2002-04-30 01:41:14# 127. lþ. 132.23 fundur 620. mál: #A vörur unnar úr eðalmálmum# (merkingar og eftirlit) frv. 77/2002, Frsm. minni hluta ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[25:41]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Eftir að hafa hlýtt á þessa ræðu hv. formanns efh.- og viðskn. get ég ekki annað en farið með þá vísu sem er einna frægust þeirra sem tengjast gulli og gersemum, og tileinka hana hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni:

  • Ég er gull og gersemi,
  • gimsteinn elskuríkur.
  • Ég er djásn og dýrmæti,
  • drottni sjálfum líkur.
  • Herra forseti. Ég kem hingað vegna þess að ég er í sjálfu sér sammála meginatriði þessa frv. Ég er þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er líka, að færni íslenskra gullsmiða sé ákaflega mikil. Ég tel sem sagt nauðsynlegt að gera þeim kleift að flytja út varning sinn þannig að þeir geti átt í alþjóðlegri samkeppni. Það hefur verið talsvert erfitt vegna þess að, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði, einhverjir í þeirra hópi virðast hafa hyllst til þess að þynna gullið í gripum sínum eða a.m.k. sagði framkvæmdastjóri Verslunarráðs að hann vildi koma í veg fyrir að íslenskir gullsmiðir gætu legið undir slíkum grun. Tek ég nú fram að ég held að hvorugur okkar sé þeirrar skoðunar að nokkur þeirra hafi gerst sekur um slíkt og enginn í stéttinni sé þeirrar gerðar að láta sér nokkurn tíma koma til hugar að gera slíkt. En allur er varinn góður.

    Við vitum að til þess að ná fótfestu á erlendum mörkuðum er nauðsynlegt að geta sýnt fram á að álitið sem við hv. þm. Vilhjálmur Egilsson höfum á íslenskum gullsmiðum standist. Því þarf að vera hægt að merkja gripi úr eðalmálmum með sérstökum stimplum. Það er það sem verið er að gera ráð fyrir í þessu frv.

    Betur hefði verið gripið til þessa fyrr, herra forseti. Við höfum löngum verið þeirrar skoðunar, ýmsir, að kleift væri að koma af stað útrás íslenskra gullsmiða á erlendri grundu en allan stuðning til þess framtaks hefur auðvitað skort átakanlega af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég ætla ekki að ráðast sérstaklega á formann Byggðastofnunar sem situr úti í salnum þó að auðvitað megi færa rök fyrir því að kannski væri hlutverk þeirrar stofnunar að gera það sem hún getur til að ýta undir þetta. Við vitum að það eru ákaflega góðar gullsmíðar í hinum dreifðu byggðum landsins. Ég bendi hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, af því að hann virðist ekki kinka kolli því til samþykkis, á að t.d. í höfuðstað kjördæmis hans, Ísafirði, hefur til skamms tíma verið rekið ákaflega mektugt gullsmíðaverkstæði og þar var svo fær gullsmiður að það var talið jafnvel mögulegt og nauðsynlegt að setja upp sérstaka gullsmíðabraut við Menntaskólann á Ísafirði. Þetta veit ég að hv. þingmanni er kunnugt um því að hann hefur líka mikinn áhuga á menntun eins og hann hefur margsinnis sýnt. (GuðjG: Hann er fluttur til Akraness.) Hér kallar fram í annar stjórnarmaður í Byggðastofnun að viðkomandi gullsmiður sé fluttur til Akraness og þar af leiðandi ekki úr kjördæminu og það er auðvitað vel --- þetta eru nú gamanmál, herra forseti.

    Við erum að tala hér um grafalvarlegt mál. Ég var sem sagt þar kominn í ræðu minni að ég var að segja að ég tæki undir með hv. formanni efh.- og viðskn. að sannarlega væri nauðsynlegt að aðstoða íslenska gullsmiði við þessa útrás (Gripið fram í: Um hvað er ágreiningurinn?) og það hefði verið hægt að gera með ýmsu öðru móti. Nú kallar formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fram í og sýnir að hann skortir átakanlega skilning á þessu mikla þjóðþrifamáli. Hann spyr: Hver er ágreiningurinn?

    [25:45]

    Þó að menn vilji styðja góð mál er ekki sama hvernig það er gert. Ákveðinn ágreiningur hefur t.d. komið fram milli mín og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um það hvernig eigi að taka á mönnum eins og ráðherrum sem fara út fyrir það sem við getum kallað hinn lögboðna ramma. Ég hef sagt það hér að ég vil auðvitað veita þeim tiltal og taka í hnakkadrambið á þeim en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur hótað þeim 20 ára tukthúsvist. Ég bendi á það og rifja það hér upp vegna þess að það sem ágreiningurinn stendur um og alvarlegustu athugasemdir okkar sem erum í minni hluta í þessu máli eru að frv. veitir stjórnvöldum ákaflega rúmar heimildir til að ráðast jafnvel inn á starfsstöð gullsmiða til að kanna hvort þeir hafi gerst sekir um það sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson nefndi áðan, sem sé að þynna gullið.

