2002-04-30 01:52:08# 127. lþ. 132.23 fundur 620. mál: #A vörur unnar úr eðalmálmum# (merkingar og eftirlit) frv. 77/2002, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 127. lþ.

[25:52]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. gat þess í ræðu sinni að þetta frv. hefði þurft að vera komið fram fyrir lifandi löngu þannig að ég tók það sem stuðning við það að málið þyldi enga bið.

Hv. þm. hefur áhyggjur af leitarheimildum eftirlitsmanna sem spá í það hvort gull hafi verið þynnt út. Nú er hv. þm. vel kunnugt að þegar löggjöf af þessu tagi er sett á vettvangi Evrópusambandsins sem hann þekkir mjög gjörla er venjulega gert ráð fyrir afar rúmum leitarheimildum. Til þess að vera með eitthvert alvörufrv. sem ekki þyrfti mikilla breytinga við þegar væntanleg tilskipun kemur er þetta til staðar í löggjöfinni.

Hins vegar held ég að við hv. þm. getum verið sammála um að það verði ekki mikil tilefni til að leita mjög ákaft á starfsstöðum íslenskra gullsmiða að þynntu gulli. Ég held að íslenskir gullsmiðir séu ekki svo þunnir að þeir fari að þynna gull. Ég held að samt sé gott að hafa þetta. Og ég veit að íslenskir gullsmiðir eiga, margir hverjir, ágætiskaffi á könnunni handa þessum eftirlitsmönnum ef þeir skyldu reka inn nefið. Örugglega verður vel tekið á móti þeim og ekki nein vandamál í sambandi við þessar leitarheimildir. Ég endurtek að ég á ekki von á því að þetta verði til mikils trafala fyrir land og þjóð og það markmið frv. náist að íslenskir gullsmiðir geti komið vörum sínum hindrunarlaust á markað.