfélaga vilji hafa eitthvað einhvern veginn. Og ég var að spyrja um afstöðu hæstv. félmrh. Hann á ekki að vera hér eins og lúður eða málpípa fyrir Samband ísl. sveitarfélaga. Hefur hæstv. félmrh. engan sjálfstæðan vilja? Enga meiningu? Finnst honum þetta gáfulegt, hæstv. ráðherra?