    Bæði Félag ísl. gullsmiða, sem við tökum fullt mark á í þessum efnum því að það er frumkvöðull að þessari löggjöf, og Samtök iðnaðarins hafa mótmælt því harðlega að stjórnvöldum séu með þessari löggjöf veitt ákaflega víðtæk úrræði til að framfylgja lögunum. Látum vera með sölubann sem hv. þm. samþykkir hér og beitir sér fyrir án þess að blikka auga, látum vera með dagsektir sem framkvæmdastjóri Verslunarráðsins nánast klappar fyrir í ræðustóli. Það allra versta, herra forseti, eru húsleitarheimildir sem eru líka veittar samkvæmt þessum lögum. Þetta eru galopnar rannsóknarheimildir sem er ekki hægt að jafna við annað en að verið sé að veita stjórnvöldum heimild til að ráðast inn á starfsstöð viðkomandi gullsmiða og taka þar alls konar gögn o.fl.

    Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að vara verði við óhóflegum valdheimildum til stjórnvalda sem gætu þrengt að eðlilegu viðskiptafrelsi og jafnvel persónuvernd.

    Ég sé að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson glottir við tönn þegar ég nefni persónuvernd í tengslum við íslenska gullsmiði. En við getum einfaldlega ekki horft fram hjá því að þeir eru yfirleitt einyrkjar, þeir tengjast litlum fyrirtækjum sem oft eru innan vébanda einnar og sömu fjölskyldu. Þegar verið er að veita stjórnvöldum heimild til að ráðast inn á starfsstöðina og taka þar alls konar gögn til að kanna hvort gullið sé þynnt í deiglunni er auðvitað verið að veita mönnum ansi rúmar heimildir til að skerða eða fara á svig við það sem við höfum litið á sem eðlilega persónuvernd.

    Ég ætla ekki að inna hv. þm. Ögmund Jónasson eftir því hvað veldur því að hann styður svoleiðis átölulítið, þessi hv. þm. sem hefur verið í framvarðasveit þeirra í þinginu sem láta sig slíkt varða. Ég hef fylgt oft í kjölfar hans til að berjast gegn því að hér sé lætt inn alls konar lagaákvæðum sem veita heimildir sem veikja persónuvernd okkar Íslendinga. (ÖJ: Bíddu.)

    Minn ágreiningur, herra forseti, af því að spurt er úr sal, við hv. þm. Vilhjálm Egilsson og alla aftaníossa hans felst sem sagt í því að ég hefði viljað að nefndin gæfi sér miklu rýmri tíma til að skoða þetta mál, fresta því fram á haustið, samþykkja meginatriðið en afnema þessar víðtæku galopnu rannsóknarheimildir sem geta ekki með nokkru móti, finnst mér, stutt eðlilegt viðskiptafrelsi í dag. Þetta er það sem mér finnst vera verst við þetta frv. Ég gæti auðvitað ært óstöðugan þó að fáir slíkir séu í salnum með því að fara út í rök sem tengjast Evrópsambandinu. Ég veit að margir hafa áhuga á slíkri umræðu en ég ætla ekki að gera þeim það til geðs að gera það núna af því að ég sé að tekið er að halla að morgni og ýmsir kannski orðnir rauðeygðari í kvöld en þeir voru í morgun.

    En, herra forseti, til þess að greiða fyrir þingstörfum og til að koma í veg fyrir að mál sem er kannski ekki svo stórvægilegt í eðli sínu verði til þess að hleypa þingstörfum í uppnám linni ég máli mínu. Sannarlega er hægt að finna tilefni til frekari umræðna ef menn hefðu vilja til þess, herra forseti, því að hér er um að tefla grundvallaratriði eins og ég hef sagt, persónuvernd og eðlilegt viðskiptafrelsi. Auðvitað sætir undrun að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem hefur talið sjálfan sig vera frumkvöðul þeirra sem vilja efla frelsi á öllum sviðum skuli styðja þetta. Ég fékk engin rök fyrir því, herra forseti, í starfi okkar í nefndinni og ég hef engin rök heyrt fyrir því heldur hér.

    Ég hefði, herra forseti, talið eðlilegt að t.d. Samtökum verslunarinnar væri gefinn tími til að leita eftir umsögnum ýmissa eininga innan vébanda sinna, eins og þeir óskuðu eftir. Það fékkst ekki. Það breytir því ekki, herra forseti, að Félag ísl. gullsmiða telur --- þótt það átelji harðlega ýmislegt í þessu sem ég hef þegar nefnt --- að frv. sé nauðsynlegt til þess að geta stutt framrás þessarar listgreinar á erlendri grundu og ég vil ekki leggja stein í götu þeirrar framrásar. Það hryggir mig að sá ágæti maður sem stýrir starfi efh.- og viðskn. skuli ekki hafa hlustað betur á okkur innan nefndarinnar sem vöruðum hann við því að feta út á þessa braut, sem vöruðum hann við því að með þessu væri hann að setja ákveðin fordæmi sem er auðvitað eðlilegt að menn freistist til að taka upp gagnvart öðrum viðskiptagreinum líka. Ef það er hægt að veita svona galopnar rannsóknarheimildir gagnvart íslenskum gullsmiðum, hvers vegna ekki gagnvart íslenskum verslunarjöfrum? Hvað með olíurisana, tryggingafélögin? Er það það sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson vill? Ég veit að í hjarta sínu er hann ekki þeirrar skoðunar og þess vegna er mér allsendis ómögulegt að skilja hvers vegna hann frestaði þessu máli ekki fram á haustið, skoðaði það betur, nam brott þau ákvæði frv. sem skelfilegust eru og harkalegast vega að persónuvernd og viðskiptafrelsi. Svo hefðum við getað samþykkt þetta með góðri samstöðu.

    Herra forseti. Eins og ég sagði ætla ég ekki að hleypa þingstörfum í uppnám út af þessu máli þannig að ég er ekki andstæður meginatriðum frv.