2002-04-30 01:36:25# 127. lþ. 132.23 fundur 620. mál: #A vörur unnar úr eðalmálmum# (merkingar og eftirlit) frv. 77/2002, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[25:36]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Markmiðið með þessu frv. er einfaldlega að gera vörur íslenskra gullsmiða útflutningshæfar. Þeir sem fjölluðu um frv. voru nokkuð sammála því að það væri hið besta mál og það ætti ekki að leggja stein í götu íslenskra gullsmiða á erlendum mörkuðum. Ég held að það sé sameiginlegt hagsmunamál okkar, þingmanna, að hið ágæta lið sem stundar gullsmíði á Íslandi geti flutt út sínar ágætu vörur. Til þess þurfa þær að vera vel merktar og eftir ákveðnum stöðlum sem um þessar merkingar gilda.

Hv. þm. er vel að sér í mannkynssögu og veit að margir gullsmiðir í gegnum tíðina hafa verið gripnir fyrir það að þynna það dálítið út. Þetta frv. er til þess fallið að koma í veg fyrir að íslenskir gullsmiðir fái slíkt orð á sig. Jafnmikill vinur íslenskra gullsmiða og hv. þm. getur varla annað en tekið þátt í að styðja þetta mikla framfaramál íslenskra gullsmiða.