Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 30. apríl 2002, kl. 15:09:53 (8574)

2002-04-30 15:09:53# 127. lþ. 134.1 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal alveg fullvissa hv. þm. um að það getur kostað dálítið að versla við mig. Ég tel mig vera að vinna fyrir Skagfirðinga hér á Alþingi. (Gripið fram í: Ertu ekki að vinna fyrir þjóðina?) Ég tel að ríkið hafi haft þarna þessa peninga í eigin fé í rekstri í Skagafirði og ég tel að ef sá möguleiki kemur upp að flytja þessa peninga úr eigin fénu í steinullinni yfir í eitthvað annað í Skagafirði finnst mér það bara ágætismál. Þannig lít ég á það mál, að ríkið sé búið að leggja þessa peninga inn í Skagafjörð, þeir voru þarna, og ég vil að sem mest af þessum peningum haldist í Skagafirði. Þótt þeir fari úr steinullinni og yfir í eitthvað annað til þess að byggja upp innviði í Skagafirði finnst mér það bara gott mál.

Ég fullvissa hv. þm. um að ég vinn af heilindum að framfaramálum í Skagafirði. Ef ég sé með viðskiptum eða einhverjum öðrum hætti tækifæri í kringum þetta mál til að fá sem mesta peninga út úr því fyrir Skagfirðinga dreg ég sko ekkert af mér við það.