Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 14:27:54 (8565)

2002-04-30 14:27:54# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að draga fram hversu ólíkum tökum þeir nálgast viðfangsefnið, hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson annars vegar og Jón Bjarnason hins vegar.

Hv. þm. Jón Bjarnason eyddi öllum sínum ræðum í það að draga í efa styrk fyrirtækisins og sá efasemdum um hæfni þess og rekstur. Það var kjarninn (JB: Þetta er rangt.) í málflutningi þingmannsins að (JB: Útúrsnúningur. Ertu í andsvari við annan þingmann?) sá efasemdum varðandi stöðu fyrirtækisins. (JB: Ertu í andsvari við annan þingmann?) Hins vegar kemur mjög skýrt fram, bæði í nál. hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar og ræðu hans, að hann álítur að fyrirtækið standi mjög vel. Hv. þm. segir í nál. sínu, með leyfi forseta: ,,... ekkert bendir til annars en reksturinn geti áfram gengið vel.``

Í hans huga er enginn vafi á því að reksturinn gangi vel og geti gengið vel. Með öðrum orðum: Þó aðrir nýir eigendur verði að hlutabréfunum er engin ástæða til að ætla annað en reksturinn verði í því horfi sem hann hefur verið vegna þess að reksturinn skilar eigendum sínum góðum arði (JB: En Byggðastofnun ...) þannig að breytingar á eignarhaldi á hlutabréfum eru enginn vendipunktur í þessu efni, herra forseti.

Eins og ég sagði áðan er það átakanleg forneskja að halda því fram í ræðum, eins og hv. þm. Jón Bjarnason, að ef annar aðili eignist hlutabréf sem ríkið á verði það einhver vendipunktur. Að halda því fram að ríkið eigi að eiga öll hlutabréf, í nánast hvaða atvinnugrein sem er, er auðvitað alveg út í hött, herra forseti.

(Forseti (GuðjG): Hv. þm. er í andsvari við hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson og ég bið hann að halda sig við ræðu hans.)

Ég vek athygli á því, herra forseti, að það kom einmitt ekki fram í máli hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar að svo þyrfti að vera, eins og haldið var fram fyrr í umræðunni. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á því að þessir tveir þingmenn hafa mjög mismunandi sýn á málið.