Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 14:08:19 (8562)

2002-04-30 14:08:19# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom skýrt fram hjá hv. þm. að það sem honum fannst athugavert við þessa eignabreytingu er að nýir eigendur mundu vilja fá arð af hlutafé sínu. Hann hryllti sig hér í ræðustólnum yfir þeirri forsmán að að fyrirtækinu kæmu eigendur sem vildu fá arð af eign sinni. (Gripið fram í: Þetta eru útúrsnúningar.) Það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þm. áðan að breytingin úr því að ríkið ætti hlutabréfin í það að einhver annar aðili ætti hlutabréfin væri skelfileg, m.a. vegna þess að þeir kynnu að vilja fá arð af eign sinni. En það er ekkert annað en verið hefur, eins og fram kemur í nál. fulltrúa Vinstri grænna --- verksmiðjan hefur skilað eigendum sínum drjúgum arði eins og stendur í nál.

Ég verð að segja, herra forseti, að það er átakanleg forneskja að hlusta á ræðuhöld af þessu tagi sem lýsa stefnu Vinstri grænna sem felst í því að ríkið eigi að eiga atvinnufyrirtækin. Þessi forneskja er alveg átakanleg, herra forseti.