2002-04-30 01:34:38# 127. lþ. 132.23 fundur 620. mál: #A vörur unnar úr eðalmálmum# (merkingar og eftirlit) frv. 77/2002, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[25:34]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Öllu má nafn gefa. Hv. þm. og formaður efh.- og viðskn. segir að þetta mál hafi verið töluvert í undirbúningi og það hafi verið sent til umsagnar. Ja, þakka skyldi að mál séu send til umsagnar, herra forseti.

Má ég benda hv. þingmanni á að tvenn samtök sem veittu umsögn um þetta frv., Samtök verslunar og þjónustu og líka Samtök verslunarinnar, kvörtuðu um það að þau hefðu fengið allsendis ónógan tíma til að móta umsagnir sínar. Önnur þessara samtaka kvörtuðu undan því að vegna tímaskorts hefði þeim ekki tekist að veita umsagnir um einstök ákvæði frv. Ég spyr því hv. þm. hvort hann telji nefndinni til sóma að vinna með þessum hætti, senda málið til umsagnar með svo knöppum fresti að samtökin sem veita umsögnina telji að þau geti ekki veitt nægilega ítarlega umsögn. Er hv. þm. og formaður nefndarinnar stoltur yfir þessum vinnubrögðum?

Ég spyr líka, herra forseti: Hvað er það sem rekur til þess að setja löggjöfina? Ég bendi á að í umsögn Samtaka verslunarinnar er því haldið fram að þetta geti verið skaðlegt fyrir innflutning og sé allsendis óþarft vegna þess að ljóst sé að breyta þurfi þessum lögum innan skamms þar sem nú er í bígerð tilskipun hjá Evrópusambandinu sem við þurfum auðvitað að taka upp í löggjöf okkar eins og hv. þingmanni er kunnugt um.