Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 13:21:12 (8552)

2002-04-30 13:21:12# 127. lþ. 134.29 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, KÓ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[13:21]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Hér erum við að ræða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er sú að í því ágæta lagafrv. sem hér liggur fyrir, sérstaklega í athugasemd við einstakar greinar á bls. 7, kemur fram að ,,til niðurgreiðslu á verði rafmagns til lýsingar og fjárfestingarbúnaðar í ylrækt eru ætlaðar 30 millj. kr. á ári en sú fjárhæð getur tekið breytingum í samræmi við breytingar á notkun rafmagns til lýsingar``. Þetta kemur fram í athugasemdum. Ef bændur auka sem sé lýsingu í gróðurhúsum sínum hækkar þessi krónutala, þessar 30 millj., í takt við aukna lýsingu hjá bændum. Reyndar er annars staðar í frv. talað um að bændur fái sambærilegt raforkuverð og bændur í nágrannalöndum og þá sé niðurgreiðsla 1,08 kr. á kílóvattstund.

Þá kem ég að því hvers vegna ég vil einmitt benda á þetta. Það er vegna þess sem segir í umsögn fjmrn. um frv., samanber efst á bls. 9 í hinu prentaða eintaki, með leyfi forseta: ,,Einnig er gert ráð fyrir að veitt verði 30 millj. kr. árleg niðurgreiðsla á raflýsingu og verður að haga niðurgreiðslu á hverja kWst innan þeirra marka.``

Þarna kemur önnur skýring á þessu máli en ég hef greint frá. Ég átti þess kost að koma á fund nefndarinnar og benti þá á þessa misvísun. Ég get jafnframt bent á að í þeim samningi sem nú þegar hefur verður gerður milli fjmrn., bænda og landbrn. er gert ráð fyrir að þessi tala geti verið breytileg eftir þeirri lýsingu sem bændur nota. Ég tel því að um nokkurn misskilning sé að ræða í umsögn fjmrn.

Að lokum, herra forseti, vonast ég til að sú breyting sem hér er verið að gera varðandi starfsaðstöðu þessarar greinar ásamt því verði sem neytendur fá frá greininni muni verða til hagsbóta fyrir báða aðila, bæði bændur og neytendur.