Húsnæðismál

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 11:00:31 (8501)

2002-04-30 11:00:31# 127. lþ. 133.6 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sá mikli dráttur sem orðið hefur á að botn kæmist í samskipti ríkis og sveitarfélaga varðandi uppgjör á uppsöfnuðum vanda frá því að félagslega íbúðalánakerfinu var lokað er mjög ámælisverður. Eins og kunnugt er voru þessi lög sett 1998. Síðan hefur verið stapp um þetta mál. Gagnrýnisverðara er þó að þegar niðurstaðan birtist mönnum loksins sé hlutur ríkisins jafnrýr í þessu sambandi og raun ber vitni. Það er afar mögur uppskera eftir allt þetta þóf að ríkið skuli heita 10 millj. kr. á ári í fimm ár í viðbót við það sem áður hafði verið lofað, 60 millj. á ári í staðinn fyrir 50, sem heitið var við setningu laganna á sínum tíma samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða um greiðslur í varasjóð viðbótarlána.

Það er sérstaklega gagnrýnisvert, herra forseti, að ríkið skuli ætla að neyta aflsmunar í samskiptum við sveitarfélögin og knýja þau til að skrifa undir samning um að þau leysi vandann með því að greiða fyrir það úr eigin vasa. Það er meginniðurstaða þessa máls.

Þetta gagnrýnum við, herra forseti, mjög harkalega. Að öðru leyti er málið jákvætt, svo langt sem það nær. Það er ekki um annað að ræða en aflétta þeirri forkaupsréttarskyldu sem hefur hneppt fólk í fjötra eftir að kerfinu var lokað og menn hættu að geta fært sig til innan þess o.s.frv. eins og þekkt er. Með þessum fyrirvörum, herra forseti, teljum við betra en ekki neitt að þetta frv. fái brautargengi. Það er náttúrlega mjög dapurlegt að ríkið skuli standa svona að málum og eiginlega óskiljanlegt í ljósi erfiðrar stöðu fjölmargra sveitarfélaga og bágrar afkomu. Í hverju tilvikinu á fætur öðru stendur ríkið svona að málum, neytir aflsmunar og sveitarfélögin eru látin ein um að leysa vanda sinn. (Forseti hringir.)