2002-04-30 01:11:13# 127. lþ. 132.24 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[25:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni og okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði til þessa máls við 1. umr. og hún stendur óbreytt. Það eru mikil vonbrigði að þegar loksins hillir undir einhverja niðurstöðu í samskiptum sveitarfélaganna og ríkisins hvað varðar uppgjör á fortíðarvandanum vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis er framlag ríkisins jafnhraksmánarlega lítið og raun ber vitni. Í raun og veru eru sveitarfélögin að semja um það við ríkið að senda þeim sjálfum reikninginn.

Þessi vandi sem talinn er af stærðargráðunni 2--3 milljarðar kr. sem er mismunurinn á markaðsvirði íbúða sem innlausnarskylda hvílir á, þ.e. þeirra tekna sem af sölu þeirra mætti hafa á viðkomandi svæðum, er af þessari stærðargráðu. Þátttaka ríkisins eftir allt þófið, eftir að ekkert hefur gerst í fjögur ár, felst í þessum ósköpum, 60 millj. kr. á ári í fimm ár. Á móti falla niður þau framlög sem áður var búið að heita að ríkið legði til í varasjóð viðbótarlána. Og það sem er alvarlegast, herra forseti, er að ríkið er búið að vanefna fyrirheitið um að leggja 50 millj. á ári í varasjóð viðbótarlána. Það er búið að vanefna það núna í þrjú ár. Ég hygg að einu sinni hafi komið 50 millj. og í annað skipti einhverjir smáaurar þannig að það eru líklega 60--65 millj. kr. af 200 sem ættu að vera komnar í sjóðinn sem ríkið hefur raunverulega greitt. Nú er slegið striki yfir það allt saman og þetta hækkað um 10 millj. á ári frá því sem lofað var á sínum tíma, 1998, 50 millj., 60 millj. nú, í fimm ár og búið. Það er þátttaka ríkisins upp í vanda af þessari stærðargráðu sem hér er verið að taka á að hluta til með þessum pakka upp á eitthvað aðeins á annan milljarð kr. þar sem, eins og áður segir, sveitarfélögin eru í raun og veru að leysa vandann á eigin reikning að uppistöðu til með beinum fjárframlögum eða fjárveitingum úr sjóðum sínum sem aftur kemur svo niður á getu þeirra til að greiða jöfnunarframlög eða annað í þeim dúr. Auðvitað er þetta alveg hraksmánarleg lending og ekki síst þegar haft er í huga, herra forseti, að ríkið hefur gríðarlega hagsmuni af því, og er að leysa sig undan miklum greiðslubyrðum sem áframhaldandi starfræksla kerfisins hefði haft í för með sér. Það var fyrst og síðast hagsmunamál fyrir ríkið eins og í pottinn var búið að loka kerfinu og hætta vaxtaniðurgreiðslunum í Byggingarsjóð verkamanna eða að gera upp fjárhagsvanda hans, því velt yfir á Byggingarsjóð ríkisins í raun og veru og í gegnum sameiningu þessara sjóða í lánasjóði. Síðan er búinn til nýr sjóður, eða gamall sjóður skírður upp á nýtt, svokallaður varasjóður viðbótarlána sem á nú að heita varasjóður húsnæðismála. Ríkið ætlar að leggja í hann þetta skiterí vegna þess að hæstv. félmrh. hefur ekki fengið meira, hann hefur ekki náð meiru út úr íhaldinu, og ekki tommað með meira en þetta. Þetta er niðurstaðan í hverju málinu á fætur öðru og útkoman sú að það er níðst á sveitarfélögum.

[25:15]

Síðan hælist hæstv. ráðherra um það hér í umræðum hversu gott samkomulagið sé við Samband ísl. sveitarfélaga. Hvers vegna skyldu sveitarfélögin verða að lúta að afarkostum af þessu tagi? Jú, það er af því að þau hafa enga samningsstöðu. Samskipti þeirra við núverandi valdhafa eru þannig að þau eru alltaf á hnjánum í öllum þeim samningum og verða að lúta að svona litlu. Það þarf enginn að segja mér að forsvarsmenn sveitarfélaganna hafi gert það með glöðu geði að skrifa undir þá forsmán sem þarna er á ferðinni. Ekki verður þetta liður í að styrkja stöðu sveitarfélaganna eða bæta afkomu þeirra sem hefur farið hríðversnandi undanfarin ár. Þegar upp er staðið eftir áralangt samningaþóf um þetta mál er staðan vanefndir árum saman á því að nokkur skapaður hlutur væri gerður. Þar á meðal hefur niðurstaðan líklega dregist í meira en tvö ár eftir að starfshópur skilaði niðurstöðu sem ég hygg að hafi verið vorið 2000. Kann ekki að vera rétt munað að þá þegar hafi legið fyrir ákveðnar tillögur sem síðan var ekkert gert með? Hæstv. félmrh. hefur ekki komist áfram með þær fyrr. Núna tekur fjallið jóðsótt og þessi litla mús fæðist, þessi ráðstöfun.

Hitt má svo segja, herra forseti, að það sé allt betra en ekki neitt í þessum efnum, það litla sem þetta sé sé þó skárra en ekki neitt, sé örlítið hænufet í rétta átt. Af þeirri ástæðu vill maður ekki leggjast gegn frv. og ég skrifaði því undir nál. meiri hlutans í þessu máli sem mælir með samþykkt frv. með fyrirvara og hef hér gert grein fyrir hvað honum veldur. Það er sem sagt fyrst og fremst það að ég tel að þátttaka ríkisins í því að gera upp þennan vanda sé allt of lítil, hér sé verið að láta sveitarfélögin sæta afarkostum. Þetta eru í mörgum tilvikum sveitarfélög sem eru jafnframt í miklum þrengingum af öðrum ástæðum en þeim sem lúta að uppsöfnuðum og gömlum vanda vegna félagslegs húsnæðis. Mjög margir þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni við sjávarsíðuna eiga um sárt að binda þar sem voru umtalsverðar byggingar á félagslegu húsnæði, kannski á 8., 9. og fram á 10. áratuginn, og menn sitja uppi með tiltölulega hátt hlutfall félagslegs húsnæðis. Þessar skuldbindingar geta hlutfallslega verið sveitarfélögunum mjög þungbærar.

Þau sveitarfélög hafa mörg hver nú þegar verið í miklum þrengingum vegna ástands mála, jafnvel að einhverju leyti búið við það að íbúðir stæðu tómar og þau ekkert haft nema kostnaðinn af þeim. Þó að seint sé hefði verið strax í áttina að taka nú sæmilega myndarlega á þessum vanda með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga en í raun og veru er ekki verið að gera það hér heldur á þetta fyrst og fremst að leysast á kostnað sveitarfélaganna. Þau eiga að borga sjálfum sér og þess vegna er ekki, herra forseti, hægt að gleðjast yfir þessari niðurstöðu eða telja hana einhvern mikilsverðan lið í því að bæta stöðu sveitarfélaganna. Svo er ekki, því miður. Hér er allt of skammt gengið.