2002-04-30 01:18:26# 127. lþ. 132.24 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[25:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom þegar mælt var fyrir nál. skrifaði ég undir það með fyrirvara. Fyrirvari minn er að nokkru leyti líkur fyrirvara fyrri hv. ræðumanns. Hér er auðvitað verið að bregðast við vanda sem upp kom eftir að félagslega húsnæðiskerfinu var lokað 1998 og hefði auðvitað þurft að bregðast við þeim vanda fyrr. Ég tek undir að þetta er heldur lítið sem kemur til. Það kom fram í nefndinni að menn hefðu ekki náð betri árangri en hefðu gjarnan viljað sjá þarna koma meira til.

Kerfið var orðið þannig að menn voru nánast í átthagafjötrum í íbúðum sínum, gátu ekki stækkað við sig eða breytt til eftir því sem fjölskyldustærðin breyttist. Nú hafa menn sem sagt heimild til að selja íbúðirnar, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Það kom fram í nefndinni að það er verulegur vandi í húsnæðismálunum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. 450--500 bíða í 3--4 ár hjá Öryrkjabandalaginu eftir íbúðum. Það er langur biðlisti hjá Félagsstofnun stúdenta eftir íbúðum, þrjár umsóknir um hverja íbúð þar. Hjá Búseta eru margar umsóknir um hverja íbúð. Það var eiginlega segin saga, það var sama hverjir komu fyrir nefndina, alls staðar var veruleg þörf fyrir húsnæði. Ég tel að hér sé alls ekki nógu langt gengið en þó er verið að bregðast við ákveðnum vanda sem upp var kominn. Það er vel, það var þörf á því.

Fyrirvari minn snýr að því að þarna hefði þurft að ganga lengra. Í raun eru það að hluta til sveitarfélögin sjálf sem greiða þann kostnað sem hér fellur til. Eins og fram hefur komið er þetta samkomulagsmál við sveitarfélögin um hvernig að þessu verður staðið og náðist ekki meira út úr því samkomulagi.